top of page

Birkið í Garðsárreit

Updated: Jul 6, 2023

Forsíðumynd þessa pistils sýnir tvö birki að hausti til. Annað er með gráan stofn og með öllu lauflaust. Hitt er með hvítan stofn og gul haustlauf.

Hvernig stendur á þessum mun?


Skógræktarfélag Eyfirðinga var stofnað 11. maí árið 1930 og er elsta starfandi skógræktarfélag á landinu.


Strax eftir stofnun félagsins tók það að beita sér fyrir friðun skógarleifa í héraðinu. Árið 1931 fékk félagið til umráða landspildu við Garðsárgil. Þar voru þá skógarleifar í gilbarminum þar sem erfitt var fyrir sauðfé og menn að komast að. Skemmst er frá því að segja að þessi friðun skilaði fljótt góðum árangri og birkið fór að sá sér í hið friðaða land.


Árangur friðunar Garðsárgils er augljós og glæsilegur.


Eins og að ofan greinir var Garðsárreitur fyrst girtur af árið 1931 og á því 90 ára afmæli um þessar mundir. Því hefur kastljósi félagsins verið beint þangað í ár. Boðað hefur verið til skógargöngu í reitnum undir leiðsögn og fróðleiksmola úr skóginum má skoða hér, hér, og hér. Að auki er stutt umfjöllun um reitinn hér.


Jarðabókin

Freistandi er að halda að þessar skógarleifar, sem þarna var bjargað frá útrýmingu, hafi alltaf verið þarna. Því er fróðlegt að lesa lýsingu úr Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á jörðum í Öngulsstaðahrepp sem „var skrifuð og samantekin eftir almúgans tilsögn og undirrjettíng að Múnkaþverár klaustri þann 29. og 30. Septembr og 1. Octobris Anno 1712.“ (Jarðarbókin, 10. bindi; Eyjafjarðarsýsla bls. 282). Í lýsingu á Garðsá er ekki fjallað neitt um birki. Þar stendur: „Torfrista og stúnga næg. Elt er taði undan kvikfje. Móskurður meinast að fornu, brúkast ei. Fjalldraparif lítið til tróðs og eldiviðarstyrks.“ (sama heimild bls. 300). Ekki þótti ástæða til þess árið 1712 að nefna að ábúendur á Garðsá hefðu aðgang að birkitrjám í gilinu. Þess í stað er eingöngu fjallað um fjalldrapa „til tróðs og eldiviðarstyrks“. Við vitum auðvitað ekki hvernig þarna var umhorfs á þessum stað árið 1712. Má vera að birkikjarrið hafi þá verið svo lítið eða á svo óaðgengilegum stað að ekki hafi þótt taka því að nefna það. Það kann einnig að vera að það hafi verið svo vesælt að það hafi verið talið með fjalldrapa. Það hljómar samt ekki sannfærandi. Svo kann einnig að vera að ábúendur hafi reynt að gera sem allra minnst úr þessum hlunnindum til að minnka líkurnar á að þær yrðu skattlagðar. Það er mjög í anda þess að víða í Jarðabókinni er reynt að draga sem allra mest úr öllum hlunnindum en ýtt undir það sem miður fer. Hver sem ástæðan var þá dugði ekki „almúgans tilsögn og undirrjettíng“ til að nefna neinn skóg í Garðsárgili árið 1712.


Var hér ekkert birki í upphafi 18. aldar? Myndin tekin 17. okt. Allt birkið í gilinu orðið lauflaust en gulvíðir og reynir í haustlitum. Sama á við um lerkið efst á myndinni.


Steindór frá Hlöðum

Árið 1950 ritaði Steindór Steindórsson frá Hlöðum grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands í tilefni af 20 ára sögu Skógræktarfélags Eyfirðinga. Greinin heitir Skógar í Eyjafirði. Drög að sögu þeirra. Greinin er mjög fróðleg og má sjá í heild sinni á bls. 49-81 hér: ttps://www.skog.is/wp-content/uploads/2019/03/SRR_1950_lr.pdf


Greininni er skipt í fjóra hluta auk inngangskafla og lokaorða. Fjórði hlutinn er lýsing á skógum Eyjafjarðar eins og þeir voru á ritunartímanum árið 1950. Þar stendur m.a. þetta:

„Á austanverðum Garðsárdal eru nokkrar kjarrleifar, lágvaxnar að vísu, en hafa tekið nokkrum framförum síðari árin.

Í Garðsárgili milli bæjanna Hóls og Garðsár hefir geymst allvöxtulegt kjarr, sem gilið hefir verndað gegn ágangi manna og búfjár. Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk þar land nokkurt til umráða, og lét þá girða (1932) 4 ha svæði á gilbarminum að norðanverðu. Var þar þá skóglaust með öllu, en vafalaust hafa smáplöntur verið þar á víð og dreif, því að fræ fýkur þangað úr kjarrinu í gilinu. Brátt tók nýgræðingurinn að vaxa, og nú er allmikið af svæði þessu alvaxið þróttmiklum ungskógi. Eru mörg trén á þriðja metra á hæð, en nákvæmar mælingar eru ekki fyrir hendi. Garðsárgilsbirkið er mjög fallega vaxið og óvenjulega stórblöðótt.“


Þetta eru merkilegar lýsingar en aðrar heimildir segja að þarna hafi fyrst verið girt árið 1931 en ekki 1932 eins og stendur í textanum. Það er í sjálfum sér aukaatriði. Það sem skiptir meira máli er þessi magnaða framsýni hjá ármönnum félagsins; að girða af þetta svæði og treysta á sjálfgræðslu birkisins sem á tæpum tveimur áratugum skilaði trjám sem voru á þriðja metra á hæð! Annað sem rétt er að benda á er að Steindór nefnir að birkið sé óvenju stórblöðótt. Sá sem þetta ritar hefur ekki veitt því sérstaka athygli.


Eins og kunnugt er eru fjalldrapi og birki af sömu ættkvísl. Fjalldrapi er bæði lágvaxnari og smáblöðóttari en hreint birki. Það er vel þekkt á Íslandi að birki og fjalldrapi geta myndað blendinga og geta þeir verið með einkenni beggja foreldra og þar með minni laufblöð en hreint birki. Má vera að þessi lýsing Steindórs frá 1950 á stórblaða birki bendi einfaldlega til þess að birkið í gilinu sé lítt eða ekki blandað fjalldrapa. Hér er smá fróðleikur um þennan blending, sem stundum er nefndur skógarviðarbróðir.

Þar sem Steindór Steindórsson nefnir að hið vöxtulega kjarr sé á milli bæjanna Hóls og Garðsár er rétt að geta þess að á Hóli er hvorki minnst á birki né fjalldrapa í áðurnefndri Jarðabók Árna og Páls.


Hvítstofna birki með gulum haustlaufum þann 17. okt. Fjær er lauflaust birki með dekkri stofna.


Annað birki

Bókin Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju, var gefin út árið 2000 í tilefni 70 ára afmæli skógræktarfélagsins. Þar er að finna grein eftir Jón Dalman Árnason sem ber heitið Stofnun Skógræktarfélags Eyfirðinga og starfsemin til 1968. Eins og kunnugt er var Jón ein aðal driffjöðurin í skógræktarfélaginu í sinni tíð. Hefur í þessum pistli verið stuðst við þessa grein að hluta. Þar segir meðal annars að á árdögum félagsins hafi verið „safnað nokkru af birkifræi, einkum í Vaglaskógi, og sáð í þessa friðuðu reiti [Gilsárreitur ver einn af þeim] en árangurinn mun hafa verið takmarkaður.“ (bls. 53) Ekki er hægt að útiloka að eitthvað af því birki sem nú er í Garðsárreit eigi uppruna sinn í þessum sáningum félagsmanna en varla er það stór hluti, því árangurinn var „takmarkaður“.


Gráleitir birkistofna og lauflausar greinar þann 17. okt.


Sunnlenskt birki

Þegar farið var að planta trjám í Garðsárreit var ýmsum tegundum plantað. Þar á meðal var birki. Það birki á sér annan uppruna en að framan getur. Líklegast er að það eigi nær allt ættir að rekja til þess birkis sem vex í Bæjarstaðaskógi. Það birki er nokkuð frábrugðið öðru birki á Íslandi. Því hefur jafnvel verið haldið fram að það birki kunni að vera norskt að ætt og uppruna. „Birtar og óbirtar niðurstöður sýna fram á að birki úr Bæjarstaðarskógi er talsvert frábrugðið öðrum birkistofnum á Íslandi. Ennfremur benda þær til þess að Bæjarstaðarskógur hafi ekki myndast af landnámsbirki heldur hafi upphaflega verið ræktaður skógur.Kesara Anamthawat-Jónsson og Ægir Þór Þórsson. bls. 16.


Rétt er að halda því til haga að ekki eru allir vísindamenn sannfærðir um að þau Kesara og Ægir Þór hafi rétt fyrir sér en óþarfi er að fara í þá sauma í þessum pistli.


Eftir stendur að birkið er innbirðis nokkuð ólíkt innan Garðsárreits. Annars vegar er þar að finna birki sem sáð hefur sér sjálft frá kjarrleifunum í gilinu og hins vegar plantað birki. Hugsanlega má þarna einnig finna stöku tré sem uxu upp af fræi sem sáð var úr Vaglaskógi. Að auki eru þarna plöntur af annarri og jafnvel þriðju kynslóð og þá blandast allir þessir eiginleikar auðveldlega.


Fremur ung birkitré. Ljósir, gráir og dökkir stofnar. Sum tré enn með laufi þan 17. okt en önnur með öllu lauflaus.


Ólík tré

Birkið í Garðsárreit er nokkuð fjölbreytt. Hér verða þó nefnd tvö atriði sem eru áberandi ólík milli trjáa. Annars vegar barkarlitur og hins vegar haustlitir laufsins.

Barkarlitur er einkum tvenns konar. Annars vegar er nokkuð hvítur stofn og hins vegar mun grárri stofn. Inn á milli má einnig sjá mun dekkri stofna, einkum hjá yngri trjám eða vesælum. Með auknum aldri og þroska verða stofnarnir nær alltaf annað hvort nánast hvítir eða dökk gráir.


Það er mjög áberandi að sum trén fara mun fyrr í haustliti en önnur. Þegar þau, sem fara síðar í haustliti eru hin fyrri orðin nánast lauflaus. Forsíðumyndin sýnir þetta ágætlega. Hún er tekin við innganginn í reitinn. Annað tréð er laufgað og með hvítan stofn. Hitt er bert og með gráan stofn sem ber við lerkið.


Birki, sem ættað er úr Bæjarstaðarskógi, hefur oftast mjög ljósan eða hvítan stofn. Það er þó ekki alveg algilt. Sennilega er ljósi barkarliturinn frá því kominn. Staðarbirkið virðist frekar hafa þennan dökkgráa lit. Það er einnig þekkt, víða um norðanvert landið, að bæjarstaðabirkið stendur lengur grænt á haustin en staðarbirkið. Þetta má t.d. sjá við Leyningshóla og í Fnjóskadal. Líklega sést sama tilhneiging í birkinu sem nú er að vaxa upp í Krossanesborgum og sjálfsagt víðar.


Þrátt fyrir að þarna er eins og greina megi í sundur tvo stofna birkis er það svo að sum trén falla ekki alveg inn í þessa skilgreiningu. Það má alveg sjá hvítstofna birki sem fer snemma í haustliti og dökk grátt birki sem fer seint í haustliti. Það er þó mun sjaldgæfara en hitt. Má vera að þar séu blendingar beggja stofna á ferð.


Uppstokkun erfðaefnis? Fremst er hvítstofna birki með fáum laufum. fjær og til hægri á myndinni má sjá dökkgrátt, ungt birki með grænum laufum þann 17. okt. Næst þegar þú, lesandi góður, ferð í gönguferð um Garðsárreit getur þú velt því fyrir þér hvaða birki verður á vegi þínum og hvaðan það er ættað.


Myndirnar tók höfundur.

253 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page