top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Hvernig verða trjáplöntur til?

Updated: Apr 10, 2023


Myndasaga úr stærstu trjáræktarstöð landsins


Skógræktarfélag Eyfirðinga er með aðalstöðvar sínar í Kjarnaskógi, eins og mörgum er sjálfsagt kunnugt um. Gróðrarstöðin Sólskógar eru nágrannar okkar í skóginum og er sambýlið hið besta. Sólskógar eru í raun tvískiptir. Annars vegar rekur fyrirtækið hefðbundna garðyrkjustöð þar sem viðskiptavinir geta keypt sumarblóm, fjölæringa, tré og runna. Hins vegar er fyrirtækið með stærstu skógarplöntuframleiðslu landsins. Hér birtist myndasaga sem lýsir þessari framleiðslu. Notuð er svokölluð sáningarvél sem tengd er við færibönd og moldaráfyllingarvél.


ree

Á fyrsta færibandið eru settir fjölpotta bakkar. Þrjár gerðir eru í notkun sem passa allar í vélina. Hér eru það 67 hólfa bakkar en 40 hólfa og 24 hólfa bakkar eru jafn stórir. Hér eftir eru bakkarnir nefndir fp-67, fp-40 og fp-24.


ree

Vélin tekur einn bakka í einu úr bakkastæðunni á fyrstu mynd og raðar þeim þétt á færibandið. Aftann við færibandið sér í moldarfyllingarvélina.


ree

Moldin kemur mulin úr þessari vél og fyllir trog. Þaðan fer moldin upp í fyllingavélina.


ree

Bakkarnir koma úr moldarfyllingunni og stefna á burstavél sem sléttar yfirborðið. Vélin hristir bakkana til að þjappa moldina í bakkana. Hægar gengur að fylla fp-67 en hina bakkana því hólfin eru minni. Þegar mold er sett í fp-67 ræður vélin með góðu móti við 700 bakka á klst., fp-40 900 bakka og fp-24 um 1100 bakka á klukkustund. Á bakgrunni má sjá hvar moldin er tætt niður áður en hún fer í sáningavélina.


ree

Til vinstri er moldarfyllingavélin sem dælir mold í hvíta svelginn. Þaðan fer moldin með færibandi upp í vélina sem setur hana jafnt í öll hólfin. Starfsmaður kannar hvort rétt magn sé í bökkunum.


ree

Á leið í sáningarvélina fara moldarfullir bakkarnir undir svokallaðan gatara. Hann þjappar örlítið í bakkana og gerir litla holu í hvert hólf. Þangað á fræið að fara. Nú eru bakkarnir tilbúnir fyrir sáninguna.


ree

Þessi vél setur fræ í bakkana. Ef allt er eins og það á að vera er eitt og aðeins eitt fræ í hverju hólfi. Í þetta skiptið var verið að sá lerki.


ree

Lerkifræið sem notað var þennan dag.


ree

Eitt fræ í grunnri holu í hverju hólfi. Næst fer bakkinn undir vél sem sáldrar léttu efni yfir bakkana til að fræin haldist á sínum stað. Önnur véll úðar örlitlu vatni yfir bakkana.


ree

Bakkarnir, með eitt fræ í hverju hólfi, komnir á grind. Til að halda raka að fræinu er létt steinefni, kallað perlít, sáldrað yfir bakkana. Stundum er vikur notaður í sama tilgangi. Áður fyrr voru litlar, hvítar plastkúlur notaðar en því hefur verið hætt af umhverfisástæðum.


ree

Þegar bakkarnir eru komnir út úr vélasamstæðunni eru þeir settir á grindur sem hafðar eru í þægilegri vinnuhæð.


ree

Kassi með grindum fluttur í gróðurhús.


ree

Kassinn kominn inn í annað af stóru gróðurhúsunum í Sólskógum. Hvort um sig er 2000 m2 en að auki eru nokkur minni hús í notkun. Þarna er hægt að stjórna hita- og rakastigi þannig að öll fræin spíri á sama tíma sem gefur jafnar og góðar plöntur. Á myndinni sjást einnig búkkar sem settir eru undir grindurnar.


ree

Grindurnar eru teknar úr kassanum með lyftara. . .


ree

. . .og settar á búkka á gólfinu í gróðurhúsinu. Þegar grindurnar eru á lofti vaxa ræturnar ekki niður úr bökkunum heldur fylla í rýmið sem þeim er ætlað. Það tryggir góðan rótarhnaus sem ekki verður fyrir skaða þegar plantan er tekin úr bökkunum.


ree

Hálft hús af lerki. Þegar öllum grindunum hefur verið komið fyrir hefst vökvun. Þá spírar allt fræið á sama tíma. Sjá má tvær af átta viftum í loftinu sem eiga að tryggja að hita- og rakastig sé sem jafnast í öllu húsinu. Í hvort stóra húsið komast 616 grindur.


ree

Haustið 2019 tók Katrín Ásgrímsdóttir fyrstu skóflustunguna að nýja, stóra húsinu sem nú er risið. Fyrir svona stórt hús er rétt að nota almennilegar græjur.


ree

Áður fyrr var bökkunum fyrst komið fyrir á brettum eins og hér má sjá.

ree

Síðan voru bakkarnir lagðir á grindur eins og hér má sjá. Með aukinni tækjavæðingu eru þessi vinnubrögð aflögð, bökum starfsmanna til mikillar gleði.


ree

Nýspírað grenifræ. Fræhlífin enn á plöntunni.

ree

Plöntur farnar að kíkja upp úr hólfunum. Hér er það greni í fp-40.


ree

Ein, og aðeins ein, heilbrigð planta í hverju hólfi.


ree

Hér er samskonar greni, tilbúið til útplöntunar.


ree

Yfir veturinn eru greniplöntur geymdar í plöstuðum körmum eins og hér má sjá. Einnig má sum af minni gróðurhúsunum í Sólskógum.


ree

Horft í gagnstæða átt yfir vel varðar greniplöntur. Sjá má annað stóra húsið.


ree

Vetrarmynd úr Sólskógum. Neðst til hægri eru grindurnar sem sáðbakkarnir eru geymdir á þegar skógarplönturnar hefja vöxt. Á þessum tíma árs er aðalvinna starfsmanna fólgin í að fara yfir alla bakkana til að tryggja að ein og aðeins ein trjáplanta sé í hverju hólfi.


ree

Ekki fá allar plönturnar að verja sínum fyrsta vetri undir plasti. Hér er birki að koma undan snjóþungum vetri. Net er strengt yfir bakkana til að verjast rjúpum.


ree

Þessi mynd var tekin í janúar 2019 þegar verið var að fara yfir alla bakkana í stóra húsinu (sem þá var aðeins eitt) til að tryggja að allt væri eins og það á að vera. Síðan hefur stöðin stækkað og ljósabúnaðurinn er betri.


ree

Vetrarþoka í Sólskógum. Verið er að flokka plöntur í upplýsta húsinu. Það er gert til að tryggja að réttur fjöldi heilbrigðra plantna sé í hverjum bakka.


ree

Annað af stóru húsunum (2000 m2 hvort) fullt af birkibökkum á grindum. Í hvort hús komast 22.000 bakkar. Fjöldi plantna fer eftir því hvaða bakkagerð er notuð.


ree

Birkið farið að vaxa og nú er tímabært að færa það út í sumarið (myndin tekin seint í júní) og rýma fyrir næstu sáningu. Í bakgrunni má sjá starfsmenn sem eru að hreinsa illgresi úr bökkunum áður en þeir fara út. Innst í húsinu má sjá vökvunabómuna.

ree

Horft undir vökvunabómuna á 22.000 bakka af birki í fp.67. Bóman er tengd við vatn og gengur fram og til baka í húsinu. Hægt er að stilla magn uppleystra áburðarefna sem fara út með vatninu.


ree

fp-24 bakkar með mismunandi víðitegundum og öspum á grindum úti á bómusvæði. Vökvun í gangi. Samskonar vökvunarbúnaður er í gróðurhúsunum. Hægt er að stjórna áburðarmagni vatnsins í bómunum.


ree

Eitt af vetrarverkunum er að klippa aspargræðlinga. Þeir eru geymdir í frysti þar til þeim er stungið á vorin í fp.24.


ree

Vökvun í gangi.


ree

Þegar plöntuvöxtur er hafinn eru plönturnar fluttar úr stóru húsunm til að rýmka til fyrir næstu sáningu. Í annað stóra húsið er sáð tvisvar, í hitt þrisvar. Plöntubakkarnir hafðir á grindum til að lofti undir ræturnar. Ungu og myndarlegu mennirnir eru að fara yfir bakkana til að tryggja að það séu plöntur í hverju hólfi áður en bakkarnir eru afhentir til skógarbænda.


ree

Ungar furur sem vaxa úti í sumar.

ree

Stafafurubakkar bíða eftir að skógarbændur planti furunum í framtíðarskóga Íslands.


ree

Þessi mynd var tekin 4. maí 2019. Hún sýnir hluta þeirra plantna sem þá voru sendar í Hallormsstað í flutningabíl. Samtals fóru 44 rekkar í sendinguna með 3564 bökkum. Þar sem stór hluti bakkanna var fp-67 voru í þessari sendingu 217.926 trjáplöntur. Sennilega er það Íslandsmet.



Árið 2022 er áætlað að framleiddar verði vel á fimmtu milljón skógarplantna í Sólskógum. Með frekari tæknivæðingu má búast við að innan fárra ára verði framleiðslan komin yfir 5 milljónir á ári. Það munar um minna á okkar skóglitla landi.


Höfundur mynda og texta: Sigurður Arnarson

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page