top of page

Askbrum

Updated: Aug 7, 2023

Eins og lesendum þessarar síðu er eflaust vel kunnugt höfum við hjá Skógræktarfélaginu birt umfjöllun um tré vikunnar á sumrin og fram á haust. Þessi skrif hafa að mestu legið niðri á veturna en þó ekki alveg. Í upphafi nýs árs þykir okkur við hæfi að endurvekja þennan þátt með örlítið breyttu sniði frá því sem við gerum á sumrin. Við ætlum að birta myndir af trjám í vetrarbúningi ásamt upplýsingum um hvernig greina má þau til tegunda á veturna þegar þau hafa kastað sumarskrúða sínum. Eins og áður munu bæði tré og runnar koma til greina, þótt strangt til tekið flokkist runnar ekki endilega sem tré. Í hverri viku (a.m.k. eitthvað fram á þorrann) munum við birta upplýsingar um eina tegund, algenga eða óalgenga, í ræktun hér á landi, og hvernig þekkja má hana frá öðrum tegundum í vetrarbúningi. Þetta er auðvitað misjafnlega auðvelt. Að jafnaði er auðveldara að greina í sundur sígrænar tegundir en þær sem fella laufin, en kastljósinu verður einkum beint að þeim síðartöldu. Í framhaldinu munum við birta hinn og þennan fróðleik eins og vanalega.


Fyrsta @trévikunnarSE árið 2021 er askur í vetrarbúningi. Á sumrin er hann auðþekktur á fingruðum laufblöðum sínum en þau sjást ekki á vetrum. Seinni part sumars myndar askurinn brum, rétt eins og önnur tré, sem opnast á sumri komanda. Þessi brum asksins eru fremur smá og græn til að byrja með en verða alveg svört þegar þau ná fullum þroska. Ef askurinn tekur á móti vetrinum enn með græn brum er næsta víst að hann kelur. Ef þau eru orðin svört en lítil sem engin hætta á því. Að auki hefur askurinn ljósan og nokkuð sléttan börk sem hjálpar til við greininguna. Það á að vísu aðeins við um ung tré en gömul asktré með margsprungin börk eru óalgeng hér fyrir norðan.


Myndirnar sem fylgja eru teknar í dag í garði í Síðuhverfi. Þær sýna ungan ask með svört, stutt brum og ljósan, sléttan börk. Önnur tré geta haft dökk brum en ekki svona stutt og kolsvört.21 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page