Til skamms tíma uxu aðeins þær fjórar víðitegundir villtar á landinu sem talið að hafi verið hér allt frá landnámi. Hingað til höfum við fjallað um smjörlauf, Salix herbacea, gulvíði, S. phylicifolia og loðvíði, S. lanata. Nú er komið að þeirri fjórðu: Fjallavíði, S. arctica. Að auki er hér að finna einn pistil um íslenskan víði, svona almennt.
Þessar fjórar tegundir hafa vafalítið lifað hér af kuldaskeið ísaldarinnar sem eyddu nánast öllum gróðri. Þær hafa hjarað á þeim fáu íslausu stöðum sem fundust á jökulskerjum eða bröttum hlíðum strandfjalla. Aðrir telja að víðitegundirnar hafi borist hingað eftir að ísöld lauk. Hvort heldur sem er þá er ljóst að þegar ísa leysti voru þær fljótar að leggja undir sig þá nýju vist sem þá bauðst.
Fjallavíðir í rannsóknarreit í Káraskeri í Vatnajökli. Skerið kom upp úr jökli um árið 1940 og hefur stækkað síðan. Þá var skerið auðvitað líflaust. Svona sker gefa okkur gott tækifæri til að rannsaka landnám gróðurs.
Mynd: Starri Heiðmarsson.
Lýsing
Fjallavíðir er lágvaxinn og harðgerður runni. Oft er hann alveg jarðlægur en rís stundum upp í um 20 cm og verður sjaldan hærri en um 50 cm. Greinarnar geta þó verið töluvert lengri en það en liggja þá flatar, eða því sem næst.
Stundum getur verið erfitt að greina í sundur fjallavíði og jarðlægar týpur af loðvíði. Þá er ágætt að hafa eftirfarandi í huga:
1) Aldin kvenplantnanna hjá fjallavíði eru gráloðin (sennilega vísaði grávíðiheitið, sem rætt verður um á eftir, í það) og þekkist auðveldlega frá loðvíði á þeim. Hann hefur snoðin aldin en er á allan annan hátt loðnari en fjallavíðirinn.
Kvenblóm. Einnig má sjá að axlarblöð skortir. Mynd: Sig.A.
2) Karlblómin á fjallavíði eru fyrst með rauðleita fræfla sem síðar verða gulir. Kvenblómin eru einnig rauðleit á vorin. Einna auðveldast er að þekkja fjallavíði á vorin þegar blómin skarta sínum rauða lit. Hann skortir alveg hjá loðvíði.
Bæði karl- og kvenblóm eru rauðleit á vorin. Stundum verða fræflarnir gulir þegar á líður, eins og sjá má á fyrstu mynd. Myndir: Þráinn Gíslason.
3) Blaðlögun og hæring fjallavíðis getur verið dálítið mismunandi. Til að þekkja hann frá loðvíði má þá skoða hvort hann er með axlarblöð. Loðvíðirinn er með áberandi axlarblöð en oftast skortir þau algerlega hjá fjallavíði, eða eru mjög lítil.
Þeir sem vilja lesa nánari lýsingu á fjallavíði er bent á lýsingu Harðar Kristinssonar á floraislands.is. Sjá hér.
Fjallavíðir getur myndað nokkuð þéttar breiður . . .
Eða gisnar breiður. Einkum ef sauðfé kemst í hann. Athyglisvert er að sjá hversu góð áhrif víðirinn hefur á svarðnauta sína á efri myndinni. Minna ber á því þegar landið er beitt, eins og sjá má á neðri myndinni. Myndir: Sig.A.
Erfðir
Erfðabreytileiki víðitegunda getur verið býsna misjafn eftir tegundum. Langalgengast innan víðiættkvíslarinnar er að grunnlitningatalan sé x = 19. Tvílitna tegundir (eins og við þekkjum best, enda erum við tvílitna) hafa því litningafjölda upp á 2n = 38. Fjallavíðirinn er ekki tvílitna, heldur fjöllitna. Jóhann Pálsson (1997) segir frá því að sennilegast sé að misjafnir stofnar fjallavíðis hafi mismunandi fjölda litninga. Hann segir að sést hafi tölur frá 2n = 76 (fjórlitna) til 2n = 190. Svona margir litningar merkir að plönturnar eru með tífalda litningatölu (tílitna).
Ekki þekkir sá sem þetta ritar nýlegar rannsóknir á þessu, en þessi mismunandi litningafjöldi á án efa sinn þátt í því hversu fjölbreyttur þessi víðir getur verið. Ef þessir hópar geta ekki æxlast saman þannig að til verði frjóir einstaklingar má velta því fyrir sér hvort flokka beri fjallavíðinn í fleiri tegundir.
Kvenplanta af fjallavíði. Blómin ekki að fullu þroskuð. Mynd: Sig.A.
Karlplanta í lok blómgunartímans. Eftir þetta losar plantan sig við karlblómin, enda ekkert við þau að gera þegar þau hafa lokið hlutverki sínu. Mynd: Sig.A.
Íslenskur nafnaruglingur
Þetta er sú víðitegund sem grasafræðingum og flokkunarfræðingum hefur gengið hvað verst með að setja á rétta hillu. Í eldri flórubókum er þessi tegund alltaf nefnd grávíðir. Það er ekkert sérstaklega heppilegt því það heiti var af almenningi alveg jafn algengt sem heiti á loðvíði, enda er hann grárri en grávíðirinn. Þetta varð til þess að þessum ólíku tegundum var oft ruglað saman. Enn má sjá grávíðiheitið notað í sumum ritum þegar fjallað er um þennan víði og er það auðvitað kjörin leið til að viðhalda þessum ruglingi.
Fjallavíðir þarf ekki mikið til að lifa af. Mynd: Sig.A.
Það var grasafræðingurinn Jóhann Pálsson (1931-2023) sem fyrstur manna tók upp á því að nefna þennan víði fjallavíði. Er það vel til fundið, enda vex hann gjarnan til fjalla. Það gerði Jóhann í kjölfar þess að hann sýndi fram á að víðirinn er af tegund sem á latínu kallast Salix arctica eins og fram kemur í fróðlegri grein hans í Skógræktarritinu árið 1997. Um latínuheitið voru menn lengi vel hreint ekki sammála. En þegar þetta var komið á hreint var tækifæri til að draga úr líkum á ruglingnum sem áratugum saman geisaði um nöfnin grávíðir og loðvíðir. Ef lesendur vilja rannsaka þetta sjálfir má slá inn leitarorðið „grávíðir“ í leitarvélar og skoða myndir sem þá birtast. Alger hending er þá hvort þið finnið myndir af loðvíði eða fjallavíði.
Gamall fjallavíðir í haustlitum á Hólasandi. Sjá má að fokið hefur frá rótinni. Frá rótarhálsi vaxa greinarnar niður og fylgja svo jörðu. Mynd: Sig.A.
Latínuruglingur
Á íslensku höfum við fyrst og fremst staðið í rugli þegar deilt er um hvort kalla skuli víðinn fjalla- eða grávíði. Það er þó ekki eina tungumálið sem grasafræðingar hafa getað notað til að rífast og rökræða þegar nafn tegundarinnar ber á góma. Það getur auðvitað enginn talist alvöru grasafræðingur ef hann (hér vísar fornafnið í karlkynsorðið „grasafræðingur“, en hefur ekkert að gera með líffræðilegt kyn) hefur ekki staðið í það minnsta í einni almennilegri ritdeilu um latínuheiti á einhverri tegund. Þar getur fjallavíðir komið að góðum notum. Í eldri bókum var algengast að nota latínuheitin S. glauca, S. cordifolia, S. calliarpaea eða jafnvel S. cordifolia subsp. callicarpaea. Þeir sem vilja sökkva sér dýpra í þessa nafnasúpu er bent á áðurnefnda, stórfróðlega grein efir Jóhann Pálsson um víðirækt á Íslandi frá árinu 1997. Meira má lesa um latínuheitin hér.
Nú á dögum segja fræðimenn að S. callicarpaea og S. cordifolia séu ekki lengur tæk nöfn heldur sé um afbrigði af S. glauca að ræða. Réttast, miðað við núverandi þekkingu, mun vera að skrá það sem S. glauca var. cordifolia. Sjá nánar hér. Á þessu sést að í raun er ekki langt á milli þessara latínuheita.
Jóhann Pálsson (1997) sýndi fram á að þessi latínuheiti eiga ekki við um íslensk eintök og greindi tegundina sem S. arctica eins og áður segir. Samkvæmt hans rannsóknum vex S. glauca ekki villtur á Íslandi. Þar með mætti halda að endanlega hafi verið komið í veg fyrir margar skemmtilegar ritdeilur og efnileg rifrildi, nema nýjar upplýsingar finnist eða komi í ljós. Vel má vera að þær komi fram. Grasafræðingurinn Ágúst H. Bjarnason hefur bent okkur á að norski grasafræðingurinn Reidar Elven er ekki sannfærður. Hann ritstýrir Panarctic Flora sem almennt er viðurkennt sem helsta heimild um gróður á okkar slóðum. Elven segist telja að plönturnar í Norður-Atlantshafi (Ísland, Færeyjar, Jan Mayen og hlutar af Grænlandi), sem greindar hafa verið sem S. arctica, tilheyri í raun ekki sömu tegund og þær sem finna má í Síberíu og við Beringshaf. Hann telur að endurnýja þurfi úttekt á tegundinni. Þeir sem hafa næmt auga fyrir fjörlegum illdeilum geta aldeilis nýtt sér það. Ágúst hefur líka bent okkur á, svona til að auka á flækjustigið, að Áskell Löve kallaði S. arctica tágavíði í sínum ritum. Hafi Ágúst okkar bestu þakkir fyrir ábendingarnar.
Eru þá nefnd helstu latínuheiti sem notuð hafa verið um þessa tegund á nýliðnum öldum. Í riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, sem hann skrifaði árið 1783, kom fram allt annað latínuheiti. Hann kallaði þennan víði grávíði á íslensku eins og algengt var en notaði latínuheitið S. cinerea. Má því bæta því nafni við yfir þau latínuheiti sem notuð hafa verið um fjallavíði sem vex á Íslandi. Þetta latínuheiti er enn í notkun en á allt annarri víðitegund. Kallast hún gráselja á íslensku. Meira verður fjallað um athuganir Björns í Sauðlauksdal á fjallavíði hér aðeins neðar.
Fjallavíðir neðan við rofabarð í Bárðardal. Takið eftir langri rót sem fokið hefur frá á undanförnum árum eða áratugum. Mynd: Sig.A.
Ruglingur hjá frændþjóð?
Í færeyskri flórubók sem Jóhannes Jóhansen (2000) skrifaði segir að víðirinn sé mjög sjaldgæfur í eyjunum, verði 1-2 metrar á hæð og vaxi aðeins um eyjarnar norðanverðar „. . . men ikki uppi í fjøllum“. Svo segir hann að tegundin hafi áður verið greind sem S. glauca, en nú sem S. arctica. Þetta er sama nafnabreyting og á Íslandi.
Það sem vekur athygli í þessum texta er einkum tvennt. Annars vegar hvað sagt er að fjallavíðir verði stór í Færeyjum og að hann skuli ekki vaxa til fjalla hjá frændum okkar. Hvoru tveggja passar illa við lýsingar víðisins á Íslandi. Sá sem þetta ritar hefur ekki lagt sig sérstaklega fram við að skoða villtan víði í Færeyjum og getur því ekkert fullyrt um þessar lýsingar, en þær koma á óvart. Má vel vera að fleiri kurl eigi eftir að koma til grafar áður en hægt er að fjölyrða um hvort þetta sé í raun sama tegund og hjá okkur.
Fjallavíðir í aðalbláberjalyngi. Hann vex ekki hátt yfir lyngið. Í Færeyjum er sagt að þessi tegund verði 1-2 metrar á hæð. Mynd: Sig.A.
Björn í Sauðlauksdal
Í riti sínu, Grasnytjum (1783) skrifaði Björn Halldórsson um fjallavíði. Eins og vænta má kallaði hann víðinn grávíði. Ekki virðist hann hafa slegið saman fjallavíði og loðvíði því þann síðarnefnda kallaði hann sandvíði.
Björn skrifaði fyrst og fremst um hvernig nýta mætti jurtirnar, eins og nafn ritsins gefur til kynna. Ef marka má Björn voru heldur minni nytjar að þessum víði en öðrum víði sem hann talar um. Þó taldi hann að nýta mætti fræreklana eða fræullina, sem hann kallaði kotún (bómull), til að „leggja við vogmein“ eins og hann orðaði það, en reyndar var rithátturinn annar.
Eftirfarandi upplýsingar eru úr riti Björns.
„Kotún þessa vidis med fræinu, er gott at leggia vid vog-mein, sem fífu, enn þegar barið er úr því, er þar langtum betra at fylla med sessur og hægindi, enn fífan.“ Svo segir hann að nota megi víðinn til tróðs ef hann er vel þurrkaður „. . . er hann skástur af øllum vídi þar til, en þó er einginn vídir rett gódr til tróds.“
Ennfremur. „Þessi vídir brúkaz her í hardindum fyrir nauta fódr, og hefir þat luckaz; enn þó er allr annar vídir þar til betri.“
Fjallavíðir á hálendi Íslands. Mynd: Sig.A.
Útbreiðsla
Engin víðitegund er talin vaxa norðar í heiminum en fjallavíðir. Hann finnst langt norðan trjálínu á Norður-Grænlandi og samkvæmt rannsóknum getur hann orðið eldgamall á þeim slóðum. Fundist hefur 236 ára gömul planta, ef marka má Wikipediu.
Ótrúlega þykkur stofn á fjallavíði. Svona þykkur stofn bendir til þess að plantan sé mjög gömul. Mynd: Sig.A.
Á Íslandi er fjallavíðir algengur um nánast allt land, nema hvað hann vantar nánast alveg í lágsveitir Suður- og Suðvesturlands. Hann vex hvergi í Evrópu nema á Íslandi og í Færeyjum. Annars er þetta amerísk tegund. Í Færeyjum er tegundin sárasjaldgæf og lýsing Jóhannesar Jóhansen (2000) sem sagt er frá hér að ofan, fellur ekki vel að tegundinni eins og hún er hér.
Á hálendi Íslands er þetta ein allra algengasta plantan sem þar finnst og sennilega lífseigastur allra runna. Má það heita merkilegt hversu algengt það er að sjá fjallavíðiplöntur þar sem jarðvegur hefur fokið frá rótum en hann lifir samt! Þannig stendur hann lengur af sér uppblástur en aðrir runnar hálendisins.
Hæst vex hann í um 1100 metra hæð yfir sjávarmáli en við jarðhita við Öskjuvatn vex hann í 1200 metra hæð.
Hér má vel sjá hvernig fokið hefur frá rót fjallavíðisins. Hann lifir samt! Mynd: Sig.A.
Heimildir:
Ágúst H. Bjarnason (2023): Munnleg heimild í maí 2023.
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1783): Grasnytjar. Kafli CXI. Ljósprentun frumútgáfunnar gefin út árið 1983. Bókaforlag Odds Björnssonar, Náttúrugripasafnið á Akureyri og Ræktunarfélag Norðurlands.
Hörður Kristinsson (án ártals): Flora Íslands http://floraislands.is/salixlan.html Sótt 02.10. 2022.
Jóhann Pálsson (1997): Víðir og víðiræktun á Íslandi. Í Skógræktarritið. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Reykjavík.
Jóhannes Jóhansen (2000): Føroysk Flora. Føroya Skúlabókagrunnur. Tórshavn.
WFO (2022): World Flora Online. Published on the Internet; http://www.worldfloraonline.org. Sótt: 11. 10. 2022.
Comments