top of page

Kergi

Updated: Jul 30, 2023

#TrévikunnarSE í þetta skiptið er af sömu ætt og tré síðustu viku. Það kallast kergi eða garðakergi og er einnig nefnt síberískt baunatré. Fræðiheitið er Caragana arborescens. Til eru um 50-80 tegundir af þessari ættkvísl og hafa sumar þeirra verið reyndar hér á landi en engin þeirra er mikið ræktuð. Mest er þó ræktað af garðakerginu. Það hefur meiri útbreiðslu á heimsvísu en aðrar tegundir ættkvíslarinnar og er breytilegra upp af fræi. Það er að auki hávaxnasta tegundin innan ættkvíslarinnar. Það vex í Síberíu, Austur-Evrópu, Vestur-Kína og Norður-Mongólíu á þurrum og oft sendnum stöðum. Það þolir því þurrka betur en margar aðrar tegundir trjáa og runna sem hér eru ræktaðar.


Kergi er af ætt belgjurta eins og gullregnið sem fjallað var um í síðustu viku. Það hefur rótargerla á rótunum sem vinna nitur beint úr andrúmsloftinu. Það þolir því að vaxa á rýru landi og ófrjóu. Á köldum vorum verða laufin oft óeðlilega gul að lit (sjá mynd) og gæti það stafað af því að jarðvegsgerlarnir þurfa ákveðið hitastig til að hefja niturnámið. Guli liturinn er því sennilega vísbending um niturskort. Um leið og hlýnar fara gerlarnir að starfa og tréð fær nitrið sitt og þar með verða laufin græn eins og vera ber.


Kergi verður um 2-5 metrar að hæð, stundum hærra. Oftast er það margstofna runni og getur orðið um 4 metrar í þvermál ef það fær nægt pláss.


Til eru ræktunaryrki af garðakergi. Sum þeirra eru ræktuð vegna slútandi vaxtarlags og önnur vegna fjaðurlaga laufblaða. Slík yrki eru gjarnan grædd á stofna af öðrum plöntum af kergi og stundum jafnvel gullregni líka.


Tegundin blómstrar snemmsumars , gulum blómum sem eru stök eða fá saman. Myndirnar eru úr safni Sigurðar Arnarsonar, stjórnarmanns í SE.Texti fylgdi hverri mynd á Facebook þegar þær voru settar inn og má sjá hann hér.

59 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page