Á Íslandi hefur töluverður fjöldi trjátegunda verið reyndur. Sumt gengur vel, annað miður. Smátt og smátt hefur reynslan kennt okkur hvað þrífst hér best og vex hraðast. Það merkir samt ekki að þær tegundir, sem reynslan hefur dæmt sem lakari, hafi ekki sína kosti. Nú verður fjallað um eina slíka tegund. Hún kallast mýralerki. Mýralerki vex hægar en það lerki sem mest er ræktað hér á landi og hefur grennri stofn. Oft er talað um að það sé þolinmæðisverk að rækta skóga á Íslandi. Það á alveg sérstaklega vel við um mýralerkiskóga.
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, stendur við mýralerki í Vaglaskógi árið 2018. Lerkið var gróðursett árið 1956 þegar þröstur var eins árs. Mynd: Sig.A.
Ættfræði
Mýralerki, Larix laricina, er af ættkvísl lerkitrjáa, Larix, innan þallarættarinnar, Pinaceae. Á þessum síðum hefur áður verið bæði fjallað um þessa ættkvísl og þessa ætt og verður það ekki endurtekið hér, heldur vísað í þá pistla hér og hér. Áður fyrr gekk þessi ættkvísl undir nöfnunum lævirkjatré og barrfellir. Þau nöfn hafa vikið fyrir lerkiheitinu enda ekki eins þjál í samsetningu.
Vormynd af mýralerki austur í Skriðdal. Múlakollur og Hallormsstaðaháls í baksýn. Þetta lerki fer seinna af stað en annað lerki á sömu slóðum. Það vex hægt, verður mjög mjóslegið en er oftast vel beinvaxið og einstofna. Mynd: Sig.A.
Lýsing
Bókin Alaska Trees sand Shrubs (1972) var lengi einskonar biblía skógræktarmanna. Lýsing tegundarinnar er að mestu fengin þaðan, auk reynslu ræktenda hér á landi.
Mýralerki í haustlitum í ágúst. Mynd: Sig.A.
Stærð og vöxtur
Tréð telst almennt fremur lítið og vex hægt. Í Alaska er það vanalega frá um 9-18 metrar á hæð en getur á bestu stöðum náð allt að 24 metra hæð. Stofninn er áberandi grannur. Oftast aðeins 10-25 cm í þvermál á fullvaxta trjám. Þó eru til allt að 33 cm þvermál á trjám sem náð hafa yfir 20 metra hæð. Það telst ekki mikið á svo stórum trjám. Hæsta þekkta tréð í heiminum er 33 m með stofn sem hefur 110 cm þvermál og krónu með 14 m þvermál. Það tré er í Phoenix í Bandaríkjum Norður-Ameríku, ef marka má The Gymnosperm Database.
Hér á landi getum við ef til vill gert ráð fyrir að tréð geti með tíð og tíma náð um 15 metra hæð og ef til vill allt að 20 metra hæð. Tréð er nær alltaf einstofna. Stundum þarf þó að tryggja það með klippingu í æsku. Ef það er ekki gert er hætta á að það geti orðið tvístofna. Það vex hægt en örugglega og fær mjóa en stundum nokkuð óreglulega krónu.
Hæsta mýralerki á Íslandi er í Vaglaskógi og mældist 13,5m á hæð í júlí 2022. (Valgerður Jónsdóttir)
Mýralerkið í Kjarnaskógi er nokkuð frjálslega vaxið Ef til vill verður það frábært klifurtré með tíð og tíma. Mynd: Sig.A.
Þau kvæmi sem reynd hafa verið hér á Íslandi eiga það sameiginlegt að vaxtartími þeirra er styttri en annarra lerkitegunda. Það á einkum við á haustin. Þá hætta þau fyrr að vaxa. Sum kvæmi virðast einnig byrja seinna að vaxa á vorin en samkvæmt Auði I Ottesen (án ártals) á það ekki við um öll kvæmi. Þvert á móti segir hún frá því að mýralerkikvæmi byrji fyrr að vaxa á vorin og sé því hættara við vorkali. Sennilega á það frekar við í hafrænu loftslagi eða kvæmi frá Kanada frekar en Alaska. Reynslan í Eyjafirði er ekki þannig. En sama hvert kvæmið er. Þessi tegund getur látið hlýindakafla á vetrum trufla sig. Minna ber á því í innsveitum.
Ef mýralerki stendur ekki mjög þétt í uppvexti fær það granna krónu og greinar vaxa alveg niður að jörðu. Það kann að hjálpa trénu við ljóstillífun á norðlægum slóðum. Eins og við þekkjum kemur birtan ekki að ofan, heldur á ská á þeim slóðum, ólíkt því sem sunnar gerist. Þetta lag á trjám getur verið heppilegt til að fá sem mest af orku sólarinnar til ljóstillífunar.
Grannur stofn á mýralekri á sunnanverðu Snæfellsnesi. Til vinstri eru sverir stofnar evrópulerkis til samanburðar. Þau tré eru fjórum árum yngri. Þessi einstaklingur er upprunalega græðlingaplanta tekin af plöntu í uppeldisreit hjá skógræktarfélagi Reykjavíkur í Fossvogi 1989. Hægvaxta en hefur vaxið nánast áfallalaust og var um 3,5m á hæð árið 2018 þegar myndin var tekin. Mynd: Þórður Ingimar Runólfsson.
Fjögur jafn gömul lerkitré í Eyjafjarðarsveit. Til vinstri eru grannir stofnar mýralerkis en til hægri jafngamalt rússalerki. Hvíta skellan á myndinni er af tegundinni Bos taurus. Mynd: Helgi Þórsson.
Barr
Laufblöð barrtrjáa kallast barr. Oftast er það sígrænt hjá barrtrjám sem gerir það að verkum að þau eru talin sígræn. Lerkiættkvíslin er undantekning frá þessu. Það losar sig við allt barrið á haustin og stendur nakið yfir veturinn. Barrnálarnar vaxa saman í brúskum eða vöndlum og eru að jafnaði 12-20 nálar í hverjum vöndli á mýralerki. Á vaxtarsprotum má einnig sjá stakar barrnálar. Barrið er um 1-2,5 cm á lengd og ljós-grænbláar líkt og á öðru lerki. Sjái maður mýralerki og annað lerki hlið við hlið sést samt að lerkið er ekki alveg eins á litinn. Þessum mun er samt ekki alltaf auðvelt að lýsa með orðum. Að auki getur næringarástand, birta og árstími haft áhrif á litinn.
Grein af mýralerki ber í dekkri og grænni bakgrunn sem myndaður er af rússalerki. Mynd: Sig.A.
Barrið gulnar á haustin áður en það fellur. Nálarnar eru þrístrendar og mjúkar. Á vorin, þegar nýjar nálar birtast, eru þær mjög ljósgrænar og fallegar. Lerki er almennt miklu ljósara en önnur barrtré og lerkiskógar bjartari en aðrir skógar þallarættarinnar. Frumbyggjar Norður-Ameríku eru sagðir hafa nýtt mjúkar nálarnar sem fyllingu í kodda og sængur.
Mýralerkibarrnálar vaxa í vöndlum eins og hjá öðru lerki. Mynd: Sig.A.
Í Meltungu í Kópavogi er safn margra lerkitegunda. Mýralerkið fer fyrst í haustliti. Önnur tegund vildi vera með á myndinni og skellti grænni grein á hana. Mynd: Sig.A.
Greinar og sprotar
Greinar eru að jafnaði láréttar og mynda oft nánast 90° horn við stofninn. Þar sem tréð nýtur nægrar birtu greinir það sig vel niður og myndar greinar alveg niður að jörðu. Árssprotarnir eru nokkuð rauðleitir en eldri greinar verða dökkar, nánast svartar og grófar. Greinarnar vaxa út úr brumum á vorin sem eru um 2 mm á lengd. Algengt er að sum brumin drepast. Það má sjá dauð brum, sem ekki hafa opnast á sumum myndanna sem fylgja þessum pistli. Það kann að auka líkur á fremur frjálslegum vexti.
Börkurinn er dökkgrár, mjúkur í fyrstu en flagnar með aldrinum. Undir flögunum er stofninn brúnni, jafnvel rauðbrúnn. Sagnir herma að frumbyggjar Ameríku hafi notað börkinn til að lækna gyllinæð sem og ýmsa áverka á húð.
Háls í Eyjafirði. Myndin sýnir aðallega rússalerki en mýralerkið er lægra á bak við öspina til hægri. Þarna var unnið að grisjun í vor og bolirnir fremst á myndinni eru bolir mýralerkis. Mynd: Sigurður Ormur Aðalsteinsson.
Könglar
Þeir sem duglegir eru að greina í sundur lerkitegundir vilja gjarnan skoða könglana til að vera alveg viss. Á þessari tegund eru þeir litlir og oftast uppréttir á láréttum greinum. Þeir eru um 1-1,5 cm stórir, dökkbrúnir að lit og með um allt að 20 nokkuð kringlóttar, fíntenntar og mjúkar skeljar sem þekja köngulinn.
Köngull á mýralerki í Kjarnaskógi. Mynd: Sig.A.
Mýralerki er með minstu köngla allra lerkitrjáa. Hér eru þeir til hægri en könglar síberíulerkis til vinstri. Mynd: Helgi Þórsson.
Til að könglar þroskist þurfa fyrst að myndast það sem í daglegu tali kallast blóm, þótt strangt til tekið séu það ekki blóm í grasafræðilegum skilningi. Kvenblómin eru rauð eða næstum fjólublá, karlblómin gul. Þau birtast á sama trénu og oftast koma karlblómin á undan. Kvenblómin eru sjónarmun stærri en karlblómin en verða þó ekki nema um 1 cm á stærð. Þetta munu vera minnstu blóm ættkvíslarinnar. Eins og hjá öðrum lerkitrjám sér vindurinn um að koma frjóinu frá karlblómunum að kvenblómunum.
Karl- og kvenblóm á mýralerki til vinstri. Kvenblóm og nýútsprungnar nálar til hægri. Myndir: Pétur Halldórsson.
Sumir halda því fram að lerkið í Alaska sé sérstakt afbrigði af mýralerki. Kallast það þá L. laricina var. alaskensis eða jafnvel bara L. alaskensis. Munurinn er í því fólginn að köngulhreistrið á lerkinu í Alaska er oddhvassara. Almennt er þessi munur samt ekki talinn duga til að aðgreina þetta sem sérstakt afbrigði, hvað þá tegund.
Eftir mikla blómgun í vor eru könglar að þroskast á mýralerki í Kjarnaskógi. Mikill fjöldi af litlum könglum. Myndir teknar þann 28.6.2022 Myndir: Sig.A.
Þrír árgangar af könglum á mýralerki á Miðhálsstöðum. Þeir yngstu ekki að fullu þroskaðir en þeir elstu orðnir gráir af elli. Mynd Sig.A.
Viður
Eitt af því sem gerir þessa tegund áhugaverða er viðurinn. Hinn mjói stofn er mjög sterkur, harður og þungur. Viðurinn er ljósbrúnn eða rauðleitur á litinn. Það segir töluvert til um styrkinn hvar hann er helst nýttur. Hann þykir góður sem undirstöður undir járnbrautarteina, sem burðarsúlur í námum og sem kjölviður í skipum. Á öllum þessum stöðum kemur sér vel hversu sterkur hann er og einnig hjálpar að hann er mjög þolinn gegn fúa. Einnig er algengt að nota viðinn í símastaura og þessháttar. Hinn granni stofn gerir Það auðvitað að verkum að borðviðurinn er ekki mjög þykkur. Á móti kemur að rysjan er óvenju lítil. Stofninn er nánast bara kjarnviður. Það gerir viðinn harðan og eftirsóttan í þá hluti þar sem sóst er eftir slíkum kjarnvið. Frumbyggjar Norður-Ameríku nýttu viðinn í hluti sem áttu að vera endingagóðir og traustir. Þeir notuðu einnig ræturnar til að vefa saman körfur og til að sauma saman skinnbáta sína. Samkvæmt Wells (2010) var alla tíð mikilvægt hjá frumbyggjunum að biðja trén leyfis áður en þau voru nýtt. Má vera að það eigi enn við.
Viður mýralerkis hentar prýðilega í útihúsgögn. Myndin fengin héðan.
Vaxtarstaðir
Almennt má segja um lerki að það sé ljóselskur frumherji. Þessi tegund, mýralerki, er alveg sérstaklega ljóselsk. Mýralerki lætur gjarnan undan ef það vex með öðrum trjám enda þolir það ekki mikla samkeppni. Það týnir smám saman tölunni þegar aðrar tegundir vaxa því yfir höfuð og varpa skugga sínum á það. Mýralerki kann illa við sig í þrengslum og skugga. Það er auðvitað dálítið óheppilegt fyrir tré að geta ekki vaxið í skógum.
Reynsla Helga Þórssonar er meira að segja sú að það lætur undan öðrum ljóselskum trjám, eins og rússalerki, sem vex betur en það. Það er því ekki rétta tegundin í kröftuga blandskóga.
Mýralerki í skjólbelti í Kristnesi. Mynd Helgi Þórsson.
Vistfræðingar vestan hafs hafa einnig bent á aðra ástæðu þess að mýralerkið vex oft í mýrum þar vestra. Hún er sú að sagvesputegund, Pristiphora erichsohnii, sem barst til Ameríku frá Evrópu á 17. og 18. öld lagði tegundina að miklu leyti að velli. Mýralerki hélt velli í mýrunum vegna þess að kvikindið púpar sig ofan í jarðveginum og í mýrunum drukkna púpurnar að vetrarlagi en ekki á þurrlendinu.
Hafa ber í huga að mýrar á meginlandi N-Ameríku eru allt annars eðlis en okkar mýrar. Þar eru margra metra lög af barnamosa (Sphagnum) og þar er grunnvatnsstaðan afar mismunandi eftir árstímum. Hún er há að vetrarlagi en lág í sumarlok og á sumrin er djúpt mosalagið afar þurrt.
Það má því halda því fram að Þurrkþol sé skýringin á því að mýralerkið tórir (ásamt svartgreni) í kanadískum mýrum. (Aðalsteinn Sigurgeirsson 2022)
Hvor ástæðan sem ræður, samkeppni eða vespa, þá hefur lerkið bara hrakist þangað vegna þess að hún hafði ekki í önnur hús að venda.
Á heimaslóðum sínum í Alaska finnst það þess vegna sjaldan eða allsekki í þéttum barrskógum sem einkenna þær slóðir. Þess vegna finnst það fyrst og fremst á þeim slóðum þar sem önnur barrtré þrífast verr. Af því dregur það hið íslenska nafn sitt. Mýrar eru samt langt frá því að vera kjörlendi þessarar tegundar. Satt best að segja vex það illa í mýrum, ef þær lifa á annað borð. Það vex best í frjóu landi. Stundum gerist það á frjóum stöðum í Alaska og Kanada að mýralerkið nær forskoti á hvítgrenið, sem myndar þar stóra samfellda skóga. Þegar það gerist nær lerkið hvað bestum þroska. Samt er það svo að ef og þegar hvítgrenið vex því yfir höfuð þá lendir lerkið í of miklum skugga, veslast upp og deyr.
Mýralerki í gulum haustlitum vex með svartgreni í norður Minnesota. Myndin fengin héðan.
Heimkynni
Mýralerkið sem finnst á Íslandi er fyrst og fremst ættað frá Alaska. Þar vex það inn til landsins og er aðskilið frá öðru lerki af sömu tegund sem vex þvert yfir Kanada, allt til Labrador. Þar myndar það kjarr við sjóinn. Hingað hafa borist kvæmi frá Labrador. Hafa þau almennt reynst verr en kvæmin frá Alaska. Þó eru til ágæt tré í Hallormsstað ættuð frá Hope Simpson á Labrador.
Þetta er norðlæg tegund sem finnst þó til fjalla sunnar allt til Pennsylvaníu. Bestum þroska nær það við vötnin miklu. Einna glæsilegust eru þessi tré norðan við Lake Winnipeg og í Maine og New Brunswick, ef marka má Tudge (2005). Þar nær tréð allt að 25 metra hæð en er oftar nær 20 metrunum. Ef og þegar við sjáum stöku evrópulerki í grasagörðum Evrópu eru það tré af þessum slóðum. Almennt vaxa þau hraðar en mýralerki á Íslandi.
Við norðurmörk útbreiðslusvæðis síns vex það alveg að túndrunum, enda þolir það bæði stuttan vaxtartíma og mikinn kulda. Á þeim stöðum vaxa þau enn hægar en sunnar og verða um 5 metrar á hæð. Lengst í norðri finnst mýralerki í nágrenni Inuvik við mynni McKeziefljóts í Kanada. Ekkert tré vex norðar í Norður-Ameríku.
Útbreiðsla mýralerkis í Norður-Ameríku. Kortið fengið héðan. Í Alaska vex tréð hvergi nærri sjó en við Atlantshafið myndar það kjarr. Mestum þroska ná trén við vötnin miklu. Samkvæmt kortinu hjá Viereek og Little (1972) er útbreiðslusvæðið samfellt. Síðan hefur þekkingin aukist.
Fundarstaðir á Íslandi
Mýralerki er ekki ræktað víða. Til eru nokkur ágæt eintök í upplöndum höfuðborgarinnar þótt þar séu meiri umhleypingar í veðrinu en í innsveitum. Stuttur vaxtartími hentar trénu ágætlega. Á heimaslóðum í Alaska vex það hvergi nærri sjó og við getum tekið mið af því. Hér á landi virðist það henta best í innsveitum á Norðurlandi og á Héraði. Vel má vera að það geti þrifist í meiri hæð yfir sjávarmáli en margar aðrar tegundir.
Lerki í 360 metra hæð yfir sjávarmáli með lágvaxinni furu. Vex áfallalust um 10-30 cm á ári og hefur aldrei kalið. Myndina tók Sigvarður Einarsson innarlega í Jökuldal.
Sama tré fjórum árum áður. Hvítsmárinn sem vex með lerkinu hjálpar til en almennt þrífst lerki vel í rýru landi. Nú er búið að klippa aukastofninn af. Er það mjög til bóta. Myndina tók Sigvarður Einarsson
Tegundin er til í umsjá Skógræktarfélagsins. Í reitum félagsins er mest af mýralerki á Miðhálsstöðum Þar eru allstórir reitir sem gott hefði verið að grisja. Auðvelt er að ganga að þessu lerki þar. Stutt leið er að mýralerkinu sunnarlega í reitnum, rétt norðan við gömlu steyptu hliðstólpana. Það er einnig að finna rétt ofan við húsatóftirnar.
Kortið sýnir helstu lerkigróðursetningar á Miðhálsstöðum. Ekki er útilokað að þau finnist víðar. Myndina vann Helgi Þórsson.
Helgi Þórsson dáist að mýralerki á Miðhálsstöðum. Mynd: Sig.A.
Enn auðveldara er þó að skoða mýralerki við trimmbrautina í Naustaborgum. Þar stendur það í um 500-800 metra fjarlægð í norðurátt frá Naustaborgum. Þar liggur trimmbrautin í gegnum lund af mýralerki.
Vetrarmyndir af mýralerki í kjarnaskógi. Já, það má nota það sem jólatré. Myndir: Ingólfur Jóhannsson.
Að auki má einnig sjá mýralerki í landnemareit á Hálsi í Eyjafirði, í Kristnesskógi og á Vöglum á Þelamörk. Einu sinni töldu skógræktarmenn að ekki væri hægt að rækta skóga utan við Fagraskóg. Reynslan hefur kennt okkur að það er rangt. Áður en það lá fyrir vildu menn samt reyna að rækta einhverjar trjátegundir á þessum „afleitu skógræktarstöðum“. Þá kom upp sú hugmynd að nota skyldi mýralerki út með firði því vonlaust væri að rækta þar rússalerki. Verður því að telja líklegt að á þeim slóðum megi enn finna mýralerki. Það má þá þekkja það frá rússalerkinu á því að það lítur verr út.
Sjálfsagt má finna mýralerki víðar í Eyjafirði ef vel er að gáð.
Mýralerkið á Vöglum á Þelamörk sést vel frá veginum. Hér er svegir það sig í takt við gula vindaviðvörun. Mynd: Sig.A.
Elsta mýralerki á Íslandi er að finna í Vaglaskógi. Það er gróðursett 1956 og lítur mjög vel út. Það er núna 13,5 metrar á hæð. Fyrstu fræsendingar af mýralerki komu til landsins á árunum 1951 og 1952. Má vera að þessi tré séu af þeirri fræsendingu.
Rúnar Ísleifsson, skógarvörður í Vaglaskógi, mælir hæsta lerkið í skóginum. Mynd: Valgerður Jónsdóttir.
Fundarstaðir í Alaska
Í Alaska, þaðan sem tréð er upprunnið, er það eina lerkitegundin. Aðrar amerískar lerkitegundir vaxa sunnar og þá í fjalllendi. Mýralerkið er að finna hér og hvar í skógum fjarri sjó, gjarnan í smá þyrpingum og í allskyns jarðvegi. Það vex þar í smá lundum eða í blandskógum með birki, svartgreni, elri og víði. Þær tegundir eiga það allar sameiginlegt að vera ljóselskar og varpa ekki miklum skugga. Stöku sinnum vex það í blautu landi, gjarnan með svartgreni og jafnvel hvítgreni en þá lætur það undan ef grenið nær að tosast upp og skyggja á lerkið (Viereek og Little 1972).
Mest hefur borist af fræi til Íslands frá Fairbanks í Alaska.
Haustmynd af mýralerki í Fairbanks, Alaska. Myndin fengin héðan.
Myndina tók © Patrick J Endre.
Nafnið
Mýralerki er ef til vill ekki mjög heppilegt nafn. Þessa tegund má samt sums staðar finna í mýrum á útbreiðslusvæði sínu. Þar vex það oft með svartgreni og rakakærum víðitegundum. Ástæða þess er hversu auðveldlega það víkur fyrir öðrum trjám. Því hrekst það gjarnan á þau svæði þar sem önnur tré vaxa ekki, t.d. í mýrar. Mýrar eru samt ekki kjörlendi tegundarinnar eins og klifað hefur verið á í þessum pistli. Í þessu sambandi má nefna að líta má á mýralerkið sem erkitýpu fyrir alla berfrævinga (barrtré). Þau komu fyrr fram en dulfrævingarnir (lauftré) en hafa orðið að láta í minnipokann fyrir þeim og hrakist á þau svæði þar sem lauftrén þrífast ekki eins vel. Sama á við um mýralerki gagnvart öðrum barrtrjám.
Mýralerki á Miðhálsstöðum. Mynd Sig.A.
Ef ykkur þykir íslenska heitið einkennilegt, þá er latínuheitið, Larix laricina, ekki síður einkennilegt. Viðurnefnið laricina merkir „eins og lerki“. Latínuheitið merkir þá „lerki sem lítur út eins og lerki.“ Verður það að teljast furðuleg endurtekning. Ástæða þessa er sú að þeir sem fyrst lýstu trénu héldu að þetta væri fura og kölluðu tréð Pinus laricina enda minnir tréð nokkuð á lerki. Sennilega voru þetta ekki bestu grasafræðingar í heimi. Seinna var þetta leiðrétt, enda er þetta ekki fura heldur lerki. Síðan hefur tréð borið þetta einkennilega latínuheiti.
Á ensku er algengast að kalla þetta tré tamarack. Það mun vera komið úr indíánamáli sem kallast Algonquian og merkir „viður fyrir snjóþrúgur“.
Mýralerkið í Vaglaskógi. Þar er oft þörf fyrir snjóþrúgur. Kvæmið er Larch Flats í Alaska. Mynd: Sig.A.
Blendingur
Lerkitegundir eiga það til að blandast fremur auðveldlega saman. Stundum gerist það að fyrsta kynslóð blendinga vex betur en báðir foreldrarnir. Hefur þetta verið nefnt blendingsþróttur á íslensku. Best þekkta dæmið um þetta hérlendis er án efa lerkiblendingurinn ´Hrymur´. Hann á það til að mynda frjótt fræ en þá er blendingsþrótturinn að jafnaði horfinn. Þröstur Eysteinsson, núverandi skógræktarstjóri, bjó til blendinginn ´Hrym´. Hann bjó einnig til aðra lerkibblendinga. Næst besti blendingurinn sem hann bjó til var blendingur mýralerkis og fjallalerkis. Hann vex hraðar á hæðina en rússalerki og er vel stilltur á lengd vaxtartíma á Ísalndi. Aftur á móti virðist þessi blendingur fá grannan stofn frá mýralerkinu og þvermálsvöxtur blendingsins er minni en hjá venjulegu rússalerki. Þær fáu plöntur sem reyndar hafa verið kala ekki en verða stundum fyrir sveppasjúkdómi sem kallast barrfellir. Það hefur þó hingað til ekki haft teljandi áhrif á vöxt. Annað foreldrið í þessari ræktun er úr mýralerkið úr lundinum úr Vaglaskógi. Hitt foreldrið er fjallalerki úr Hallormsstað. Foreldrarnir eru ekki lengur í fræhöllinni í Vaglaskógi svo þessi tilraunaræktun er í raun lokið. Samt er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér með það.
Þröstur og félagar sýndu einnig fram á að auðvelt er að víxla mýralerki við evrópu- og japanslerki. Um það má fræðast hér.
Blendingur mýralerkis og fjallalerkis. Hann er 15 ára gamall á myndinni og um 8 m hár. Þráðbeinn en frekar mjósleginn eins og hann á ættir til. Eins og sjá má myndar blendingurinn köngla en alveg er óvíst hverskonar lerki kæmi úr þeirri sáningu. Mynd: Þröstur Eysteinsson.
Sama tré fjórum sumrum síðar. Þetta er glæsilegt tré.
Mynd: Þröstur Eysteinsson.
Notkun
Það liggur alveg fyrir að rússalerki vex betur en mýralerki. Að ekki sé nú talað um blendinginn sem kallast ´Hrymur´. Af hverju ættum við þá að vera að rækta mýralerki? Hvað hefur það fram yfir annað lerki og hverjir eru kostir þess?
Fyrst ber að nefna gott frostþol, einkum á haustin. Það þolir stutt og svöl sumur betur en annað lerki. Þess vegna er líklegt að hægt sé að rækta það hærra í landinu en annað lerki. Vilji menn rækta lerki ofan við núverandi skóga má vel reyna mýralerki. Það hefur stuttan vaxtartíma og eftir því sem hærra kemur í landið hentar það betur. Þar gæti það bætt jarðveg og aukið skjól fyrir aðra ræktun og gefið komandi kynslóðum heilmikil verðmæti. Gisnir fjallaskógar með mýralerki gætu fegrað landið og aukið á útivistargildi þess og almennar nytjar.
Það að mýralerki vex hægar en rússalerki og Hrymur getur þýtt að þar sem vaxtarrýmið er lítið hentar það ef til vill betur. Stórt og mikið rússalerki hentar illa í litla garða, en mýralerkið kemur til greina.
Þar sem þessi tegund klæðir sig vel (myndar greinar alveg niður að jörðu) og er ekki fyrirferðamikil má líka hugsa sér hana í skógarjaðra sem skrauttré eða til að auka á fjölbreytni.
Hér að ofan er einnig sagt frá blendingi mýralerkis og fjallalerkis sem reyndist vel. Seint verður fullreynt með slíka blendinga og gott að vita að erfðaefnið er til í landinu.
Laglegt mýralerki í Kjarnaskógi. Nokkuð beinn stofn neðan til en grönn og óregluleg króna. Barrfallið gerir jörðina frjórri. Mynd: Sig.A.
Heimildir
Auður I. Ottesen (ritstj.) (án ártals); Barrtré á Íslandi. Handhægur leiðarvísir fyrir ræktendur. Sumarhúsið og garðurinn. bls. 70-71
Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York
Leslie A. Viereek og Elbert l. Little, Jr. (1972): Alaska Trees and Shrubs. Forest Service United States Department of Agriculture. Washington D.C.
Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, Skógfræðingur. Munnleg heimild. 13. 7. 2022
Helgi Þórsson, Kristnesi, Munnleg heimild í júlí 2022.
Valgerður Jónsdóttir, Vöglum. Munnleg heimild 2. 7. 2022.
The Gymnosperm Database https://www.conifers.org/pi/Larix_laricina.php Sótt 27. 6. 2022
Trjárjætkarklúbburinn á Facebook. https://www.facebook.com/groups/trjaklubbur/posts/1677384342318833 sótt 26. 6. 2022.
Í aðrar netheimildir er vísað beint í texta.
Comments