top of page

Ályktun aðalfundar 2023

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga var haldinn í Kjarna, húsi Náttúrulækningafélags Akureyrar í Kjarnaskógi, mánudaginn 8. maí og voru á dagskrá hefðbundin aðalfundarstörf. Fundurinn hófst á fjarflutningi Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur, lýðheilsufræðings hjá Eflu, um mikilvægi náttúru í manngerðu samfélagi. Þar lagði hún sérstaka áherslu á jákvæð áhrif gróðurs á loftgæði og fjölbreytta örveruflóru, sem vakti fundargesti sannarlega til umhugsunar. Mikil loftgæði utanhúss gefa möguleika á miklum loftgæðum innanhúss sem eru mikilvæg heilsu okkar og vellíðan.


Formaður SE, Sigríður Hrefna Pálsdóttir, hélt opnunarræðu aðalfundarins og fór ítarlega yfir störf félagsins undanfarið ár en verkefnin hafa verið fjölbreytt sem áður. Í ræðunni minntist hún á undirritun nýs þjónustusamnings við Akureyrarbæ sem hefur það í för með sér að nú verður mun auðveldara að uppfylla þær skyldur sem samningurinn felur í sér. Þá var enn fremur kynntur styrktarsamningur við Eyjafjarðarsveit til tveggja ára og eingreiðslustyrkur Hörgársveitar til uppbyggingar í Laugalandsskógi. Sigríður Hrefna sagði við það tilefni: „Við erum mjög þakklát fyrir að búa í samfélagi sem sér hversu mikilvægir góðir útivistarskógar eru og hvað góðir útivistarskógar búa til mörg tækifæri fyrir alls konar hreyfingu og félagsskap.“


Þá sköpuðust töluverðar umræður um framkvæmdir í Vaðlareit, sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði og félagsfólk SE verið upplýst um. Í kjölfarið ályktaði fundurinn sem hér segir:


Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga haldinn þann 8. maí 2023 lýsir yfir fullu trausti á störfum stjórnar og framkvæmdastjóra hvað varðar framkvæmdir í Vaðlareit og hugsanlega samninga þar að lútandi. Fundurinn leggur áherslu á að hagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi hvað varðar aðgengi að skógarreitum félagsins hér eftir sem hingað til.


Fundurinn var afar góður og fundarfólk jákvætt gagnvart framtíð félagsins sem er í miklum vexti og því við hæfi að skála í sjóðheitu ketilkaffi.



134 views0 comments

Comments


bottom of page