Á páskadag er víða messað og fáir eiga fallegra guðshús en Svarfdælir.
Hér er myndbrot af messu í Hánefsstaðareit sumarið 2017, stundin góð og kórinn yndi!
Tré vikunnar þessa páskahelgi fjallar um einstakan skóg með einstaka sögu hér út með firði.
Upphaf skógræktar á Hánefsstöðum
Eiríkur Hjartarson frá Uppsölum í Svarfaðardal hóf skógrækt á Hánefsstöðum árið 1946. Tveimur áratugum síðar, í minningu afa síns og ömmu og til framgangs skógræktar í héraði, ánafnaði hann í arfleiðsluskrá Skógræktarfélagi Eyfirðinga jörð og skógarreit. Félagið seldi síðar jörðina og þótti sjálfgefið að nýta andvirðið til uppbyggingar og þróunar á plöntuframleiðslu fyrir stækkandi skóglendi Eyjafjarðar enda Eiríkur og hans fjölskylda annálað ræktunarfólk með puttann á púlsinum og jafnan á undan sinni samtíð. Árið 1925 (fyrir næstum 100 árum) byggði Eiríkur nefnilega gróðurhús og græðireiti í Laugardalnum í Reykjavík, ræktaði þar trjáplöntur og gerði tilraunir með hinar ýmsu tegundir enda lá ekki ljóst fyrir á þeim tíma hvaða efniviður hentaði best til ræktunar í trjálausu landi. Afurðin fékk svo þolpróf m.a. í Hánefsstaðareit og í hlíðum Laugardalsins, þeir sem á eftir gengu nutu niðurstaðanna. Í litla gróðurhúsinu sem stóð á svipuðum slóðum og híbýli Grasagarðsins í Laugardal standa í dag, var komið til alls kyns efnivið sem Eiríkur sankaði að sér. Samferðamenn nutu góðs af en stóran hluta framleiðslunnar flutti hann svo á jeppakerru norður í Hánefsstaðareit og plantaði en sjálfur segist hann hafa gróðursett þar um 100.000 plöntur.
Nýjar tegundir
Í dagbók Eiríks frá 1949 má t.d. lesa um vöxt og viðgang í Hánefsstaðareit: „blágreni undragott“ og „Thuja ca 700 plöntur, hafði allt drepist“. Í viðtali við Tímann árið 1965 nefnir Eiríkur til sögunnar nýja trjátegund sem hann var að fást við, „Lodge pole pine“ eða stafafuru sem lifir dável með okkur í dag „Ég hef plantað nokkuð jöfnum höndum birki og barrtrjám af ýmsum gerðum, m.a. hef ég dálítið af stafafuru sem Indíánar kalla Lodge pole pine, en það mun dregið af því að þeir hafa notað þessa furu í tjaldstoðir sínar vegna þess hvað hún er beinvaixn. Hún stendur sig vel, en ég hef enn of lítið af henni.“
Eiríkur hefði sjálfsagt orðið hissa ef honum hefði verið tjáð að stafafurur ættu eftir að sá sér út um Eyjaförð jafnvel á ólíklegustu stöðum eins og hér má sjá. Mynd: Sig.A.
Þá er talið að bananaplöntur þær sem lengi voru sómi og stolt Garðyrkjuskóla Ríkisins á Reykjum í Ölfusi séu upprunnar úr ræktunarstússi Eiríks og fjölmargt fleira mætti telja til.
Lágmynd í Grasagarðinum í Laugardal af Eiríki er sú sama og í Háfnefsstaðaskógi. Þar er að vísu annað ártal. Mynd: Sig.A.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, stafafuran er t.d. orðin heimilisvinur í jólahaldi Íslendinga, vítt um land vex nú einmitt undragott blágreni og thuja ýmiskonar (lífviður) er ræktuð í þúsundum garða á Íslandi með góðum árangri þótt hún hafi ekki plumað sig á skjóllausum svarfdælskum mel fyrir ríflega sjötíu árum enda ræktunarfólk þess tíma ekki þekkt fyrir að gefast upp þótt á móti blési.
Broddgreni í Hánefsstaðaskógi. Mynd Sig.A.
Reiturinn
Þegar bújörðin Hánefsstaðir var seld á sínum tíma hélt Skógræktarfélagið eftir í sinni eigu u.þ.b 12 ha skógræktarsvæði sem nefnist Hánefsstaðareitur eins og við þekkjum hann í dag. Fjölmargir heimsækja skóginn ár hvert. Í honum er ágætt stígakerfi, fjölmargar trjátegundir, yndisleg samkomulaut í suðurhluta, lítið leiksvæði um miðbik og tjörnina sem Eiríkur útbjó á norðurmörkum reitsins væri vert að endurvekja og sýna sóma, við hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga höfum einsett okkur að gera svo auk þess að vinna almennt að grisjun og hirðingu. Til að svo megi verða þarf bæði tíma og fjármagn en við erum full bjartsýni á að við séum á réttri leið hvað það varðar. Þá eru á vesturmörkum skógarins mannvirki sem tengjast áveitukerfi á engjar Svarfaðardals sem og rafstöðvarhús sem er minnisvarði um rafvæðingu á sveitabæjum. Tilkoma göngubrúar yfir Svarfaðardalsá sem tengir reitinn við friðlandið vestan ár og það góða starf sem þar hefur verið unnið. Aukin skógrækt við Dalvík, nýir göngustígar, merktar gönguleiðir á fjöll og uppbygging ferðaþjónustuaðila á svæðinu, allt býr þetta til aðlaðandi heild í Svarfaðardal með samlegðaráhrifum, sem þjónar nærsamfélagi og ferðafólki með möguleikum til bættrar lýðheilsu, yndis, útivistar og náttúruskoðunar.
Svartgreni er óalgengt í ræktun á Íslandi en þetta svartgreni vex í Hánefsstaðaskógi. Mynd: Sig.A.
Við hvetjum fólk til að heimsækja Hánefsstaðareit í sumar og njóta alls þess sem svæðið allt hefur upp á að bjóða og hlökkum til að vinna með Svarfdælum að uppbyggingu. Þakklæti til Eiríks Hjartarsonar, fjölskyldu hans og dalbúa sem lögðu grunn að Hánefsstaðareit er okkur einnig ofarlega í huga, störf þeirra eru styrkur okkar og sóknarfæri í dag!
Comentarios