Trjátegundir eru misjafnlega áberandi eftir árstímum. Sumar fara í fagra haustliti en eru e.t.v. ekki áberandi á öðrum árstímum. Sama á við um tegundir sem blómgast fallega í fremur stuttan tíma. Ein þeirra tegunda sem hefur verið hvað mest áberandi síðustu vikuna er ein af þeim sem fyllir seinni hópinn. Það er heggur, Prunus padus, og er hann #TrévikunnarSE. Heggur er lauffellandi tré eða runni sem hefur lengi verið í garðrækt á Íslandi. Hann má einnig sjá sem skraut í jöðrum og rjóðrum í skógum, stórum runnabeðum og sumarhúsalöndum um land allt. Elsti heggur landsins mun vera í Hafnarfirði, gróðursettur árið 1913. Tegundin þarf helst frjóan og rakan jarðveg til að ná góðum þroska og getur þá orðið um 10 metra hátt tré, oft margstofna. Heggur er af rósaætt eins og mörg falleg tré og runnar. Til ættkvíslarinnar Prunus teljast einnig mörg aldintré sem ræktuð eru víða um heim svo sem plómur og kirsuber. Alls eru um fjögur hundruð tegundir í ættkvíslinni.
Heggur í brekkunni neðan við Sigurhæðir.
Blóm heggsins eru með fimm krónublöð eins og algengast er í rósaættinni. Þau eru hvít og raðast mörg saman í einskonar skúfa eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Hann þroskar ekki árlega aldin hér á landi, en þau eru svört ber. Þá getur hann jafnvel sáð sér út sjálfur með aðstoð fugla sem éta berin og losa sig við fræin með driti sínu sem nýtist ungplöntunum sem áburður. Stundum er hegg fjölgað með fræjum en algengara er að fjölga honum með græðlingum eða rótargræðlingum og rótarskotum sem hann á til að setja. Þegar trjám er fjölgað kynlaust á þennan hátt verða afkomendurnir allir með sama erfðaefnið og má gefa þeim yrkjum sérstakt nafn. Þó eru ekki mörg nafngreind yrki heggs í ræktun á Íslandi. Þekktasta yrki venjulegs heggs er án efa ´Laila´. Það er harðgert og byrjar að blómstra óvenju snemma á ævinni. Það er meginástæða þess hversu vinsælt yrkið er.
Heggur getur myndað ber á Íslandi.
Enn er ónefnt rauðleitt afbrigði með bleikum blómum sem er algengt í ræktun. Kallast það blóðheggur, Prunus padus var. purpurea, og er efni í annan pistil um tré vikunnar.
Blóðheggur og heggur með hvítum blómum, hlið við hlið.
Meðfylgjandi myndir af hegg eru allar teknar á Akureyri en hegg má sjá víða í Eyjafirði í blóma þessa dagana.
Texti og myndir: Sigurður Arnarson
コメント