top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Baobab (Nei, þetta er ekki vitleysa)

Updated: Oct 30, 2023

Tré eru alls konar. Sum eru stór, önnur lítil. Sum þykk, önnur grönn og svo mætti lengi telja. Öll eiga þau það sameiginlegt að við vitum oftast hvað snýr upp og hvað niður. Þó er til lítil ættkvísl trjáa sem líta þannig út, fljótt á litið, að halda mætti að þau væru á hvolfi. Þessi grein fjallar um þau. Útlit þeirra er eitt það furðulegasta í heimi. Sum hafa stofna með allt að 10 metra þvermál en ná þó ekki nema svona 12 metra hæð. Önnur verða mun hærri. Á flestum tungumálum kallast þetta tré baobab en orðin apabrauðstré og flöskutré hafa einnig verið notuð yfir þau. Það á bæði við um íslensku og útlensku.


Lundur af lauflausum baoabab trjám í Malaví.

Ættkvísl og aldur

Á latínu heitir ættkvísl Baobab trjáa Adansonia í höfuðið á frönskum grasafræðingi að nafni Michel Adanson (1727 til 1806). Adanson var einn af þeim allra fyrstu til að skrifa um þessi tré en það var sjálfur Linnaeus sem gaf ættkvíslinni þetta nafn.

Nú eru þekktar einar átta (sumir segja níu) tegundir í ættkvíslinni. Þær lifa villtar á Ástralíu, eyjunni Madagaskar og á meginlandi Afríku. Þeim hefur að auki verið plantað víðar þar sem þau geta þrifist. Allar geta þær orðið mjög gamlar og því er haldið fram að sum tré í Afríku geti vel verið allt að 5000 ára gömul. Það getur þó verið erfitt að staðfesta þann aldur því trén mynda ekki hefðbundna árhringi eins og tré sem vaxa á okkar slóðum. Því getur verið torsótt að staðfesta aldurinn. Þó hefur verið reynt að mæla aldur trjánna með kolefnisgreiningu. Þær mælingar gefa til kynna að tréð geti orðið allt að 3000 ára gamalt. Það er mjög hár aldur þótt það nái ekki þeim aldri sem sumir segja að það geti náð. Staðfestar frásagnir af þessum trjám benda til að algengt sé að þessi tré verði að minnsta kosti 500 ára gömul. Sennilega er best að hafa orð Colin Tudge um aldur þessara trjáa. Hann segir einfaldlega í bók sinni, sem vísað er í heimildaskrá: „Það veit enginn hversu lengi baobab getur lifað.“


Einhverjar ásætur hafa tekið sér bólfestu í þessu tré eins og sjá má.

Tegundir

Útbreiðsla trjánna vekur athygli. Ein tegund vex á meginlandi Afríku, ein í Ástralíu en hinar einungis á Madagaskar!


Algengasta tegundin vex á meginlandi Afríku og heitir A. digitata. Samkvæmt orðabanka Árnastofnunar er það eina tré ættkvíslarinnar sem hefur íslenskt heiti. Kallast það apabrauðstré en orðabankinn gefur upp samheitið baobab. Það nafn er líka notað á fleiri tegundir ættkvíslarinnar eins og í öðrum löndum. Nafnið apabrauðstré er samhljóða evrópskum nöfnum á trénu. Á þýsku heitir það Affenbrotbaum en á frönsku pain de singe. Þetta tré getur orðið um 25 metrar á hæð en er oft töluvert lægra. Þvermál stofns þess getur sem hægast náð 10 metrum, hver svo sem hæðin er. Þetta veldur því að trén eru oft stórfurðuleg í útliti.


Þegar almennar lýsingar eru gefnar á baobab trjám eiga þær best við þessa tegund, enda er hún algengust.


Stundum er því haldið fram að tegundirnar á meginlandi Afríku séu í raun tvær. Það hefur ekki verið staðfest af grasafræðingum Kew Gardens og því verður ekki fjallað nánar um það í bili.




Í Ástralíu vex tegundin A. gregori sem er lágvaxnara og hefur enn breiðari stofn en trén í Afríku. Algengast er það á þurrkasvæðunum í Norður-Ástralíu. Uppi eru kenningar um að þessi eina tegund í Ástralíu sé upphaflega þangað komin með sæfarendum frá Madagaskar eða meginlandi Afríku. Aðrir telja að fræ hafi borist með öldum hafsins. Hvor kenningin er rétt breytir ekki miklu úr þessu. Þetta hefur að minnsta kosti gerst fyrir ákaflega löngu síðan, því það hefur fengið tíma til að þróast í aðra átt og er nú talið sérstök tegund. Það er mun lægra en fyrrnefnda tegundin.


Á Madagaskar er A. madagascariensis sennilega þekktast og ber það nafn eyjarinnar. Þar vaxa samtals sex eða sjö tegundir af baobab trjám og eru þær allar einlendar. Þær vaxa bara á þessari stóru eyju og hvergi annars staðar.


Að telja þær hér allar upp þjónar varla tilgangi og er því sleppt, nema hvað rétt er að nefna að A. Grandidieri verður allra baobab trjáa hæst. Þau geta vel orðið rúmlega 40 metrar á hæð.


Á Madagaskar er þessi vegur nefndur The Avenue of the Baobabs.


Uppruni

Algengt er að þegar lífverur hafa svipaða útbreiðslu og Boabab tré að þau eigi uppruna sinn að rekja til þess tíma þegar löndin voru tengd saman. Það forna meginland kallast Gondwana. Hægt væri að draga fram þá hugmynd að eftirlifandi tegundir (sjá næsta kafla að framan) séu aðeins leifar þeirra trjáa sem áður voru útbreidd á Gondwana. Hinar sérstöku aðstæður á Madagaskar eiga þá að útskýra af hverju það finnast svona margar tegundir þar. Nýjustu DNA rannsóknir styðja ekki þessa tilgátu. Nú er talið að í þróunarsögunni séu þessi tré mun yngri en Gondwana. Trén virðast hafa komið fram eftir að hið forna meginland klofnaði í nokkra hluta. Líklegast er að þau hafi einfaldlega fyrst komið fram á Madagaskar og þess vegna séu flestar tegundirnar þar. Fáein fræ hafa náð að berast vestur til meginlands Afríku og önnur austur til Ástralíu. Hvernig það gerðist er óráðin gáta.




Vaxtarstaðir

Þekktust eru þessi tré fyrir að geta þrifist í mjög miklum þurrkum. Stundum eru þetta einu trén á margra ferkílómetra svæði þar sem þurrkar ríkja í langan tíma. Tréð hefur einstaka hæfileika til að geyma vatn og verður fjallað aðeins meira um það þegar fjallað verður um stofn trjánna.


Tegundir baobab trjáa vaxa þurrum gresjum beggja vegna miðbaugs. Þau geta vel vaxið í mjög næringarsnauðum jarðvegi og finnast allt frá sjávarmáli upp í um þúsund metra hæð. Lengi hafa innfæddir tekið með sér fræ af þessum trjám og plantað þeim nærri nýjum heimkynnum. Það á eflaust þátt í því að þau vaxa mjög víða þar sem loftslag er heppilegt og lítil samkeppni við önnur tré.


Baobab trjám hefur verið plantað nokkuð víða utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis. Þau má t.d. finna nokkuð víða á Indlandi og í ýmsum grasagörðum þykja þau ómissandi ef þau þrífast þar á annað borð.


Stundum virðast baobab tré ekki geta staðið undir eigin þunga. Það er nánast eins og þau leki niður.

Sess

Þessi stórkostlegu tré, sem geymt geta mikið magn af vatni, skipta íbúa þeirra svæða þar sem þau vaxa miklu máli. Laufin eru stundum rifin af þessum trjám til að halda lífi í búpeningi í Afríku og þau eru einnig nýtt til manneldis. Að auki kunna innfæddir að ná í vatnið úr trjánum í miklum þurrkum. Þessi tré geta því haldið lífi í fólki og búpeningi á erfiðum tímum. Það kann að eiga sinn þátt í því að sums staðar eru þessi tré beinlínis tignuð sem heilög tré.


Ýmiss dýr sækja í þessi tré. Í þeim eru stundum býflugnabú og margar tegundir fugla verpa í þeim. Sumar tegundir apa sækja í þau. Ekkert þessara dýra ógnar þó stórum trjám. Það geta þó fílar gert. Þeir eiga það til að stanga niður tré og halda þannig við gresjum sem þeir eru hrifnari af en skógum. Á þurrkatímum geta fílar orðið mjög skæðir við baobab tré. Þeir reyna þá að rífa þau niður til að svala þorsta sínum. Annað hvort með því að tyggja mjúkan viðinn eða sjúga vatnið úr honum.


Allaufgað tré í Chilombo í Malaví. Greinileg ör eftir nýtingu barkarins.


Sagnir

Lengi hefur mönnum þótt eins og þessi tré standi á haus. David Livingstone sagði að þessi tré væru eins og risastórar gulrætur sem settar hefðu verið á hvolf ofan í jörðina. Það er vel skiljanlegt þegar myndir eru skoðaðar.


Í ljómandi góðri grein eftir líffræðinginn Skarphéðin G. Þórisson (sjá heimildaskrá) er sagt frá nokkrum þjóðsögum um uppruna þessara trjáa. Þetta er sá sami Skarphéðinn og veitti okkur góðfúslega leyfi til að birta myndir sem hann á. Færum við honum hér með okkar bestu þakkir fyrir þær. Colin Tudge nefnir líka sögur í sinni bók (sjá heimildaskrá). Margar þessara sagna benda til þess að í raun séu þessi tré á hvolfi. Að krónan sé ofan í jörðinni en ræturnar upp í loft. Þessi hugmynd nær yfir nánast allt útbreiðslusvæði trjánna.



Auðvitað er fegurð afstæð, en sennilega getum við flest verið sammála um að þessi tré teljast ekki beinlínis falleg. Ein þjóðsagan segir að þannig hafi það ekki alltaf verið. Öðru nær. Eitt sinn voru þessi tré alveg sérlega fögur. Þau gortuðu mjög af fegurð sinni við önnur tré. Slíkt mont þoldu trén illa og kvörtuðu því undan grobbinu við guð sinn sem refsaði baobab trénu með því að snúa fræjum þess ætið öfugt. Til þessa dags hefur tréð ekki áttað sig á þessari refsingu og því vaxa ræturnar alltaf upp en greinarnar niður.


Önnur saga segir að baobab trén hafi ekki viljað standa kyrr eins og þó er algengast meðal trjáa. Guð varð eitthvað fúll yfir því og reif þau upp og stakk þeim öfugum ofan í jörðina til að kyrrsetja þau. Þessi saga á ef til vill rætur í því að þegar baobab drepast rotna þau fyrst að innan. Þegar lítið er orðið eftir að við innan í trénu getur það fallið snögglega og þá er ekkert eftir nema hrúga af trefjum sem er miklu minni um sig en tréð sem áður stóð á sama stað. Þess vegna segja sumir að trén eigi það til að stinga af.


Ein sagan segir að við upphaf sköpunarinnar hafi öllum dýrum verið úthlutað einu tré. Baobab var svo óheppið að vera úthlutað til hýena. Trén voru ekki par sátt við úthlutunina og bauð við þessum dýrum. Í mótmælaskyni stungu þau krónunni ofan í jörðina og rótunum upp.


Í Kalaharíeyðimörkinni lifir Sanfólkið, sem stundum eru kallaðir búskmenn. Þeir eiga sér þá sögn að guðinn Thora hafi viljað losna við tréð úr garði sínum af einhverjum ástæðum. Hann reif það upp með rótum og henti því í burtu. Það lenti öfugt í jörðinni og hefur vaxið þannig síðan.


Í Ástralíu er til sú sögn að trjánum rigni af himnum ofan. Þar sem efri hluti þeirra er þyngri en ræturnar er það sá hluti sem lendir fyrst á jörðinni. Þess vegna eru þau á hvolfi.



Til eru ýmsar aðrar sagnir um trén og hvernig ber að umgangast þau. Sumir trúa því að ef blómin eru borðuð muni viðkomandi lenda í ljónskjafti. Aftur á móti má setja fræin í vatn og drekka síðan vatnið. Það ku vera hin ágætasta vörn gegn krókódílum.


Tréð er einnig talið tengjast frjósemi kvenna. Við Limpopeo fljót í S-Afríku er því trúað að konur séu frjósamari ef þær búa á svæðum þar sem baobab vex. Þetta er engin bábilja heldur hefur þetta verið staðfest af læknum. Skýringin kann að liggja í því að konur borða blöð trjánna. Þau eru mjög vítamínrík og heilsusamleg. Þekkt er líka að konur sem gengur illa að eignast börn fái bót meina sinna ef þær snerta heilagt baobab. Þær þurfa þá að heita því að fórna trénu einhverju merkilegu eða nefna barn sitt eftir trénu. Þessi læknismeðferð við ófrjósemi hefur ekki verið staðfest af læknum en sagan segir að ef konurnar standi ekki við orð sín deyi barnið fljótlega.


Rætur Baobabstrés eru oft sýnilegar tugi metra frá trénu, einkum þar sem jarðvegur er rýr.


Stofn

Það sem gerir þessi tré svona sérstök í útliti er hinn undarlegi stofn. Hann er þykkur og mikill. Viður trjánna er mjúkur og léttur. Það er miklu algengara að hraðvaxta tré hafi léttan við en hægvaxta þungan. Baobab tré eru undantekning frá þeirri reglu. Það vex reyndar hratt í byrjun en svo hægist mjög á vextinum. Bolurinn er í raun einn risastór vatnsgeymir. Viðurinn hefur að geyma fullt af holrúmum sem tréð getur fyllt af vatni ef og þegar það er í boði. Viðurinn er því nánast eins og trefjaríkur svampur sem miðlað getur vatninu, hægt og hægt, til annarra hluta trésins þegar á þarf að halda. Hvert tré getur á þennan hátt geymt allt að 120.000 lítra af vatni til þurrkatímans.


Víða má sjá holuð fótstig í stofni trjánna. Þau nýtast þegar laufi og aldinum trjánna er safnað. Einnig eru þau notuð til að ná í hunang villibýflugna sem oft gera sér bú í trjánum.



Gömul tré í Afríku verða oft maurum að bráð. Þeir éta viðinn innan úr trjánum þannig að inni í þeim myndast stundum stór, tóm hólf. Önnur tré eru holuð að innan af mönnum. Höggvinn er út inngangur og stofninn síðan holaður að innan með eldi. Brunnir innveggirnir klæðast fljótt vaxkenndum berki.


Þessi hólf hafa verið nýtt á fjölbreyttan hátt. Stundum sem geymslur, felustaðir, salerni, heimili, pósthús og jafnvel sem veitingastaðir og verslun. Því var trúað að ekkert gæti grandað þeim er inni í trjánum fela sig. Því var konum og börnum gjarnan troðið inn í trén ef hætta steðjaði að.

Í Malaví er siður að ungir piltar saumi búninga og búi til grímur sem þeir dansa síðan í við heppileg tækifæri. Hefðin mælir svo fyrir að þetta sé gert í laumi. Þá geta afskekkt baobabt tré komið að góðum notum.


Áður fyrr voru baobab tré nýtt sem fangaklefar og stundum sem grafhýsi. Þegar dauðum líkama er komið fyrir inni í holrými baobab trés hefur það stundum gerst að þau þorna þar upp og verða, án frekari verkunar, að eins konar múmíum. Það er ágætt að hafa þetta í huga ef þið álpist inn í holrými á afskekktu baobab tré í Afríku. Á okkar dögum er algengt að jarðsetja frægt fólk í nágrenni við trén.


Í stofnum trjánna myndast stundum eins konar skálar. Oft stendur vatn uppi í þeim og það geta þyrstir ferðalangar nýtt sér. Sums staðar hafa menn stækkað þessar skálar til að búa til vatnsgeyma sem hægt er að tappa af. Vitað er um einn slíkan vatnsgeymi í baobab tré sem getur geymt rúmlega 4500 lítra af vatni.


Um viðinn í stofnum trjánna má bæta við að hann er ekki mikið notaður og fremur gagnlítill sem slíkur. Nánast allir aðrir hlutar trésins eru nýttir.



Lauf.

Laufblöð baobab trjáa eru fjöðruð eins og sést á meðfylgjandi mynd hér aðeins neðar. Þetta form á þó ekki við um ung tré. Þau hafa heil blöð. Hið sérkennilega útlit trjánna er ekki eins áberandi á ungum trjám. Því er það svo að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að ung tré séu í rauninni sama tegund og þau gömlu. Þetta kann að eiga sinn þátt í þeim þjóðsögum sem hafa myndast um vöxt þeirra. Trén standa nakin yfir þurrkatímann og laufgast ekki nema á regntímanum. Þau geta vel staðið nakin í allt að níu mánuði á hverju ári. En þegar laufin birtast þykja þau góð til átu, bæði fyrir menn og búpening. Að auki eru þau talin hafa lækningamátt og geta læknað jafn margvíslega krankleika sem nýrnaveiki, astma, skordýrabit, háan hita, niðurgang, blóðleysi og gigt. Að auki eiga þau að geta varið fólk gegn sníkjuormi sem hrjáð getur fólk á heimaslóðum trésins og kallast filaris. Þessi sníkjuormur stíflar sogæðakerfi þeirra sem hann herjar á.


Allaufgað baobab með holan stofn. Sjá má innganginn sem dökka rifu.


Blóm

Þegar trén laufgast í byrjun regntímans nýta trén gósentíðina og blómstra. Áður en þau opnast myndast stórir blómknappar. Þeir eru eins og boltar af ljósgrænu flaueli. Blómin eru hvít og geta orðið allt að 20 cm stór. Oftar eru þau þó minni eða á stærð við stóra appelsínu. Þau standa aðeins í einn sólarhring. Hin hvítu blóm mynda sykrur sem leðurblökur sækja í þessa einu nótt sem blómin lifa. Það eru því leðurblökur sem oftast fræva blómin á baobab trjám.



Aldin

Aldin þessara trjáa er stórt og sporöskjulaga. Það verður allt að 24x12 cm að stærð. Aldin þetta gengur undir nafninu apabrauð og stundum er tréð sjálft nefnt eftir aldininu. Inni í aldininu er fullt af hvítum molum sem koma í ljós ef aldinið er brotið. Þessir hvítu molar eru sykurhúðuð fræ trésins. Fræin eru olíurík og nýtt til lækninga og matar. Þau eru stundum þurrkuð, brennd og möluð eins og kaffibaunir. Heimamenn hella síðan upp á baobabkaffi frekar en að drekka hefðbundið kaffi eða te.

Utan um fræin í aldininu myndast safarík aldin sem notuð eru í sæta og C-vítamínríka drykki. Aldinið sjálft er hulið eins konar trjákenndri skel. Á Indlandi (þar hefur trjánum verið plantað) hafa nýtt tóm aldin sem flotholt fyrir fiskinet. Í Afríku eru þessi sömu fræhylki nýtt sem vatnsílát.



Börkur

Börkur baobab trjáa er grófur og um 5-10 cm þykkur. Hann virkar sem ljómandi góð eldvörn. Það gerir trénu ekkert til þótt berki trésins sé flett af því sárin lokast hratt. Trefjar á innanverðum berkinum eru sterkar og endingargóðar. Þær eru notaðar í þök, grófgerð föt, kaðla, net, strengi í hljóðfæri og margt fleira. Úr berkinum hefur einnig verið unninn eins konar pappír. Hann er einnig notaður á sama hátt og korkur.


Í Senegal og Eþíópíu er börkurinn notaður í vatnsheld höfuðföt sem einnig geta nýst sem drykkjarílát. Er það auðvitað til fyrirmyndar að geta nýtt höfuðföt sem drykkjarílát þegar þurfa þykir.


Allar myndirnar í greininni tók Skarphéðinn G. Þórisson nema ef til vill þessa. Hann er nefnilega á henni sjálfur ásamt eiginkonu sinni, Ragnhildi Indriðadóttur. Er honum hér með þakkað lánið á myndunum.


Heimildir

Skarphéðinn G. Þórisson 2005. Baobab - apabrauðstré í Afríku. Í (ritstj. Sigurður Ægisson) Á sprekamó, afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum, 11. júní 2005. Bls. 313-323.

Colin Tudge 2007: The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter.

275 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page