top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Elri að vetri til

Ein af þeim ættkvíslum lauftrjáa sem tiltölulega auðvelt er að þekkja í vetrarbúningi er ættkvísl elritrjáa (Alnus). Því er elri #TrévikunnarSE að þessu sinni. Til eru fjölmargar tegundir elris í heiminum og hafa margar þeirra verið reyndar hér á landi og gefist ágætlega. Elrið er af sömu ætt og birki (Betula) en hefur á rótum sínum sambýli við gerla sem eru svo elskulegir að vinna nitur beint úr andrúmsloftinu. Elrið getur því haft jákvæð áhrif á frjósemi vistkerfa.


Til einföldunar og þægindaauka er elri gjarnan skipt í tvo megin flokka eða hópa. Annars vegar eru það runnar (sitkaelrihópurinn) og hins vegar tré (gráelrihópurinn). Algengustu tegundirnar í ræktun hér á landi eru einmitt sitkaelri og gráelri. Því má gjarnan kenna hópana við þær tegundir. Það getur verið harla erfitt að greina elritegundir í sundur þegar ekki er hægt að styðjast við laufin en tiltölulega þægilegt að greina þær í þessa tvo hópa.


Það sem gerir það einfalt að þekkja elri frá öðrum trjám á veturna er að elri myndar frærekla eins og hið náskylda birki. Þó er einn stór munur á. Hann er sá að fræið hjá elrinu myndar einskonar pínulitla köngla. Það er að vísu ekki alveg rétt, svona grasafræðilega, að kalla þetta köngla en þeir líta út eins og könglar. Þessir könglar (eða ekki-könglar) sitja á trjánum yfir veturinn og gefa því sérstakan svip. Greinar með svona könglum eru stundum klipptar af og nýttar sem skraut á haustin eða um jólin. Engin önnur tré hafa svona ekki-köngla svo ef þið sjáið þá á trjágreinum getið þið verið alveg viss um að tegundin er elri.

331 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page