top of page

Samningur undirritaður í Vaðlaskógi

Í dag eru tímamót.


Einum kafla lokið og nýr að hefjast. Skógræktarfélag Eyfirðinga og eigendur Skógarbaðanna skrifuðu undir samning í dag vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar sunnan við böðin.


Samningaviðræður voru mjög krefjandi og tóku lengri tíma en nokkurn óraði fyrir í upphafi. Afraksturinn er vandaður samningur sem er góður fyrir báða aðila og verður samfélaginu öllu til heilla.


Með samningnum afsalar Skógræktarfélagið hluta skógræktarsvæðis Vaðlaskógar til baka til landeigenda en félagið hefur haft full umráð yfir svæðinu frá árinu 1936. Samningurinn tryggir jafnframt fjármagn til veigameiri umhirðu og þjónustu innan skógarins til framtíðar.


Aðgengi almennings að skóginum verður áfram tryggt en helstu forsendur og markmið félagsins í samningaviðræðunum voru að tryggja hagsmuni almennings, verndun skógarins og óskert eða bætt aðgengi almennings að skóginum.


Nú hefst nýr kafli og skógræktarfélagið er klárt í ný verkefni og hlakkar til samstarfs við öfluga frumkvöðla Skógarbaðanna.


Félaginu er efst í huga þakklæti til forfeðra og frumkvöðla skógræktar á Íslandi sem með óeigingjarnri elju tókst að græða upp örfoka mel Vaðlaheiðar til að komandi kynslóðir gætu notið verksins.
83 views0 comments

コメント


bottom of page