Það var fallegt haustveður þegar Tarja Halonen steig út úr flugvélinni á Keflavíkurflugvelli 19. september árið 2000. Hún var hingað komin til að hitta kollega sinn hann Ólaf Ragnar Grímsson. Tarja hafði heyrt af trjáræktaráhuga íslenskra forseta og þar sem hún var forseti eins mesta trjáræktarland heimsins fyllti hún alla kápuvasa af birkifræi áður en hún lagði af stað í ferðina til Íslands. Þegar á Bessastaði var komið dró hún hróðug upp úr vösunum sínum fræ af sex mismunandi gerðum birkis frá Finnlandi. Tvö fræpartí voru af venjulegu birki Betula pubescens frá Kittila í norður Finnlandi. Tvö voru af sérvöldu hengibirki Betula pendula úr bestu skógum Finnlands og tvö partí voru af sérstöku afbrigði hengibirkis sem Tarja kallaði Mösurbirki, Betula pendula var. Carelica. Ólafur Ragnar, sem er ættaður að vestan, hafði lítið verið í þessu trjástússi og hafði meiri áhuga á bílaviðgerðum. Hann ákvað þó að best væri að koma fræinu í hendur kunnáttumanna og sendi því fræið norður í Eyjafjörð til Skógræktarfélags Eyfirðinga. Þar tók Hallgrímur nokkur Indriðason við fræinu og kom í hendur Valgerðar frænku sinnar Jónsdóttur (þau eru af Botnsættinni). Valgerður sáði fræjunum í sína bestu blómapottta og bakka og fræin góðu spíruðu í þúsundavís. Á árunum 2002 og 2003 gróðursettu Hallgrímur og Valgerður þessar plöntur á fáeinum stöðum í Eyjafirði. Stærstu gróðursetningarnar eru annarsvegar í Saurbæ í gamla Saurbæjarhreppi og svo í brekkunni sunnan við Litla-Garð gegnt flugvellinum á Akureyri. Auk þess sem plöntur voru gróðursettar á nokkrum stöðum í Kjarnaskógi og að sjálfsögðu á Espihóli í gamla Hrafnagilshreppi. Afdrif flestra þessara plantna hafa verið með miklum ágætum fyrir utan hvað venjulegu ilmbjarkarplönturnar Betula pubescens ættaðar frá Kittila reyndust hinar verstu druslur og hafa lítið sprotttið. Mikið af hengibirkinu er hinsvegar afar glæsilegt og lofar það góðu að snemma sendu sunnlendingar sinn besta mann Trausta skógarvörð Jóhannsson af Suðurlandi að skoða trén, mæla og staðfesta mikilfengleika þeirra. Af mösurbirkinu er það að segja að það lifir og vex en um nákvæma staðsetningu trjánna verður ekkert gefið upp þar sem viður þeirra er ákaflega verðmætur og helst notaður til skreytinga í konungshöllum, lystisnekkjum og einkaþotum.
Trausti mætti árið 2013 til að taka út Finnska birkið. Hann var ekki glaður með venjulega birkið frá Kittila.
Trausti var glaður með mösurbirkið.
Hallgrímur og Vignir Sveinsson við hengibjarkir árið 2017.
Vignir við glæsilegasta tréð 2017.
Árið 2020 er hæsta tréð orðið yfir 7m hátt.
Glæsilegt hengibirki, mynd frá 2020.
Comentários