top of page

Söfnun fyrir snjótroðara lokið

Updated: Feb 23, 2022

Í dag - 22022022 - lýkur formlega söfnun Skógræktarfélags Eyfirðinga fyrir nýjum snjótroðara.


Í heildina söfnuðust nákvæmlega 41 milljón og 609 þúsund krónur en til viðbótar við það höfum við vilyrði fyrir smurolíu, eldsneyti og flutningi á tækinu til landins. Nýi snjótroðarinn er aðeins breiðari og hærri en sá gamli og er of stór fyrir núverandi vélageymslu félagsins. Það sem safnaðist umfram verðmiða nýja snjótroðarans verður því nýtt upp í kostnað við að reisa skemmu yfir hann.


Söfnunarskógurinn er fullvaxinn 22.02.2022 og brátt getum við glaðst yfir ávöxtum hans.

Á degi sem þessum er rétt að staldra við og gleðjast. Við í stjórn og starfsmenn erum ánægð með áfangann og full þakklætis til allra sem hafa lagst á sveif með okkur. Það er augljóst að við þökkum öllum sem hafa lagt inn á söfnunarreikninginn okkar en við erum líka þakklát öllum sem hafa komið að því að skapa þá útivistarparadís sem Kjarnaskógur er. Fyrrverandi stjórnarfólki, starfsmönnum og félögum síðastliðin 70 ár sem hafa ræktað skóg og lagt grunn að og byggt upp flott útivistarsvæði. Kjarnaskógur er uppspretta og orkustöð þar sem fólk getur hvílst, hlaðið batteríin, fengið útrás, hlustað á fuglasöng og fundið ilminn af skóginum.


Skógurinn gefur og nú hafa skógarvinir gefið tilbaka.


Núverandi stjórn er glöð yfir að hafa getað veitt velvild í garð Kjarnaskógar og félagsins í góðan farveg og horfir bjartsýn og full af eldmóði til framtíðarverkefna í þeirra þágu.


Gamli rauður, stjórn og varastjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga 2021-2022. Frá vinstri í bakgrunni: Ólafur B. Thoroddsen og Sigurður Arnarson. Miðröð frá vinstri: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, Jóhanna María Oddsdóttir, Sigurður Hólm Sæmundsson og Una Þórey Sigurðardóttir. Fremst: Óli Þór Jónsson og Sigríður Hrefna Pálsdóttir. Á myndina vantar Brynhildi Bjarnadóttur og Pétur Halldórsson.

Gamli rauður, stjórn, varastjórn og Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri.

418 views0 comments

Comments


bottom of page