top of page
Writer's pictureSigríður Hrefna Pálsdóttir

Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu 70 ára

Updated: Nov 7, 2023

Mánudaginn 14. apríl 1952 var Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu stofnað. Það fagnar því 70 ára starfsafmæli í ár. Sjötíu ár eru kannski ekki langur tími í skógrækt og enn síður í jarðsögulegum skilningi en fyrir okkur mennina er þetta töluvert. Af ríflega 60 skógræktarfélögum á skrá hjá Skógræktarfélagi Íslands er Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu númer 24 í aldursröðinni. Margt getur gerst í 70 ára sögu og því fróðlegt að líta yfir farinn veg en einnig er spennandi að rýna fram í tímann.


Upphaf

Stofnfélagar Skógræktarfélags Austur-Skaftafellssýslu voru fulltrúar úr þeim fimm hreppum sem tilheyrðu sýslunni árið 1952. Félagið var stofnað fyrir tilstuðlan Ungmennasambandsins Úlfljóts. Í dag eru um 60 í félagatalinu.


Skógarreitir

Haukafell á Mýrum og Drápsklettar í nágrenni Hafnar eru skógræktarsvæði félagsins.


Haukafell á Mýrum. Gróðursetningar hófust árið 1980.

Haukafell

Á níunda áratug síðustu aldar festu hjónin Ásgrímur Halldórsson, kaupfélagsstjóri og alþingismaður með meiru, og Guðrún Ingólfsdóttir kaup á um 200 ha landi í Haukafelli á Mýrum og gáfu félaginu til eignar. Ásgrímur var um formaður Skógræktarfélags Austur-Skaftafellssýslu á árunum 1980-1989 og vann ötullega að framgangi félagsins. Fyrstu gróðursetningarnar eru frá árinu 1985 og var gróðursett í landið með það í huga að skipuleggja útivistarskóg. Árið 2004 var unnið deiliskipulag á svæðinu svo reisa mætti þjónustuhús fyrir tjaldsvæði og fjóra sumarbústaði.


Hugmyndin var að leigja sumarhúsalóðirnar út til stéttarfélaga og þannig skapa tekjustofn fyrir félagið. Sumarhúsin hafa enn ekki risið en þjónustuhúsið er komið í notkun og nýtist gestum tjaldsvæðisins og öðrum sem leið eiga um. Aðstaðan býður upp á vatnssalerni, grillstæði og vask utanhúss. Tjaldsvæðið er gamalt tún en gróðursett hefur verið í skjólbelti í kringum túnið. Enginn starfsmaður er á svæðinu til að rukka næturgesti en þeir hvattir til að skilja eftir pening í boxi til að standa undir rekstarkostnaði við þrif á salernum, sorphirðu og annarri umhirðu á tjaldsvæðinu.


Merktar göngleiðir liggja um svæðið og frá Haukafelli er hægt að ganga um 22 km leið um Mýrajökla að Skálafelli í Suðursveit.


Sumarið 2021 voru 4000 plöntur gróðursettar í Haukafelli eftir nokkurra ára hlé frá gróðursetningum. Ekkert hefur verið grisjað þar að ráði.


Grillhús á tjaldsvæðinu í Haukafelli.

Drápsklettar

Árið 2001 hófu Lionsklúbbur Hornafjarðar, Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu og sveitarfélagið Hornafjörður samstarf um landgræðsluskógrækt. Samið var við Skógræktarfélag Íslands um aðild að skógræktar- og uppgræðsluverkefni þeirra, landgræðsluskógum. Drápsklettar eru í nágrenni Hafnar, innan bæjarmakra, og eru í eigu sveitarfélagsins en verkefninu er þannig hagað að skógræktarfélagið er ábyrgðaraðili þess. Ýmsir hafa komið að gróðursetningu í reitinn eins og áðurnefndur Lionsklúbbur, Grunnskóli Hornafjarðar í sambandi við grænafánaverkefni Landverndar undir leiðsögn og umsjón skógræktarfélagsins.


Félagið stefnir að gróðursetningu í Drápskletta í sumar.


Upprennandi furuskógur í Drápsklettum.

Markmið fyrr og nú

Frá upphafi hefur markmið félagsins verið að koma niður sem flestum trjám og búa þannig til skjól og góðar aðstæður til útivistar. Markmiðið með Haukafellsskógi var að rækta yndisreit og er hann skilgreindur sem útivistarsvæði fyrir Hornfirðinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins.


Markmiðið með skógræktinni í Drápsklettum eru eins og í Haukafelli fyrst og fremst að skapa aðlaðandi úivistarsvæði fyrir Hornfirðinga.


Framtíðardraumar félagsins eru að tengja öll græn svæði innan bæjarmarka Hafnar og mynda þannig grænan trefil umhverfis bæinn. Þannig myndu aðstæður til útivistar og hreyfingar batna og lýðheilsa bæjarbúa eflast. Til eru teikningar af stígum og skipulagi en framkvæmdir eru enn sem komið er litlar.


Stafafura á skógræktarsvæði félagsins í Hornafirði.

Tekjustofnar og styrktaraðilar

Þó brennandi áhugi og vilji félagsmanna komi félagasamtökum langt þá verður óneitanlega meira út verki þegar hægt er að sækja í einhverja sjóði. Það þarf fjármagn til að kaupa plöntur, verkfæri og greiða verktökum fyrir grijsun. Stærri verkefni þurfa stærri fjárútlát eins og hönnun á deiliskipulagi, smíði mannvirkja, stíga- og veglagning svo fátt eitt sé nefnt.


Helsta tekjulind Skógræktarfélags Austur-Skaftafellssýslu síðust árin hefur verið tjaldsvæðið í Haukafelli. Reyndar þurfti að loka því í fyrrasumar því ekki var hægt að hafa starfsmann öllum stundum á staðnum til að sjá til þess að sóttvarnarreglur og fjarlægðartakmarkanir væru uppfylltar.


Aðrar tekjulindir eru sala á jólatrjám í Haukafelli í aðdraganda jóla og félagið hefur einnig sótt um styrki í sjóði eins og Pokasjóð (sem var tæmdur 2021) og Landgræðslusjóð. Einnig hefur verið gott samstarf við Sveitarfélagið Hornafjörð sem hefur styrkt félagið í ákveðnum verkefnum.


Hálsafellsá í Haukafelli.

Formaður félagsins

Formaður til tveggja ára er Björg Sigurjónsdóttir skógfræðinemi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Vegna ýmissa samfélagstakmarkanna út af Covid-19 síðustu árin hefur félagsstarf verið með minnsta móti. Fjáröflun hefur líka farið úr skorðum vegna lokunnar tjaldsvæðisins af áðurnefndri ástæðu og jólatrjáasalan var líka takmörkunum háð. Formaður hefur því upplifað fordæmalausa tíma á sínum fyrstu árum með félaginu sem endurspegla líklega illa hin 68 árin í sögu félagsins.


Aðspurð um hlutverk skógræktarfélaga í nútímasamfélagi taldi hún þau vera vettvang til hvatningar í ræktun og umhirðu skóga og vettvang til miðlunar fræðslu og ráðgjafar í skógrækt. Einnig til eflingar lýðheilsu með umhirðu og ræktun á umhverfi til útivistar og með skipulagi á viðburðum í skógum.


Björg fær bestu þakkir fyrir að svara spurningum okkar um félagið og fóðra þannig þennan afmælispistil. Allar myndir í þessum pistli eru af facebook-síðu félagsins.


Afmæliskveðja

Skógræktarfélag Eyfirðinga óskar félögum í Skógræktarfélagi Austur-Skaftafellssýslu innilega til hamingju með stórafmælið. Megi ykkur ganga allt að sólu og við vonum að afmælisárið verið hið gjöfullegasta og gæfulegasta.


Hibb-hibb - Húrra, húrra, húrra!


Við hvetjum auðvitað alla í Austur-Skaftafellssýslu til að ganga í félagið eða styrkja það á annan hátt á stórafmælisárinu. Hægt er að senda þeim kveðju á facebook-síðu þeirra í tilefni dagsins. Undurfagurt er í Haukafelli og þangað ættu allir leggja leið sína til að njóta útivistar.


Fréttir af félaginu




260 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page