top of page

Gjafir á sumardaginn fyrsta

Updated: Apr 10, 2023

Lengi hefur tíðkast að gefa gjafir á sumardaginn fyrsta og er sú hefð eldri en að gefa gjafir á jólum en til eru heimildir frá 16. öld um sumargjafir. Gömul vísa hefur lifað með formanni síðan úr æsku:


Á sumardaginn fyrsta

var mér gefin kista

styttuband og klútur

og golsóttur hrútur.


Þetta voru eflaust prýðisgjafir á sínum tíma en í dag eru ef til vill aðrar gjafir okkur mikilvægir, gjafir náttúrunnar. Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur ræktað sína reiti í yfir 90 ár og eftir því sem skógarnir stækka og trén hækka eykst skjólið og jarðvegurinn dýpkar og magnast. Margir af þeim 11 skógarreitum í umsjón félagsins henta vel til útivistar, um þá er hægt að rölta í skjóli trjánna við fuglasöng og lækjarnið. Í flestum er hægt að finna falleg rjóður þar sem hægt er að hvílast og borða nesti.


En ekkert verður úr engu. Í áratugi hefur duglegt og framsýnt fólk lagt hönd á plóg. Girt af gróðurreiti, unnið í sjálfboðavinnu við gróðursetningar, borgað árgjöld í félagið og fleira, allt til að græða landið og gefa náttúrunni tækifæri til að ná aftur fyrri frjósemi og skógarþekju því fjörðurinn mun hafa verið skógi vaxinn milli fjalls og fjöru er Helgi magri og Þórunn Hyrna sigldu inn fjörðinn. Þessi þrotlausa vinna er farin að gefa til baka því víst upplifum við þakklæti þegar við göngum um í Kjarnaskógi, höggvum jólatré í Laugalandsskógi, borðum nesti í Hánefsstaðareit, hjólum brátt um Vaðlareit eða horfum upp Þverárgilið í Garðsárreit.



Við finnum svo mikið þakklæti að við viljum gefa til baka og bæta enn aðstöðu og aðgengi að skógarreitunum. Þessi vilji kristallast í störfum þeirra sem bera hag fyrir umhverfinu. Í áratugi hefur félagið verið með þjónustusamning við Akureyrarbæ og því hefur mest verið unnið í Kjarnaskógi og þar slær skógarhjarta félagsins en við viljum gera betur. Þess vegna hafa fulltrúar úr stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga fundað í vetur með fulltrúum þeirra sveitarfélaga þar sem skógarreitir okkar vaxa til að reyna að finna flöt á samstarfi. Okkur hefur verið mjög vel tekið víða en lengst er samtalið komið í Eyjafjarðarsveit. Oddviti hafði á orði að þetta samstarf hefði átt að innleiða löngu fyrr!


Styrktarsamningurinn undirritaður í veðurblíðu í Hrafnagilshverfi á sumardaginn fyrsta. F.v. Pétur Halldórsson varaformaður, Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri, Sigríður Hrefna Pálsdóttir formaður og Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri. Mynd: Róbert Finnsson.

Í dag var skrifað undir tveggja ára styrktarsamning sem gerir félaginu kleift að sinna reitunum í sveitarfélaginu enn betur. Saman getur Eyjafjarðarsveit og Skógræktarfélag Eyjafjarðar unnið að góðum hlutum.


Áfram Eyjafjarðarsveit! - áfram Skógræktarfélag Eyfirðinga!

Í dag er gleðidagur góðra gjafa, til hamingju við öll og gleðilegt sumar!


Viðburður í Garðsárreit 2021, Líf í lundi.




131 views

Recent Posts

See All
bottom of page