top of page

Jólatré

Updated: Apr 17, 2021

#TrévikunnarSE í desembermánuði er jólatréð. Mikilvægt er að velja íslenskt jólatré. Innflutningur jólatrjáa hefur í för með sér flutning með tilheyrandi útblæstri koltvísýrings. Innfluttu jólatrén eru ræktuð á ökrum og við þá ræktun er notað mikið af áburði og eiturefnum. Eitur er bæði notað til að halda frá illgresi og meindýrum eða sveppasjúkdómum. Íslensku jólatrén eru hins vegar framleidd án þess að nokkur eiturefni séu notuð. Einungis eru borin á þau um tíu grömm af tilbúnum áburði við gróðursetningu og sjaldan nokkuð meira. Flutningur íslenskra jólatrjáa á markað er yfirleitt lítill því flest trén eru tekin nálægt sölustað.


En er ekki bara best að kaupa gervijólatré úr plasti? Á því eru margar hliðar. Í kanadískri rannsókn kom í ljós að til þess að jafna umhverfisáhrif lifandi jólatrjáa þar í landi þyrfti að nota gervitrén að minnsta kosti tuttugu ár. Þar sem flutningur lifandi jólatrjáa til neytenda í Kanada er væntanlega um lengri veg en á Íslandi má búast við að plastjólatrén þurfi að endast enn lengur á Íslandi en í Kanada til að jafna umhverfisáhrif lifandi, íslenskra trjáa. Að auki má nefna að tekjurnar af einu seldu jólatré á Íslandi nýtast til að gróðursetja mörg tré í staðinn. Því er það svo að ef þú kaupir íslenskt jólatré fækkar ekki trjám í íslenskum skógum heldur eru allar líkur á að þessi kaup þín leiði til þess að trjánum fjölgi og skógarnir stækki.


Skógræktarfélag Eyfirðinga selur jólatré tvær helgar í desember í Laugalandsskógi á Þelamörk. Þar kemur fólk og nýtur útivistar í skóginum með því að leita sér að jólatré, saga það sjálft og þiggja ketilkaffi, kakó og piparkökur hjá félagsmönnum í Skógræktarfélagi Eyfirðinga sem taka á móti fólki helgina 14.-15. desember og svo aftur helgina 21.-22. desember. Ef ekið er frá Akureyri er afleggjarinn að Laugalandsskógi skömmu áður en komið er að Þelamerkurskóla. Verið velkomin!


Hér er áhugaverð umfjöllun af vef Skógræktarinnar um jólatré ef fólk vill velta enn betur fyrir sér þessum þremur kostum, að kaupa íslenskt jólatré, innflutt eða gervi.

98 views

Recent Posts

See All
bottom of page