top of page

Skógræktarfélag Djúpavogs 70 ára

Updated: Apr 10, 2023

Sumardaginn fyrsta árið 1952, sem bar upp á 24. apríl það árið, var Skógræktarfélag Djúpavogs stofnað (hét þá reyndar Skógræktarfélag Búlandshrepps). Félagið fagnar því 70 ára starfsafmæli í ár rétt eins og Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu sem við fjölluðum um í pistli í þarsíðustu viku. Hér verður stiklað á stóru í sjötíu ára sögu Skógræktarfélags Djúpavogs.


Upphaf

Stofnfélagar Skógræktarfélags Djúpavogs voru séra Trausti Pétursson, Þorsteinn Sveinsson kaupfélagsstjóri, Þorsteinn Sigurðsson læknir og Kjartan Karlsson oddviti og strax í upphafi voru félagar um 30. Stofnendur voru þá félagar í Ungmennafélaginu Neista á Djúpavogi en sterk tengsl eru á milli ungmennafélaganna og fyrstu skógræktarfélaganna. Í dag eru félagar rúmlega 50 talsins.


Lautarferð í Hálsaskógi á 9. tug síðustu aldar. Ætli sé boðið upp á gulrót, gróft brauð og steinselju? Mynd úr safni Sveins Þorsteinssonar.

Hálsaskógur

Strax sama ár og félagið var stofnað var því úthlutað um 2 ha landi við gamla Búlandsnesbæinn, innan við Djúpavog. Reiturinn er staðsettur í sérstöku landslagi sem einkennist af fallegum klettamyndum, hömrum og kvosum. Hafist var handa við að girða svæðið af og fyrstu plönturnar voru gróðursettar sama sumar. Elsti hluti skógarins er því jafngamall félaginu, 70 ára.


Félagið fékk ýmsar góðar gjafir í upphafi, en sumum þurfti svolítið að vinna fyrir. Einn félagsmanna gaf staura í girðinguna en þá þurfti að bera úr Veturhúsum í Hamarsdal og að næsta bílfæra vegi, sem var 5 km leið!


Hálsaskógur í landi Búlandsness. Gróðursetningar hófust árið 1952.

Skógurinn liggur undir svokölluðum Hálsum en valið á nafni skógarins er líka vísan í Hálsaskóg Lilla Klifurmúsar og Mikka refs. Árið 2007 var farið að leita að nafni á skóginn (í eldri ritum er talað um Búlandsnesskóg, Skógræktarritið 1990) og kom tillagan að Hálsaskógi frá grunnskólabarni sem eflaust hefur hlustað og hrifist af leikritinu fræga eftir Thorbjørn Egner. Næsta víst er að í báðum skógunum eigi öll dýrin að vera vinir.


Í upphafi var aðallega greni gróðursett en undanfarin ár hefur það mest verið birki. Skógurinn hefur líka stækkað, bæði trén hækkað og hekturum fjölgað og er nú búið að gróðursetja í um 50 ha sem tilheyra Hálsaskógi.


Hálsaskógur var vígður formlega sem Opinn skógur 21. júní árið 2008 en markmiðið með verkefninu Opinn skógur (sem er í umsjón Skógræktarfélags Íslands) er að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir, sem eru í umsjón skógræktarfélaga. Aðstaða og aðgengi er í fyrirrúmi í Opnum skógum svo að almenningur geti nýtt sér Opinn skóg til áningar, útivistar og heilsubótar.


Hálsaskógur er einn vinsælasti útivistarstaður íbúa sveitarfélagsins og þar ber margt forvitnilegt fyrir augu.

Aðstaða til útvistar og hreyfingar er góð í Hálsaskógi. Þar hafa verið settar upp trjátegundamerkingar og upplýsingaskilti, borð og bekkir. Ágætir stígar liggja um skóginn sem eru tilvaldir til léttra gönguferða.


Markmið fyrr og nú

Frá upphafið hefur hugsjón félagsmanna verið að græða og klæða landið og er sú hugsjón enn í fullu gildi. Frá upphafi hafa nær árlega verið gróðursett á bilinu 3.000-5.000 tré.


Eftir að Hálsaskógur varð Opinn skógur hafa verkefni eins og grisjun og stígagerð bæst við gróðursetningarnar. Yfir sumartímann hittast nokkrir félagar vikulega í skóginum og hlúa að plöntum, grisja og laga stíga.


Töfratré frá árinu 2020. Ljósmynd tók Þuríður Elísa Harðardóttir.

Í skóginum má finna aðstöðu fyrir sviðslistir og svæði fyrir minni veisluhöld. Þar eru haldnar hátíðir og útimessur. Skógræktarfélagið hefur tekið þátt í Dögum myrkurs sem er byggðahátíð á öllu Austurlandi, ýmist með því að hvetja íbúa til að setja upp viðburði í skóginum eða með því að taka þátt sjálft. Undanfarin tvö ár hefur verið hægt að leita að töfratré í Hálsaskógi í sambandi við byggðahátíðina. Þá feta börnin skógarstígana með vasaljós þar til þau finna töfratré sem glitrar í skini vasaljósanna.


Tekjustofnar og styrktaraðilar

Vinnan í Hálsaskógi er mikið til byggð á sjálfboðaliðastarfi, velvildar fyrirtækja á svæðinu og hinum ýmsu styrkjum. Sveitarfélagið Djúpivogur hefur iðulega styrkt félagið með vinnuframlagi vinnuskólans á sumrin. Landgræðslusjóður hefur styrkt kaup á kurli í stíga og grisjun. Einnig hefur komið vinnuhópur á vegum Skógræktarfélags Íslands 1-2 sinnum til að grisja í skóginum og vinna að stígagerð.


Þessir öfugsnúnu trjámenn voru reistir í Hálsaskógi árið 2010-2011. Verkið heitir Fordómar og það töfraði fram Vilmundur Þorgrímsson frá Hvarfi en hann vinnur ýmsa muni úr beinum, steinum og viði.

Á síðasta ári barst svo félaginu öflugur liðsauki þegar hópur Veraldarvina mætti reglulega í Hálsaskóg til að taka til hendinni. Með þeirra aðstoð tókst meðal annars að lengja göngustígakerfið og sinna viðhaldi á eldri stígum. Þau tóku líka þátt í að hengja ljós víðsvegar um skóginn svo skógurinn var sannarlega eins og klipptur út úr ævintýri; meira að segja hornsílin á tjarnarbotni gátu notið marglitra ljósa sem skreyttu skógartjörnina.


Skógartjörnin í Hálsaskógi er manngerð og er frá árinu 2007. Hornsílum hefur verið komið fyrir í tjörninni, yngstu kynslóðinni til mikillar ánægju.

Eyfirsk tenging

Það er ekki hægt að skrifa pistil um Skógræktarfélag Djúpavogs án þess að minnast á þau hjónin séra Trausta Pétursson og Borghildi Maríu Rögnvaldsdóttur. Eins og áður hefur komið fram var Trausti einn af stofnendum félagsins og fyrsti formaður og gegndi því starfi í 30 ár.


Trausti og María voru ættuð að norðan. Trausti var úr Svarfaðardal og ólst upp bæði í Brekkukoti og á Jarðbrú en María var frá Akureyri. Þau hjónin þekktu eflaust vel til skógræktar því í Eyjafirði hafði verið stunduð trjárækt um áratugaskeið og Skógræktarfélag Eyfirðinga verið starfandi í 19 ár þegar þau hjónin flytja til Djúpavogs 1949.


Byrjað var að gróðursetja í Hánefsstaðareit í Svarfaðardal 1946 og aðrir enn eldri skógarreitir í nágrenninu voru í Kóngshúsum, Dæli og Ytra-Holti svo dæmi séu tekin. Trjáræktarstöðin á Akureyri var stofnuð 1899 og 1910 var hafist handa við að koma Lystigarði Akureyrar á fót.


Má líkur leiða að því að búferlaflutningar norðlensku hjónanna 1949 hafi átt stóran þátt í því að Skógræktarfélag Djúpavogs var stofnað 1952.


Afmæliskveðja

Skógræktarfélag Eyfirðinga óskar félögum í Skógræktarfélagi Djúpavogs innilega til hamingju með stórafmælið. Megi afmælisárið verða gæfuríkt og gjöfult. Við sendum ykkur okkar bestu skógræktarafmæliskveðjur!


Hibb-hibb - Húrra, húrra, húrra!


Við hvetjum auðvitað alla á Djúpavogi og nágrenni til að ganga í félagið eða styrkja það á annan hátt á stórafmælisárinu. Hægt er að senda þeim kveðju á facebook-síðu þeirra í tilefni dagsins. Hálsaskógur er sannkallaður ævintýraskógur með kynjafígúrum og klettaveggjum sem gaman er að heimsækja.


Höfundur þakkar sérstaklega Ásdísi Hafrúnu Benediktsdóttur ritara og Önnu Sigrúnu Gunnlaugsdóttur, formanni Skógræktarfélags Djúpavogs, fyrir liðlegheit við öflun heimilda fyrir þennan pistil.


Myndirnar hér að ofna eru teknar á sama stað með um 40 ára millibili, sú fyrri á 9. áratugnum og sú seinni í dag, 24. apríl 2022, á 70 ára afmæli félagsins.


Heimildir

Birgir Thorlacius. (1990). Sr. Trausti Pétursson: Minning. Ársrit Skógræktarfélags Íslands, 1990, bls. 130.


Hálsaskógur. (á. á.). Skógargáttin. https://www.skogargatt.is/halsaskogur


Morgunblaðið. (2004, 15. júní). Töfrandi skógarparadís á Búlandsnesi. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/803830/

178 views0 comments

Recent Posts

See All

Bình luận


bottom of page