top of page

Blóðrifs ´Færeyjar´

Updated: Oct 3, 2023

Eins og glöggir lesendur þáttarins Tré vikunnar hafa eflaust tekið eftir er hér bæði fjallað um tré og runna. Í þetta skiptið fjöllum við um mjög fallegan runna, ættaðan frá Norður-Ameríku en hingað kominn frá Færeyjum. #TrévikunnarSE er blóðrifs ´Færeyjar´ (Ribes sanguineum ´Færeyjar´). Tegundin hefur nokkuð lengi verið ræktuð á Íslandi en árangurinn var lengi vel frekar slakur nema á vel skýldum og góðum stöðum. Samt sem áður er þetta einhver algengasta limgerðisplantan hjá bræðrum okkar og systrum í Færeyjum. Svo var það að hingað til lands barst sýnishorn af þessum færeysku plöntum. Kom þá í ljós að þær þrífast hér hið besta! Samson Bjarnar Harðarson hefur borið saman nokkra klóna af tegundinni og sker þessi sig úr hvað varðar hreysti og vöxt. Samson gaf þessum klóni nafn og heitir hann núna blóðrifs ´Færeyjar´. Færeyingar sjálfir kalla hann ljósareyð blómuribes. Talið er að yrkið hafi borist til Færeyja frá Skotlandi en þar hefur blóðrifs verið ræktað frá 19. öld. Títt nefndur Samson er að auki helsti heimildarmaðurinn við skrif þessa pistils.


Nærmynd af blómum blóðrifs ´Færeyjar´ tekin í Síðuhverfi.

Blóðrifs er náskylt garðarifsinu okkar og minnir á það. Þó er sá munur að blómin á þessari tegund eru mun meira áberandi. Þetta er einn af þessum runnum sem eru áberandi fallegir á vorin. Blóm tegundarinnar geta verið frá eldrauðu og yfir í hvítt. Yrkið ´Færeyjar´ hefur ljósrauð blóm en í Lystigarðinum má finna eintak með hárauðum blómum. Tegundin blómstrar í júní og er um þessar mundir í fullum blóma. Hér verður runninn um 1,5 metrar á breidd og hæð en hann getur orðið 3-4 metrar í útlöndum. Ólíkt garðarifsinu er þessi tegund fyrst og fremst ræktuð vegna blómanna en ekki berjanna. Þó getur hann borið ber en til þess að svo verði þarf helst að hafa fleiri yrki saman. Hann virðist ekki vera mikið fyrir sjálffrjóvgun.


Blóðrifs ´Færeyjar´ á Húsavík. Tegundin kemur upprunalega frá vesturströnd N-Ameríku, allt frá Kaliforníu og norður til Kanada. Hún vex ýmist á opnu landi eða í skógarjöðrum og við margskonar jarðvegsskilyrði. Hún hefur verið ræktuð í Evrópu frá árinu 1826. Í Færeyjum er það talið bæði vind- og saltþolið en sunnan lands á Íslandi á það til að kala dálítið. Sérstaklega ef mikil saltákoma verður seinni hluta vetrar. Má vera að meiri úrkoma í Færeyjum verji runnann fyrir slíkum áföllum og saltþolið sé aðeins ofmetið. Hér nyrðra verður mjög sjaldan vart við kal í þessu yrki en önnur yrki, sem reynd hafa verið, kala oft mikið. Það kemur þó fyrir að ´Færeyjar´ brotni dálítið undan snjó en hann nær sér auðveldlega eftir slík áföll.

Blóðrifs í blönduðu runnabeði. Þessi klónn hefur dekkri blóm en ´Færeyjar´ og virðist vera harðgerður. Nafn yrkisins er ekki þekkt. Hægt er að rækta blóðrifs ´Færeyjar´ sem stífklipptan runna eða leyfa því að vaxa frjálst. Þannig blómstrar það meira. Gott er að yngja runnana upp á fárra ára fresti með því að klippa elstu greinarnar af. Sömu aðferð má nota á aðrar rifstegundir.


Myndir og texti: Sigurður Arnarson

88 views

Recent Posts

See All

Σχόλια


bottom of page