top of page
Writer's pictureSigríður Hrefna Pálsdóttir

Skógræktarfélag Akraness 80 ára

Updated: Nov 21, 2023

Miðvikudaginn 18. nóvember 1942 var Skógræktarfélag Akraness stofnað. Félagið fagnar því 80 ára starfsafmæli í ár og er elsta skógaræktarfélagið sem fagnar stórafmæli í ár. Fyrr á árinu höfum við fjallað um þrjú félög sem öll fagna 70 ára afmæli í ár en það eru Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu, Skógræktarfélag Djúpavogs og Skógræktarfélag Selfoss. Hér verður stiklað á stóru í áttatíu ára sögu Skógræktarfélags Akraness.


Upphaf

Stofnfélagar Skógræktarfélags Akraness voru meðal annarra Arnljótur Guðmundsson bæjarstjóri, Svafa Þorleifsdóttir skólastjóri og Hálfdán Sveinsson kennari en á stofnfundinn mættu um 30 manns. Í dag eru félagar rúmlega 100 talsins.


Garðalundur 2020. Mynd af vef Akraneskaupstaðar.

Garðalundur

Lítið var um framkvæmdir á fyrstu árum félagsins enda erfitt að fá plöntur á stríðsárunum. Árið 1944 afhendir Akranesbær félaginu land innan við Garðatún sem í dag heitir Garðalundur en oft kallað skógræktin. Strax sama vor fór Hálfdán Sveinsson með hóp unglinga í reitinn og var bæði víði og birki plantað en aðrar tegundir voru enn ófáanlegar.


Garðalundur og upphaf félagsins (1942-1968) eru nátengd bænum þar sem fyrsti formaður var bæjarstjóri Akraness, áðurnefndur Arnljótur Guðmundsson (formaður árin 1942-1947), og annar formaður var garðyrkjustjóri Akraness, Guðmundur Jónsson (formaður árin 1947-1968). Guðmundur var ráðinn til bæjarins 1947 og gekk strax til liðs við félagið. Umsvifalaust hóf hann að skipuleggja Garðalund og gróðursetja í hann. Þar vann hann mikið og merkilegt starf oft við lítinn skilning ráðamanna bæjarins. Stundum sást til Guðmundar koma með nokkrar litlar plöntur á reiðhjólinu sínu á leið upp í Garðalund. Mikil vantrú var á þessum tíma á því að hægt væri að koma upp trjágróðir á þessum slóðum. Í dag ber Garðalundur vitni um hið góða starf og ávöxt þess. Árið 1997 var minnisvarði reistur í Garðalundi til heiðurs Guðmundar Jónssonar og hans einstaka brautryðjendastarf í þágu komandi kynslóða.


Minnisvarði um Guðmund Jónsson í Garðalundi. Listamaðurinn Páll Guðmundsson frá Húsafelli gerði minnisvarðann en þar má sjá mynd meitlaða í grjót af Guðmundi við ræktunarstörf. Mynd af vef Akraneskaupstaðar.

Sumum þótti staðarval fyrir lundinn óheppilegt vegna fjarlægðar frá bænum en í dag er hann eitt helsta útivistarsvæði bæjarbúa. Með uppgræðslu Garðalundar tókst að sannfæra marga um að skógrækt væri möguleg á Skaganum.


Í lundinum er fjölbreyttur gróður og margar trjátegundir. Mest áberandi eru hátt í 70 ára gömul grenitré sem skýla gestum fyrir vindi, en fyrstu grenitrén voru gróðursett 1953. Einnig er að finna fallegar tjarnir í Garðalundi. Þar er hægt að veiða síli og fylgjast með ýmsum fuglategundum og jafnvel skauta á ís á veturnar. Í dag er umsjá reitsins í höndum Akraneskaupstaðar.


Slaga við Akrafjall

Starf félagsins datt niður á sjöunda áratugnum en var endurreist árið 1980, á ári trésins, og hefur það starfað óslitið síðan. Árið 1981 fékk félagið 36 ha landsvæði upp við Akrafjall er nefnist Slaga. Nafnið er dregið af uppsprettum sem flæða undan fjallinu.


Starfið gekk brösulega fyrstu árin þar sem tvisvar var kveikt í svæðinu. Í fyrra skiptið brann næstum allt svæðið og þar með hvarf nánast öll ræktun félagsins í Slögu sem unnið hafði verið að fyrstu 7 árin. Girðing var fremur léleg í byrjun og skemmdi sauðfé töluvert fyrir félaginu þannig að ekki var hægt að koma til ösp.


Gróðursett í Slögu (1991-2000). Mynd af Facebook-síðu félagsins.

Þrátt fyrir bakslag annað slagið hafa félagsmenn og aðrir áhugamenn um skógrækt haldið ótrauðir áfram og gróðursett 10-20.000 plöntur árlega. Ýmsir hafa komið að gróðursetningu í sjálfboðavinnu í Slögu eins og Rótarýfélagar, skátarnir, Soroptimistar, Grétar Einarsson og félagar frá Reykjavík og vinnuhópur á vegum Skógræktarfélags Íslands.


Garðaflói

Árið 2002 var gerður samningur við sveitarfélagið um að Skógræktarfélagið tæki að sér að gera skjólbelti og planta trjám í svæði sunnan við innkeyrsluna í bæinn. Þar er búið að gróðursetja um 1000 metra langt skjólbelti og gróðursetja töluvert af grenitrjám, öspum, birki og fleiri trjátegundum.


Vinnuhópur á vegum Akraneskaupstaðar að störfum í Garðaflóa í júlí 2020. Mynd af Facebook-síðu félagsins.

Markmið fyrr og nú

Skógræktarfélagið einbeitir sér að því að sjá um og byggja upp skógræktar- og útivistarsvæði. Einnig með því að kynna starf félagsins í gegnum viðburði í skógarreitunum eins og með því að taka þátt í Líf í lundi (viðburður aðildarfélaga SÍ um allt land í lok júní ár hvert) í samvinnu við önnur félög eins og skátana og Norræna félagið.


Þátttaka í félagsstarfi hefur almennt minnkað og erfiðlega hefur gengið að virkja ungt fólk. Félagið leggur samt áherslu á að fjölga félagsmönnum og að reyna að virkja sem flesta þannig að fólk fái innsýn og skilning á skógrækt og mikilvægi hennar í uppgræðslu landsins.


Frá árinu 2013 er starfið þannig skipulagt að stjórnin skipuleggur vikulega vinnufundi á mánudögum á milli kl 17 og 19. Rólegra er yfir starfinu frá lok október og fram í apríl-maí þó unnið sé að ýmsu, grisjun, stígagerð, gróðursetningu o.fl. Það er aðallega stjórnin sem mætir en fyrirkomulagið skapar ákveðna festu í starfinu stóran hluta ársins. Auk þess er vinnufundir með ýmsum sjálfboðaliðum sérstaklega auglýstir.


Frá Líf í lundi 2022 þar sem samvinna skógaræktarfélagsins, skátanna og Norræna félagsins skilar sér í fjölbreyttum og skemmtilegum skógardegi. Mynd af Facebook-síðu félagsins.

Tekjustofnar og styrktaraðilar

Félagið fjármagnar starf sitt aðallega með styrk frá Akraneskaupstað en einnig hefur það sótt um og fengið rekstrarstyrk frá Umhverfisráðuneytinu. Aðrar tekjur eru árgjöld félagsmanna, jólatrjáasala félagsins (frá árinu 2014) en einnig stundum styrkir frá Landgræðslusjóði og aðrir tilfallandi styrkir. Félagið nýtur mikils velvilja og fær margt gefins sem er ekki síður mikilvægt en beinir styrkir.


Skógræktarfélagið nýtur velvildar fyrirtækja á svæðinu en Valdimar Guðmundsson sem rekur gámaþjónustuna á Grundartanga gaf félaginu miðjugáminn á dögunum. Þessir þrír gámar mynda skjól fyrir jólatrjáasölu félagsins í Slögu.

Ýmsir styrkja svo starf félagsins með sjálfboðavinnu. Stjórn félagsins leggur áherslu á að taka á móti öllum sem vilja aðstoða. Rótarýfélagar hafa verið öflugir í gegnum árin við uppgræðslu, grisjun og fleira. Skátarnir hafa gróðursett ásamt öðru. Soroptimistar hafa nýlega tekið að sér ákveðið svæði í skógræktinni sem þær ætla að sjá um en töluverður hluti Slögu er gróðursettur af ýmsum hópum, m.a. starfsfólki fyrirtækja, bæjarstarfsmönnum og bæjarfulltrúum og nemendum grunnskólans og áður fyrr af starfsfólki bankanna. Grétar Einarsson og félagar mæta svo frá Reykjavík í júní og taka til hendinni, listinn er ekki tæmandi.


Hópur grunnskólanemenda á ferð með kennurum í byrjun júní 2022. Mynd af Facebook-síðu félagsins.

Undanfarin sumur hefur einnig vinnuhópur á vegum Skógræktarfélags Íslands komið og unnið í skógarreitum félagsins, viku í senn.


Vinnuhópur erlendra sjálfboðaliða á vegum Skógræktarfélags Ísland. Annar frá vinstri er Narfi Hjartarson skógfræðingur og starfsmaður SÍ.

Afmæliskveðja

Skógræktarfélag Eyfirðinga óskar félögum í Skógræktarfélagi Akraness innilega til hamingju með stórafmælið. Megi afmælisárið verða gæfuríkt og gjöfult. Við sendum ykkur okkar bestu skógræktarafmæliskveðjur!


Hibb-hibb - Húrra, húrra, húrra!


Við hvetjum auðvitað alla á Akranesi og nágrenni til að ganga í félagið eða styrkja það á annan hátt á stórafmælisárinu. Hægt er að senda þeim kveðju á Facebook-síðu þeirra í tilefni dagsins. Slaga er útivistarskógur sem gaman er að heimsækja og Garðalundur perla í bæjarlandi Akraness.


Höfundur þakkar sérstaklega Jens Baldurssyni, formanni Skógræktarfélags Akraness, fyrir liðlegheit við öflun heimilda fyrir þennan pistil. Læt ég lokaorð þessa pistils vera orð Jens:


“Gamall maður sem ég hitti í Slögu sagði mér að sem ungur maður hefði hann oft gengið á Slögusvæðinu og lenti einu sinni í svo miklu roki að hann þurfti að skríða. Núna gæti hann gengið á sama svæði í roki án þess að finna mikið fyrir því. Hann sagðist enga trú hafa haft á að skógrækt gengi þarna þegar byrjað var að gróðursetja um 1980 - 2000. - Þetta er dæmi um eitt sem við gleymum allt of oft að hamra á: skógrækt veitir skjól og dregur úr vindi og hreinlega breytir veðurfari til hins betra.”


Heimildir

Daníel Ágústínusson. (1988, 8. júní). Minning: Guðmundur Jónsson, Akranesi. Morgunblaðið. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/15526/


Morgunblaðið. (1997, 13. nóvember). Minnisvarði um frumkvöðul í skógrækt. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/365614/


Skógræktarfélag Akraness. (á.á). Slaga í Akrafjalli. https://www.skogak.com/slaga-i-akrafjalli


Stefán Teitsson. (2005). Skógræktarfélag Akraness 60 ára. Skógræktarritið, 2005 (1), bls. 70-74.



164 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page