Ein lítil ferðasaga í tíma og rúmi. Rhododendron yakushimanum X
Það er alkunna að í upphafi var landið viði vaxið. Margir hafa í gegnum tíðina spekulerað í þessum orðum og túlkað á sinn hátt. Sumir mjög vísindalega en aðrir hafa fundið allskonar dulin skilaboð í þessari fornu setningu Ara fróða. Besta kenningin sem undirritaður hefur heyrt er sú að Ari hafi náttúrulega ætlað að skrifa „þá var landið víði vaxið milli fjalls og fjöru“. En skítt með það. Hvernig sem hinar fornu skræður eru túlkaðar þá er næsta víst að lyngrósir uxu ekki á Íslandi fyrr en löngu eftir landnám. Hið latneska nafn lyngrósa er Rhododendron. Það er samsett úr orðinu „Rhodo“ sem þýðir rós og „dendron“ sem þýðir tré. Sem sagt rósatré. Hvað um það lengi vel gengu fulltrúar ættkvíslarinnar undir nafninu alparósir á íslensku en var síðar breytt í lyngrósir. Enda munu rhododendronar vera af lyngætt.
Sá Íslendingur sem einna fyrst fór í umfangsmikla lyngrósarækt var Snæbjörn Jónasson, yfirleitt fékk starfsheitið að fljóta með, enda ekki af lakara taginu. Sem sagt Snæbjörn Jónasson vegamálastjóri, fullu nafni. Hann fór að sá lyngrósum um 1970 og plantaði í sumarbústaðaland sitt í Kjósinni. Hann hafði brennandi áhuga á lyngrósum og sáði hundruðum tegunda og það sem meira var, margar þeirra komust til ágætis þroska. En þeir sem hafa sáð lyngrósum vita að það er auðvelt að fá fræið til að spíra en erfitt að halda lífi í plöntunum og það tekur nokkur ár að koma þeim í útplöntunar stærð.
Snæbjörn Jónasson, vegamálastjóri, innan um lyngrósirnar sínar. Nú hefur Jónas sonur hans tekið við keflinu og skrifaði ágætis grein í Garðyrkjuritið 2002 um lyngrósir. Það er myndin fengin að láni.
Víkur svo sögunni fram til ársins 1994. Þá gerðist það að Snæbjörn var fenginn til að halda fyrirlestur um ræktun sína í garðyrkjuskólanum í Reykjum í Ölfusi. Um þann tíma sagði Ólafur Njálsson í bréfi til undirritaðs „Maðurinn var algjör stjarna! Snæbjörn var með fræplönturnar nýspíraðar í hvítmosatorfi í litlum plastbakka, til að sýna okkur hvernig hann fengi þetta til. Hann sagði að móðurplanta fræsins væri Rhododendron yakushimanum, en faðir óþekktur“.
Tæplega þrítug lyngrós í Kristnesi. Mamman var Rhododendron yakushimanum, en faðernið er allt önnur saga.
Nærmynd af sama runna.
Þarna erum við að nálgast kjarna málsins. Það vildi svo til að einmitt þennan vetur var Beate Stormo meðal nemenda í garðyrkjuskólanum og önnur tilviljun, ekki minni, var sú að þessi sama Beate var (og er) kona undirritaðs. Þegar svo skóla var slitið og nemendur fóru hver til síns heima flutu einar þrjár agnarsmáar lyngrósir með heim í Kristnes. Nú tæpum þrjátíu árum síðar blómstra þær sem aldrei fyrr.
Báðar lyngrósirnar sem eru hér í Kristnesi eru blendingar. Þær hafa að vísu svolítið brúnloðið neðrabyrði blaða en alls ekki eins hærðar og hreinar R. yakusimanum. Þær eru í raun skemmtilega ólíkar. Önnur er þétt, með hvítum blómum sem eru örlítið laxableik í knúbbinn. Hin er fagur bleik en blómin lýsast mikið með aldri.
Einhverjar af þessum plöntum enduðu í Nátthaga hjá Ólafi Njálssyni og síðast þegar ég frétti af þeim voru þær í góðu standi.
Stóra systirin er lítið lík þeirri litlu hvítu.
Nærmynd af blómum.
Jæja jæja mál að linni að sinni. En hafir þú lesandi góður áhuga á lyngrósum þá fylgja hér nokkur varnaðar orð. Lyngrósir þola ekki vind. Þær drepast. . . . Og í guðanna bænum ekki setja þær í pott og láta þær standa á veröndinni í vetur.
Ritað á sjómannadag árið 2022. Helgi Þórsson Kristnesi.
PS. af því þetta er tré vikunnar hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga þá er rétt að geta þess að skammt sunnan rómantíska rjóðursins í Kjarnaskógi má finna Rhododendron cunningham ´White´ og ef til vill Rhododendron grandiflorum. Og í milli lækja í Vaðlaskógi, hjá gamla síberíulerkinu og sýprusunum stendur R. grandiflorum. Það eru gömul klassísk yrki sem seld voru í Kjarna árum saman.
Comments