top of page

Blóðheggur

Updated: Oct 15, 2023

Blóðheggurinn uppgötvaðist á sólríkum sunnudagsmorgni árið 1911 í dálítilli steinahrúgu af garðyrkjudrengnum Samúel Bodin sem þá var í læri í gróðrarstöðinni Fagerhult í Packebo í Smálöndum Svíþjóðar á árunum 1909-1912.


Strákurinn sá strax að þarna var dálítið merkilegur heggur, dökkrauð blöð og fagurbleik blóm. Svo hann útbjó sig með þær græjur sem þurfti til að taka plöntuna og koma henni í aðhlynningu í gróðrarstöðinni. Og þar stóð tréð alveg fram á 10. áratug liðinnar aldar – en fór illa í eldsvoða sem varð í gamla húsinu, sem það stóð við, að falli árið 1991.


En eigendur Fagerhult gróðrarstöðvarinnar fjölguðu trénu nokkuð – en ekki í meira mæli en svo að nokkur tré dreifðust um nágrennið og gengu ýmist undir heitinu „rauðheggur“ eða „fagerhultsheggur“. Nokkur eintök höfðu líka borist til garða í nágrannalöndum, en var ekki fjölgað þar. Það var ekki fyrr en 1960 að tré var skráð opinberlega í fræðibækur og þá undir heitinu Prunus padus forma colorata - en gengur nú bara undir heitinu Prunus padus 'Colorata‘ – Ekki er vitað til að þessi stökkbreyting, sem gefur rauða litinn, hafi komið fram víðar. Að líkindum er þessi stökkbreyting ríkjandi því stundum sáir blóðheggurinn sér og eru þá um helmings líkur á að hann verði rauður.


Á árunum milli 1960-1972 var nokkrum hópi einstaklinga komið til og þeir sendir vítt og breitt um Svíþjóð þvera og endilanga til að kanna viðbrögð hans við veðurfari og hnattstöðu – og hann reyndist framúrskarandi vel á öllum svæðum. Því var farið að fjölga honum í stórum stíl upp úr 1973 – og hann síðan seldur undir heitinu „Blodhägg“ um alla Svíþjóð.


Í páskafríi vorið 1978 laumaði Hafsteinn Hafliðason, sem á megnið af þessum pistli, einu eintaki í ferðatösku sína og tók með sér til Íslands Á þeim tíma vann hann í Stokkhólmi. Hann kom því í hendur Sigurðar Alberts Jónssonar sem var forstöðumaður Grasagarðsins í Laugardal – og þar var það gróðursett og þreifst vel og er líklega enn við lýði í Trjásafninu þar.


Af þessum einstaklingi voru svo teknir græðlingar af reykvísku gróðrarstöðvunum - blóðheggsnafnið sænska fylgdi með – og blóðheggurinn hefur síðan verið til sölu í íslenskum gróðrarstöðvum - líklega frá 1982-1983, harðger og árviss með blómgun. Á hann sækir hegglús eins og önnur heggtré sem hér vaxa, en sjaldan til baga. Og haustfetalirfur narta í blöð hans af og til. En blóðheggurinn – og allur heggur reyndar – er afar viðkvæmur fyrir úðunarefnum, svo best er að láta hann bara í friði með sínar óværur, þótt þeirra verði vart.(Byggt nær eingöngu og að mestu orðrétt á pistli eftir Hafstein Hafliðason með góðfúslegu leyfi. Myndirnar tók Sigurður Arnarson)

597 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page