Söfnun Skógræktarfélags Eyfirðinga fyrir nýjum snjótroðara í Kjarnaskóg hófst fyrir réttu ári og lýkur formlega á hinni samhverfu dagsetningu 22. febrúar 2022. Árangur söfnunarinnar er framar öllum vonum og hefur félagið afgang sem nýttur verður til að koma þaki yfir hið nýja tæki.
Söfnunin fór nokkuð vel af stað snemma á síðasta ári. Tilefni hennar voru tíðar bilanir á gamla troðaranum í skóginum sem raunar gengu svo langt að um tíma munaði litlu að hann væri endanlega úr leik. Algjör tilviljun varð til þess að nauðsynlegur varahlutur fannst á elleftu stundu vestur á Ströndum og var brunað eftir honum hið snarasta til að áfram mætti þjóna göngu-, hlaupa- og gönguskíðafólki í skóginum. Nú reiðir fjöldi fólks sig á að skógurinn sé fær allt árið og skógurinn verður sífellt vinsælli til skíðagöngu. Viðbragða var því þörf.
Á fyrstu vikum söfnunarinnar söfnuðust nokkrar milljónir króna og fram á haust tíndust þar inn krónur jafnt og þétt. Í haust var blásið í glæðurnar og í lok nóvember fór allt á flug og sýndu þá einstaklingar, félagasamtök, sveitarfélög og fyrirtæki á Akureyri og nágrenni samtakamátt sinn. Þar hvatti hver annan til dáða og skapaðist mikil stemning á samfélagsmiðlum. Skógræktarfélagið á ekki nægilega stór orð til að þakka öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið með smáum og stórum framlögum.
Alls hafa safnast rúmlega 40 milljónir í söfnuninni sem er talsvert umfram það markmið sem sett var í upphafi, 35 milljónir króna.
Félagið ábyrgist að öll upphæðin verður nýtt í verkefni sem tengjast snjótroðaranum. Nauðsynlegt er að koma þaki yfir tækið, annað hvort með endurbótum á núverandi húsnæði félagsins eða með nýbyggingu. Snjó og klaka þarf að bræða af beltum og öðrum búnaði. Þá þarf að vera aðstaða til viðhalds á tækinu og undir þaki er hægt að verja það fyrir náttúruöflunum, vatni, vindi og sólskini.
Ekki er alveg komið á hreint hvenær nýi troðarinn kemur til landsins en von er á honum í sumar eða snemma í haust. Hann verður að minnsta kosti til þjónustu reiðubúinn áður en snjóa fer næsta vetur.
Tekið er við framlögum í söfnunina allt þar til henni lýkur formlega þriðjudaginn 22. febrúar. Ef fólk vill styðja starfsemi Skógræktarfélags Eyfirðinga að öðru leyti er besta leiðin til þess að ganga í félagið og greiða hóflegt félagsgjald sem er 5.000 krónur á ári.
Félagsaðild fylgir félagsskírteini sem veitir afslátt hjá ýmsum verslunum og gróðrarstöðvum.
Sérstakur hnappur er nú kominn á vef Skógræktarfélagsins á www.kjarnaskogur.is þannig að nú er leikur einn að ganga í félagið og styðja við fjölbreytta starfsemi félagsins.
Comments