top of page

Gráöspin við Brekkugötu 8

Updated: Jun 11, 2023

Á hverju ári velur Skógræktarfélag Íslands tré ársins á Íslandi. Áður hefur verið fjallað hér um hengibjörkina Frú Margréti í Kjarnaskógi sem eitt sinn hlaut þann titil. Nú er komið að öðrum verðlaunahafa. Það er Gráösp (Populus x canescens) sem stendur við Brekkugötu 8. Það var valið tré ársins hjá SÍ árið 2012. Gráösp er blendingur blæaspar (Populus tremula) og silfuraspar (Populus alba) sem hefur komið fram náttúrulega þar sem útbreiðslusvæði þeirra er liggja saman. Það er nokkuð algengt garð-og borgartré víða í Evrópu, vestur-Asíu og suður-Rússlandi, en einungis örfáar fullorðnar gráaspir er að finna hér á landi. Brekkugötugráöspin ber sterk einkenni silfuraspa. Reyndar svo mjög að sumir telja að það sé hreint ekki gráösp heldur einfaldlega silfurösp. Bæði form og litur blaða kippir mjög í silfuraspakynið. Börkurinn á stofni þessa tígulega stofni er afar hrjúfur og myndar þykkar og áberandi hrukkur sem gefa trénu mjög sérstakan svip. Tréð setur töluverð rótarskot eins og blæöspum er títt og mætti eflaust fjölga þessu tré með því að taka þau upp.


Neðra borð laufblaðanna er grátt. Efra borðið er glansandi grænt.


Ekki er alveg ljóst hvenær þessu tré var plantað eða hvaðan það kom. Miklar endurbætur voru gerðar á húsinu við Brekkugötu 8 á sínum tíma og lauk þeim árið 1934. Líklegast er að trénu hafi verið plantað eftir að þeim lauk og þá sennilega sama ár eða ári síðar. Þá átti húsið Axel Kristjánsson kaupmaður. Hann bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Axel var um margt merkilegur maður og meðal annars fór hann á Ólympíuleikana í Stokkhólmi árið 1912 til að sýna íslenska glímu. Hvaðan Axel fékk þetta tré er alveg óþekkt.


Stofn og króna gráasparinnar.


Þegar tréð var valið tré ársins árið 2012 var það mælt á alla kanta. Þá reyndist það 13,55 metrar á hæð. Ummál þess í brjósthæð (1,3 m hæð frá jörðu) var 2,3 metrar

Nánar má lesa um þetta tré í Skógræktarritinu, 2. tbl. árið 2012.


Myndir og texti: Sigurður Arnarson. Pistillinn birtist fyrst hér.

78 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page