Í dag, 16. september, er dagur íslenskrar náttúru og #TrévikunnarSE að þessu sinni eru þau tré sem 10. bekkur Lundarskóla á Akureyri gróðusettu í gær.
Aðallega var gróðursett sitkagreni en einnig aðeins af stafafuru. Plönturnar eru allar ræktaðar í Sólskógum og fá nú að festa rætur í Laugalandsskógi á Þelamörk en nokkrir stjórnarmenn og starfsmenn SE sáu um skipulag og leiðbeindu hópnum. Það var stuttur aðdragandi en verkefnið fékk góðan byr hjá öllum aðilum og meira að segja ákvað sólin að sýna sig eftir mjög þungbúinn laugardag.
Verkefnið var kallað "Kolefnisjafnaðu skutlið" og var um leið fjáröflun fyrir ferðasjóð 10. bekkjar Lundarskóla. Á rétt rúmri viku seldu krakkarnir um 1.000 plöntur og mættu svo í þremur hópum út í skóg í gær til að koma þeim niður. Við hjá SE finnum fyrir miklum áhuga almennings á skógrækt. Fólk vill gjarnan láta gott af sér leiða, taka til hendinni þannig að það finni að það geri eitthvað gott fyrir náttúruna. Allir sem komu að þessu verkefni eru ánægðir með árangurinn og margir höfðu orð á því hvað þeim hefði fundist gott að koma í skóginn.
Comentários