Glöggir trjá- náttúruunnendur hafa eflaust tekið eftir því að í upphafi sumars eru sumar aspir í bænum nánast alveg lauflausar. Svo virðist sem eitthvað hafi orðið til þess að tilteknir klónar alaskaaspa líta mjög illa út. Aðrir klónar hafa alveg sloppið og eru ljómandi fallegir. Því vaknar þessi spurning: Hvað kom fyrir aspirnar?
Skjólbelti við kirkjugarðinn er dálítið skellótt. Sumir klónar í góðu standi, aðrir lauflausir eða því sem næst. Mynd: Sig.A.
Tegundir og klónar
Aspir eru ekki einu trjátegundirnar sem hafa látið á sjá. Sums staðar sér líka á nokkrum víðitegundum, einstaka rússa- og síberíulerki, einnig sumum eplatrjám og skyldum plöntum, ýmsum rósarunnum og öðrum skrautrunnum svo dæmi séu tekin. Mest er þetta samt áberandi á öspum. Þó langt í frá öllum öspum. Við þurfum ekkert að missa svefn yfir þessu, því flestar trjákenndar plöntur eru í ágætu standi og flestar hinna munu jafna sig.
Þrjár myndir af Grænugötuöspum. Þær þekkjast á vaxtarlaginu. Á fyrstu myndinni er klónninn lengst til hægri. Miðmyndin sýnir formóðurina sem stendur við Grænugötu. Þriðja myndin sýnir þrjár Grænugötuaspir rétt við Kirkjugarðinn. Myndir: Sig.A.
Erfðaefni
Algengast er að öspum á Íslandi sé fjölgað kynlaust með svokölluðum græðlingum. Það leiðir til þess að hver græðlingur hefur nákvæmlega sama erfðaefnið og móðurplantan. Slíkt kallast klónn í eintölu eða klónar í fleirtölu og er haft í karlkyni hjá skógræktarmönnum. (Sumir kjósa að hafa þetta í hvorugkyni og tala þá um klón í nefnifalli). Nú er það svo að fjölmargir klónar eru í ræktun í bænum og í nágrenni hans. Sumir þeirra eru auðþekktir frá öðrum klónum en aðrir eru líkir innbyrðis. Útlit og gerð laufblaða, greinabygging og lag krónunnar, litur og útlit barkar getur verið misjafnt en einnig tími laufgunar á vorin og lauffalls á haustin. Það fer ekkert á milli mála að þessi ljótleiki í öspunum í sumar eru bundnir við ákveðna klóna. Við höfum áður fjallað um svokallaða Grænugötuösp. Þetta árið virðist einmitt sá klónn hafa orðið mjög illa úti. Við höfum líka fjallað um fleiri klóna á þessum síðum en ástand flestra er mjög gott.
Ígulrós og lerki sem farið hefur illa í vetur. Ekki er víst að sömu atburðir og löskuðu aspirnar hafi haft hér áhrif. Myndir: Sig.A.
Þegar trjám er fjölgað með fræi, eins og algengast er með t.d. lerki, þá hefur hvert tré sitt erfðaefni. Því er það svo að stöku lerki líta illa út, en sjaldnar heilu lundirnir eins og þegar sami klónn er notaður á samfelld svæði. Því miður finnast reyndar dæmi um að heilir lundir af lerki líti illa út, en það heyrir til undantekninga. Útlit og dreifing lauflítilla trjáa segir okkur að erfðaefni trjánna skiptir þarna miklu máli. Eitthvað hefur valdið því að sum tré, sem hafa tiltekið erfðaefni, líta illa út.
Á gróðrinum í hólmanum má sjá að þetta er ekki vetrarmynd. Þessi ösp er ekki dauð þótt laufgun sé dálítið spes. Takið eftir efsta hluta hennar.
Mynd: Sig.A.
Mismunandi klónar
Svo er að sjá að sem sumir klónar líti verr út en aðrir. Svokölluð Grænugötuösp lítur mjög illa út. Einnig sér mikið á sumum svokölluðum C-klónum. Það eru klónar aspa sem náð var í árið 1963 til Alaska eftir slæmt vorhret þann 9. apríl það ár. Full ástæða er til að fjalla nánar um það áfall og verður ef til vill gert síðar. Í bili látum við duga að nefna að Haukur Ragnarsson fór til Alaska eftir þetta hret og náði í efnivið af ösp (og reyndar greni líka) á stærra svæði en áður hafi verið gert. Hugmyndin var að fá fjölbreyttari efnivið en fyrir var í landinu. Merkti hann efniviðinn með bókstafnum C og svo setti hann tölustaf á eftir sem tákn fyrir svæðið sem efniviðurinn var frá. Það köllum við kvæmi. Sem dæmi má nefna að C-6 var tekinn við ána Susitna. Því getum við kallað það kvæmi Susitna eftir ánni. Þegar fleiri en einn klónn var tekinn á hverjum stað voru þeir merktir með tölustöfum þar á eftir, t.d. C-6-003. Það voru að minnsta kosti þrír klónar teknir af þessu kvæmi (Líneik og Úlfur 1990). Einn af þessum C-6 klónum fékk nafnið ´Súsí´ eftir fundarstaðnum. Hann lítur mjög illa út núna. Það hefur reyndar gerst áður á þessai öld en þá náðu trén sér að fullu. Samkvæmt úttekt á safninu frá 1990 er kvæmið C-6 norðlægast þeirra aspa sem bárust til landsins og lifað hafa. Þessar aspir eru þekktar fyrir að laufgast snemma á vorin og voru fram á þessa öld taldar mjög heppilegar á Norðurlandi. Eitthvað hefur breyst síðan þá. Alls voru flutt inn 14 kvæmi af ösp árið 1963 (C-1 til C-14) en klónarnir voru að minnsta kosti 89 (Líneik og Úlfur 1990).
Kort frá Google maps af hluta Alaska. Rauða X-ið norðvestan við Anchorage er svona nokkurn veginn þar sem C-6 var safnað við Susitna (61°32´N, 150°35´W). Samkvæmt Líneik og Úlfi (1990) var efniviðurinn tekinn í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli.
Nokkrir aðrir klónar eru líka ljótir. Ekki bara C-klónar. Má nefna klóna sem kallast ´Sæland´ og ´Hringur´ sem dæmi. Það sér víða á þeim (Valgerður Jónsdóttir). Aðrir klónar líta miklu betur út. Hér í bænum var klónninn ´Randi´ mikið ræktaður í eina tíð og gæti vel verið algengasti klónninn í bænum. Það sér ekkert á honum. Reyndar er það svo að hann er alveg dottinn úr tísku og er nánast ekkert ræktaður í gróðrarstöðvum núna.
Þessi mynd er tekin af asparþykkni norður í Reykjadal um mánaðamótin maí-júní. Aspir eru yfirleitt ræfilslegar þar núna í vor, en þessi klónn, sem talinn er C-6, er nánast alveg grár. Krónan laufgast ekki en eitt og eitt brum á stofninum sjálfum virðist lifa. Merkilegt má heita að rótarskotin framan við þykknið líta betur út. Eitthvað virðist hafa varið þau betur en stóru stofnana. Mynd: Áskell Örn Kárason.
Hvað veldur?
Það liggur fyrir að eitthvað hefur komið fyrir trén og erfðaefni þeirra skiptir máli. En hvað hefur orðið til þess að þetta gerist einmitt þetta vorið en ekki öll vor? Til að reyna að átta okkur á því þurfum við að skoða tvennt. Við þurfum að skoða hvaða þættir það eru sem ráða frostþoli og þó enn frekar: Hvað dregur úr frostþoli. Hitt sem við þurfum að skoða er veðurfarið. Það skoðum við þegar við vitum svarið við fyrri atriðunum. Þegar við veltum þessu fyrir okkur getum við ef til vill rifjað upp að nær allir vísindamenn heimsins eru sammála um að athafnir mannsins hafa leitt til aukinnar, hnattrænnar hlýnunar. Nú er jafnvel farið að tala um hamfarahlýnun. Vísbendingarnar eru ótalmargar. Getur verið að þetta tengist því eitthvað?
Rótarskot sem aspir mynda við Naustagötu hafa vitanlega sama erfðaefni og móðurplönturnar. Rótarskot lauflausu klónanna eru lauflaus en rótarskot laufgaðara trjáa eru allaufguð. Í bænum má núna sjá sum rótarskot sem byrjuð eru að laufgast. Mynd: Sig.A.
Frostþol
Vaxtartaktur trjáa er bundinn í genum en stjórnast af umhverfisþáttum. Samkvæmt þessari grein eftir Wisniewski og fleiri (2018) er ferlið sem leiðir til frostþols á haustsins og dregur úr því á vorin nokkuð flókið og margþætt. Koma þar til bæði lífeðlislegir og lífefnafræðilegir þættir. Eftir því sem þekkingunni fleygir fram hafa vísindamenn áttað sig betur og betur á að ferlið er flókið og engan vegin auðskilið. Vegna yfirstandandi breytinga á veðurfari hefur kastljós vísindamanna beinst meira að þessum þáttum en áður. Á það einnig við um rannsakendur hjá Skógræktinni hér á landi. Má þar nefna Brynjar Skúlason og Rakel J. Jónsdóttur sem bæði starfa hér á Akureyri.
Í okkar heimshluta þurfa tré og aðrar plöntur að þola frost. Þá leggjast plöntur í dvala og vaxa ekki aftur fyrr en hlýna tekur á vorin. Almennt má segja að á haustin ræður ljóslotan því hvenær tré draga úr vexti og fara að undirbúa vetrardvalann. Styttri ljóslota hvetur til vaxtarstöðvunar, myndunar endabruma og aukins frostþols. Ekkert bendir til að þetta hafi misfarist síðastliðið haust og veltum við því ekki meira fyrir okkur í bili.
Skýringarmynd frá Rakel J. Jónsdóttur af uppbyggingu og missi frostþols í rótum og sprotum á einu ári, frá júlí til júní. Bókstafirnir 12 tákna mánuðina. Neðri línan sýnir yfirvöxt, en sú efri rótarvöxt. Almennt er frostþol rótanna minna en sprota og laufa en það skiptir ekki öllu máli fyrir tré sem hefur verið gróðursett og hefur þroskað rótarkerfi.
Á vorin er það fyrst og fremst hitafar sem ræður því hvenær tré fara að vaxa. Þar skiptir svokölluð hitasumma eða öllu heldur uppsöfnuð hitasumma mestu máli. Þegar uppsöfnuð hitasumma samfelldra daga hefur náð tilteknu marki fara ferli að stað sem koma trénu til að brjóta vetrardvalann og fara að vaxa. Þá dregur úr frostþolinu. Tré, sem þolir grimmdarfrost í desember þolir mun minna frost þegar kemur fram á vorið, jafnvel þótt okkur sýnist ekki mikið í gangi hjá viðkomandi tré. Þegar tréð fer að vaxa dregur mjög hratt úr frostþolinu. Þetta sama ferli sjáum við já öllum plöntum sem hér þrífast en hitastigið sem þarf til að rjúfa dvalann er misjafnt. Við getum tekið dæmi af algengum sumarblómum. Sum þeirra, t.d. stjúpur, þola töluvert frost á vorin þótt þær séu farnar að vaxa. Önnur, t.d. flauelsblóm, steindrepast ef þau frjósa. Að öðru leyti eru flauelsblóm mjög harðgerð og blómstra mikið. Sama á við um tré og runna. Sum þola ekkert frost eftir að vöxtur hefst, önnur láta lítið á sjá. Munurinn á milli sumarblómanna og trjánna er ef til vill sá að þetta ferli hefst hjá trjánum þegar safastreymi eykst. Það gerist áður eða um leið og trén laufgast. Rannsóknir hafa einnig sýnt að það er mjög misjafnt á milli tegunda hver hin uppsafnaða hitasumma þarf að vera til að rjúfa dvalann.
Mynd úr Journal of Applied Ecology frá árinu 1989 sem sýnir hversu mikinn uppsafnaðan hita 15 tegundir trjáa þurfa til að opna brum sín á vorin. Athygli vekur að alaskaösp (Group 5) og lerki (Group 4) þurfa hvað minnsta hitasummu til að hefja ferlið. Því er Þeim trjám hættara við áföllum þegar frystir eftir hlýja daga en til dæmis sitkagreni (Group 2).
Í töflunni eru taldir saman dagar þar sem hitinn fer yfir 5°C. Það er algengt viðmið þótt ekki sé það einhlítt.
Frostálag á frumur
Þegar plöntuvefur verður fyrir frostálagi geta myndast ískristallar innan hans. Þeir geta myndast bæði utan við frumuna sjálfa en einnig innan frumuveggjanna. Í rýminu á milli frumanna er efnainnihaldið almennt minna en inni í umfryminu þar sem ljóstillífun fer fram. Því byrjar ískristallamyndunin þar. Þegar vatnið frýs flyst meira vatn í átt að kristölunum í gegnum frumuhimnuna og þar með dragast frumurnar saman og efnainnihald þeirra verður hlutfallslega meira. Þegar efnainnihaldið í eftirstandandi frumuvökva hækkar leiðir það til aukins frostþols frumna. Þannig virka efnin í sjálfum frumunum sem einskonar frostlögur þegar ískristallarnir á milli þeirra stækka. Þá þolir plöntuvefurinn í heild meira frost. Þegar vökvastreymi fer í gang í trénu á vorin getur þetta jafnvægi raskast og þar með dregur úr frostþoli. Ef frostið er mikið eða kemur skyndilega getur ískristalmyndunin orðið það mikil og hröð að frumuveggir rofna. Það getur skemmt plöntuvefinn í heild (Rakel J. Jónsdóttir 2022).
Mismunandi ástand aspa á Ráðhústorginu. Mynd: Sig.A.
Hitafar árið 2023
Þar sem við vitum að frostþol trjáa minnkar þegar hitasumman eykst á vorin er eðlilegt að skoða veðurfarsgögn til að reyna að átta sig á því hvað gerst hefur. Ef óvenju hlýtt er snemma vors getur dregið hratt úr frostþoli. Það er í góðu lagi ef ekki frystir duglega á eftir. Þá er fjandinn laus. Hin hnattræna hamfarahlýnun getur gert þetta algengara en áður. Því má búast við aukinni tíðni svona atburða á komandi árum.
Fjölbreytt veðurfarsgögn er hægt að nálgast á vef Veðurstofu Íslands. Þegar þau eru skoðuð beinist athyglin að tveimur tímabilum í vor þar sem aðstæðurnar voru einmitt svona. Fyrst mikil hlýindi og svo frost á eftir. Við getum ekki skorið úr um hvor atburðurinn ræður hér meiru, hvort það er misjafnt milli tegunda og klóna eða hvort samspil atburðinna skiptir höfuðmáli.
Horft í brekkurnar ofan við Innbæinn. Þótt þarna séu aspir sem mega muna sinn fífil fegurri er ástand trjánna almennt gott. Mynd: Sig.A.
Hitinn á fyrsta ársfjórðungi
Upplýsingar um veður í vetur og vor eru fengnar af vef Veðurstofu Íslands.
Janúar var kaldur um allt land. Reyndar sá kaldasti á landsvísu á þessari öld. Meðalhiti mánaðarins var -1,5°C á Akureyri.
Febrúar var hlýr um allt land og framan af var hann mjög umhleypingasamur. Að auki var hann óvenju sólríkur á Akureyri. Meðalhitinn í bænum var 2,0°C sem er 2,8 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Í 8 daga af 28 dögum mánaðarins (tveir af hverjum sjö) fór hitinn yfir 10°C á Akureyri.
Svo kom mars. Það er ekki einsdæmi að hann fylgi febrúar. Hann var mjög kaldur um land allt. Hann reyndist vera sá kaldasti síðan 1979 á landinu í heild. Að tiltölu, segir Veðurstofan, var kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Norðaustlaugar áttir voru ríkjandi nánast allan mánuðinn. Hér á Akureyri var meðalhitinn -4,0°C eða 4 stigum lægra en meðaltal áranna 1991 til 2020.
Ef hinn óvenjulegi hiti í febrúar hefur dugað til að draga úr frostþoli hjá sumum trjám hafa þau ekki þolað grimmdarfrostið í mars. Að vísu er það alveg í fyrsta falli að hefja þetta ferli í febrúar en svo er að sjá sem hitasumman hafi náð alveg nægilega mörgum gráðum til að koma ferlinu í gang hjá sumum klónum (Bergsveinn Þórsson 2023).
Myndritið sýnir uppsafnaða hitasummu (rauð lína, kvarði til vinstri) og frostdaga þar sem frostið fór niður fyrir -3°C (lóðrétt strik, kvarði til hægri) fyrstu fjóra mánuði ársins. Byggt á gögnum Veðurstofunnar. Uppsafnaða hitasumman eru dagar þar sem meðalhitinn fer yfir 1°C. Það virðast vera gildin fyrir lerki, en aðrar tegundir þurfa annað hitastig. Kvæmi og klónar geta haft mismunandi þröskulda en almennt vakna norðlæg kvæmi við lægri hitasummu en þau suðlægari. Hitasumman fór yfir 100° í febrúar sem vel getur dugað fyrir norðlægar plöntur. Í apríl hafði sú tala meira en tvöfaldast. Mynd og upplýsingar: Bergsveinn Þórsson.
Veðrið 1979
Þar sem mars var sá kaldasti á landinu síðan 1979 getum við velt því fyrir okkur hvort sá kaldi marsmánuður hafi haft jafn slæm áhrif á trjágróður og hann virðist hafa haft í vor. Svo var ekki. Ástæðan er sú að febrúar var líka kaldur árið 1979. Því hafði ferlið ekki hafist og kuldinn í mars skipti engu máli fyrir trjágróðurinn.
Veðurstofa Íslands birtir á vef sínum allskonar upplýsingar. Hér eru kort sem sýna meðalfrávik í hitafari í febrúar og mars árið 1979. Eins og sjá má á meðfylgjandi kortum eru engar líkur á að gróður hafi farið að bæra á sér í febrúar. Því var frostþolið ekkert farið að skerðast í mars og hinn mikli kuldi hafði engin áhrif á aspir eða annan gróður í bænum.
.
Apríl 2023
Veðrið og veðurfarsbreytingarnar í febrúar og mars voru miklar og geta sem best valdið þessum skemmdum eins og áður segir. En fleira kemur til. Það er ekki alveg víst að frostþol aspanna hafi minnkað í febrúar enda almennt talið að þá sé trjágróður í hvíld á okkar slóðum. Það er ekki loku fyrir það skotið að veðrið í apríl hafi haft meira að segja. Hér er tafla yfir veðurfarsþætti í þeim mánuði á Akureyri. Veðurfræðingar segja að almennt hafi tíðarfarið verið nokkuð gott í apríl. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hlýr á landinu. En ekki er allt sem sýnist.
Meðalhiti á Akureyri var 4,2 stig sem er 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Það segir þó ekki allt. Meðfylgjandi línurit frá Veðurstofunni sýnir að síðustu dagar mánaðarins voru mun kaldari en meðaltal mánaðarins. Lágmarkshiti fór niður fyrir frostmark alla daga frá og með 22. degi mánaðarins. Mest frost varð þann 30. Þá fór frostið niður í -7,3° á Akureyri þótt meðalhitinn hafi verið „aðeins“ -0,8°C. Hitinn fór einnig niður fyrir frostmark fyrstu þrjá dagana í maí þótt meðalhitinn hafi ekki gert það. Maí var óvenju hlýr en þessi kuldakafli um mánaðarmótin apríl-maí getur vel hafa skemmt vaxtarbrodda sem komnir voru í startholurnar. Um þessi mánaðarmót frysti 12 nætur í röð á Akureyri.
Viðbrögð
Svo virðist vera, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, að um tvo atburði sé að ræða sem hafa getað valdið þessu. Ef til vill var það samspil þeirra, eða að mismunandi atburðir höfðu áhrif á mismunandi tegundir eða klóna. Því fáum við seint svarað.
Því fer fjærri að þetta sé í fyrsta skipti í heimssögunni að tré tapi nánast öllum laufum sínum á vorin. Það getur gerst vegna veðurs eða annarra þátta, svo sem afráns af völdum grasbíta. Því hafa tré þróað með sér ákveðin varnarviðbrögð. Þau helstu eru svokölluð „sofandi brum“ eða „dvalarbrum“. Það eru einskonar varabrum. Brum sem opnast ef eitthvað hendir trén. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Við vonumst því til að trén nái núna að opna þessi brum og þá munu trén aftur verða græn. Ef til vill ekki fyrr en í júlí eða ágúst, en þau munu flest laufgast. Þess vegna viljum við vara lesendur okkar við að taka upp óafturkræfar aðgerðir svo sem að fella þessar aspir.
Framhaldið
Svona seinkun á laufgun trjáa er ekki einsdæmi á Íslandi, þótt hún sé óvenju áberandi þetta sumarið. Reynslan mun skera úr um hvort þetta mun hafa varanleg áhrif á aspirnar en í þessu tilfelli hræða sporin ekkert sérstaklega. Nokkur atriði geta ráðið úrslitum um hvernig framhaldið verður. Til að opna dvalarbrumin þurfa trén orku. Þá orku fá þau með ljóstillífun. Vandinn er að lauf, sem ekki eru til, ljóstillífa ekki. Aspir sem líta frekar illa út en eru engu að síður með töluvert af laufum, munu örugglega ná sér. Hitt er meiri vafa undirorpið. Hvort aspirnar ná að opna dvalarbrum sín getur farið eftir næringarástandi, veðri, afráni og ýmsum öðrum þáttum. Eftir því sem trén laufgast seinna, þeim mun minni tíma hefur tréð til vaxtar og undirbúnings undir næsta vetur. Ef sumarið og haustið verður gott má búast við að trén jafni sig. Ef sumarið verður svalt er hætt við að sum trén nái ekki að nýta vaxtartímann nægilega vel. Þá er óvíst að trén nái að undirbúa sig fyrir haustið. Ef það gengur illa er hætt við haustkali. Það kemur þá ekki í ljós fyrr en næsta vor hvort áhrif þessa laufleysis verða varanleg eða ekki. Því er mikilvægt að taka trén sér til fyrirmyndar og sýna þolinmæði. Svo sjáum við til hvort við þurfum að bregðast við.
Aspirnar i kirkjugarðinum eru mjög misjafnar útlits þetta sumarið.
Mynd: Sig.A.
Lærdómur?
Öll áföll í skógrækt geta kennt okkur eitthvað. Ef til vill verður þetta til þess að við veltum meira fyrir okkur lífeðlisfræðilegum þáttum og aukum þannig við þekkingu okkar. Við sjáum líka hvaða klónar hafa farið illa út úr þessu veðri. Með aukinni hamfarahlýnun má búast við að svona atburðum fjölgi. Hitinn á vorin og seinni part vetrar getur orðið það mikill að dvali trjánna rofnar. Við færumst samt ekkert fjær norðurpólnum og því er alltaf hætta á vorfrostum þegar kaldur loftmassi fer yfir landið. Óeðlileg hlýindi snemma á vorin geta skemmt tré ef frost fylgir á eftir. Þá eru norðlæg kvæmi í mestri hættu og sumar tegundir eru viðkvæmari en aðrar. Því þurfum við ef til vill að huga betur að því erfðaefni sem við notum. Hér gildir, eins og alltaf og hjá öllum lífverum, að hinar hæfustu komast af. Ef og þegar aðstæður breytast skiptir erfðabreytileikinn miklu. Sum tré eru betur aðlöguð þeim breytingum sem spáð er en önnur. Við þurfum að taka tillit til þess við skipulagningu og umhirðu skóga.
Loftslagsbreytingar munu reynast þeim asparklónum sem laufgast snemma mjög erfiðar. Sama á við um suma einstaklinga hjá lerki. Ef svona atburðir endurtaka sig (allar líkur á því) munu þessir einstaklingar drepast eða verða grisjaðir burtu í skógrækt. Það minnir okkur á hvað skipuleg umhirða skóga er mikilvæg. Bæði síberíulerki og alaskaösp hafa litla laufgunarbremsu á vorin og er því sérlega hætt við vorfrostkali öfugt t.d. við sitkagreni sem sýnir mikla tregðu fram eftir öllum vetri (Brynjar Skúlason 2023 og Murray, Cannell og Smith 1989).
Helsti lærdómurinn er þó vonandi þolinmæði. Það er eiginleiki sem tré reyna stöðugt að kenna okkur. Því látum við lokaorðin verða þessi: Þolinmæði er dyggð. Ekki bregðast við þessu laufleysi af fljótfærni.
Heimildir:
M. B. Murray, M. G. R. Cannell og R. I. Smith (1989): Date of Budburst of Fofteen Tree Species in Britain following Climatic Warming. Í: Journal of Applied Ecology volume 26, bls. 693-700.
Líneik Anna Sævarsdóttir og Úlfur Óskarsson (1990): Ættbók alaskaaspar á Íslandi. I: Safnið frá 1963. Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, Mógilsá Rit 4(10). Sjá: https://www.skogur.is/static/files/rit-mogilsar/4-10-1990_2.pdf. Sótt 10. maí 2023.
Rakel J. Jónsdóttir (2022): Frostþol skógarplantna og frostþolsmælingar
– Verklýsing á jónalekaaðferðinni. Í: Rit Mógilsár Rannsóknasviðs Skógræktarinnar 46. tbl. Skógræktin. Sjá: https://www.skogur.is/static/files/rit-mogilsar/46-2022_frostthol-skogarplantna-og-frosttholsmaelingar_gagnvirkt_300dpi.pdf.
Veðurstofa Íslands (2023): Veðurfar á Íslandi. Sjá: https://www.vedur.is/vedur/vedurfar/manadayfirlit. Sótt 8. júní 2023.
Michael Wisniewski, Annetta Nassuth og Rajeev Arora (2018): Cold Hardiness in Trees: A Mini-Review. Mini Review article volume 9, 20. sept. 2018. Sjá: https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fpls.2018.01394/full?fbclid=IwAR3WHVJydjjz-8Y06P0RdrXWsnnL-E5XTvraGZZttawWnjz98hMNf8PWF9s. Sótt 11. júní 2023.
Munlegar heimildir:
Bergsveinn Þórsson (2023): Munnleg heimild þann 7. júní 2023.
Brynjar Skúlason (2023): Munnleg heimild þann 14. júní 2023. Valgerður Jónsdóttir á Vöglum (2023): Munnleg heimild þann 7. júní 2023.
Commentaires