top of page

80 ára! Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga

Sunnudaginn 14. maí 1944 var Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga stofnað á fundi á Blönduósi. Félagið fagnar því 80 ára afmæli í dag og verður stiklað á stóru í sögu félagsins í þessum pistli. Páll Ingþór Kristinsson formaður afmælisfélagsins á bestu þakkir skildar fyrir stóran hluta texta og allar ljósmyndirnar.


Félagið hefur umsjón með víðfeðmu skóglendi og ber þá helst að nefna Gunnfríðarstaðaskóg, skóg í Vatnahverfi norðan Blönduóss, skóg á Fjósum og Hrútey í Blöndu.


Upphafið

Á stofnfundinn kom Hákon Bjarnason og sýndi myndina Þú ert móðir jörð fyrir fullu húsi. Hákon var á þessum árum allt í öllu er viðkom skógrækt. Hann var bæði skógræktarstjóri og framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Íslands. Samþykkt voru lög félagsins á fundinum og í fyrstu stjórn voru kosnir Ágúst B. Jónsson Hofi, Þorbjörn Björnsson Geitaskarði, Steingrímur Davíðson Blönduósi, Gunnar Árnason Æsustöðum og Jón Pálmason Þingeyrum. Í félagið gengu 65 einstaklingar og þar af 33 ævifélagar.


Samþykkt var á fundi ári seinna að koma upp almenningsskógargörðum í sem flestum hreppum héraðsins (hrepparnir voru 10 á þessum tíma) og einnig var hafinn undirbúningur að stofnun héraðsgarðs. Talað er um 18 reiti sem að félagið kom að á einhvern máta en þó eru líkur á að reitirnir hafi verið milli 20 og 30. Reitirnir voru meðal annars í eigu hreppa, ungmennafélaga og einstaklinga. Þá var plantað trjám heima við marga bæi að auki.


Tilgangur félagsins hefur verið frá upphafi að efla skógrækt og trjárækt í sýslunni og veita aðstoð við að koma upp skógarreitum sem víðast. Þá hefur félagið styrkt áhugafólk við að koma upp girðingum fyrir skógrækt. Einnig var félagsmönnum lengi vel útvegaðar trjáplöntur á um 20% lægra verði en almenningi bauðst.


Gróðrarstöðin í Laugabrekku við Varmahlíð hafði mikla þýðingu fyrir skógrækt í Austur-Húnavatnssýslu fyrstu áratugina. Sigurður Jónasson, skógarvörður hjá Skógrækt ríkisins var með gróðrarstöðina og aðstoðaði marga við fyrstu skrefin í trjá- og skógrækt en síðan tók Marta Svavarsdóttir við keflinu.


Ýmsir reitir á félagssvæðinu eru þekktir í dag og má þar nefna: Ólafslund við Sveinsstaði, Gróureit í landi Hofs í Vatnsdal, reit í landi Brekku í Þingi og Botnastaðamó við Húnaver.


Móberg í Langadal. Einn af mörgum skógarreitum við bændabýli. Ljósmynd Páll Ingþór Kristinsson (PIK)

Verkefni félagsins voru margskonar fyrstu árin. Eitt þeirra var að veita styrk til að koma upp dragferju út í Hrútey árið 1950. Ársriti Skógræktarfélags Íslands var dreift, Landgræðslumerki voru seld og árið 1951 fengu sex deildir styrk frá félaginu. Noregsferðir komu til afgreiðslu hjá stjórninni árið 1952 og árið 1958 var hvatt til aukinnar skógræktar og eftirlits með þeim skógræktargirðingum sem komnar voru.


Árið 1988 stofnuðu íbúar á Skagaströnd sitt eigið skógræktarfélag undir forystu Jóns Jónssonar og hefur því farnast vel í sínu ræktunarstarfi.


Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga hefur verið öflugt við að útvega félagsmönnum og öðrum íbúum trjáplöntur af ýmsum tegundum. Einnig margar tegundir af garðplöntum (1984 samkv reikningum). Má þar nefna plöntur eins og birkikvist, perlukvist, gljámispill, sólber og fleira. Þannig hefur félagið unnið gott starf við að auka og bæta garðrækt í héraði.


Þrisvar hefur skógræktarfélagið verið gestgjafi fyrir aðalfund Skógræktarfélag Íslands. Árin 1965, 1985 og síðast 2012. Þá hafa gestir notið útiveru í húnvetnskum skógum sem eru orðnir hluti af menningu íbúanna.


Árið 2005 var haldið upp á 60 ára afmæli félagsins með rútuferð í nokkra skógarreiti og kaffiboði í Húnaveri. Margir eldri félagar gátu séð ávöxt verka sinna og fagnað í lok dags.


Árið 2014 varð félagið 70 ára og fékk viðurkenningu frá Blönduósbæ fyrir ræktun og umhirðu í Hrútey.


Nálarteppi í sveppalandi. Ljósmynd PIK

Skógar félagsins

Skógar í umsjón Skógræktarfélags Austur-Húnvetninga eru í Vatnahverfi norðan Blönduós en þar er Landgræðsluskógur sem fyrst var plantað til árið 1990. Síðan komu fleiri Landgræðsluskógar eins og á Gunnfríðarstöðum árið 2000, Fjósum árið 2010 og viðbótarsamningar þar á eftir eins og í Vatnahverfi.


Gunnfríðarstaðir að gjöf - þáttaskil

Þáttaskil urðu haustið 1961 þegar félaginu var gefin jörðin Gunnfríðarstaðir á Bakásum af þeim hjónum Helgu Jónsdóttur og Steingrími Davíðssyni. Gjöfin var í minningu foreldra Helgu, þeirra Jóns Hróbjartssonar og Önnu Einarsdóttur. Mikil framsýni og velvilji fylgdi með gjöfinni. Strax um haustið voru girtir af 18 ha lands og gróðursetning hófst sumarið 1962.


Í Gunnfríðarstaðaskógi eru um 355 þúsund gróðursett tré og að auki nokkur sjálfsáning á gróðurlitlum svæðum. Einnig er mikið um víði sem hefur sprottið upp við friðun landsins. Um 90 tegundir af trjám eru í landinu en fá eintök af sumum. Mest er af birki, lerki og stafafuru en alaskaasparreitir eru einnig áberandi. Mikið þurfti að girða og planta á Gunnfríðarstöðum fyrstu árin og til þess þurfti ýmis verkfæri eins og áhaldareikningur félagsins frá 1966 sýnir: 2 hamrar, 2 naglbítar, 11 bjúgskóflur, spaði, gróðursetningar-spaði, 5 hakar og 14 pokar, bakdæla og 2 blikkfötur.


Skógarbotn í alaskaasparskógi. Ljósmynd PIK

Félagið hefur haft nægt land til plöntunar síðustu áratugina. Á Gunnfríðarstöðum á Bakásum eru um 150 ha undir skógrækt og búið að planta í stóran hluta af því landi. Neðan varnarlínu eru afkomendur þeirra Helgu og Steingríms með skógrækt og mikil sjálfsáning er á áreyrum Blöndu. Samtals eru þessi svæði um 40 ha að stærð.


Páll Ingþór formaður félagsins grisjar á Gunnfríðarstöðum. Ljósmynd Kristinn Brynjar Pálsson

Fjósar

Á Fjósum í Svartárdal eru aðrir 150 ha undir skógrækt. Þar á eftir að planta í töluvert af landi sem er í 300-350 m hæð yfir sjó. Gróðursetning hófst á Fjósum árið 1985 en eitthvað var búið að setja niður fyrr sem óx ekki úr grasi. Skógræktarfélagið hefur umsjón með jörðinni síðan árið 2009 fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarsjóðs Húnavatnssýslu.


Fjósar í Svartárdal. Séð heim á bæjarhólinn. Ljósmynd PIK

Í Vatnahverfi

Í Vatnahverfi er skógrækt á 90-100 ha á fjölbreyttu landslagi með bollum, tjörnum og lækjum. Skógarnir ramma inn golfvöllinn sem þekur um 25 ha lands. Eftir er að gróðursetja í nokkuð af þessu landi. Landeigandinn í Vatnahverfi er Húnabyggð.


Haldið upp á Landgræðsluskógaafmæli í Vatnahverfi. Tuttugu birkitré gróðursett. Frá vinstri: Jóhanna Jónasdóttir, Guðrún Á. Jónsdóttir og Ari Einarsson. Ljósmynd PIK

Hrútey

Hrútey er í eigu Húnabyggðar en eyjan er í miðri Blöndu ofan Blönduóss. Félagið hefur komið að mörgum verkefnum í eyjunni en þar hófst skógrækt árið 1942. Hrútey var gerð að Opnum skógi árið 2003 eftir töluverðar framkvæmdir í og við eyjuna. Félagið hefur staðið fyrir merkingum á trjágróðri og betri aðstöðu fyrir dvalargesti. Eyjan er „skrautfjöður í hatti Blönduóss“, vinsæl til útivistar og margur ferðamaðurinn heimsækir hana.


Hrútey er um 10 ha að stærð en þar er aðeins plantað stökum trjám til að gera skóginn fjölbreyttari. Gera má ráð fyrri að Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga hafi á einhvern máta komið að gróðursetningu til skógar á meira en 1 milljón trjáplantna í sínu landi, umsjónarsvæðum og öðrum smærri skógarreitum. Út frá reitunum hefur orðið mikil sjálfsáning eins og á áreyrum Blöndu.


Hrútey. Opinn skógur árið 2003.

Félagsstarf

Í dag eru félagsmenn um 40 og er meðalaldur orðinn nokkuð hár. Sumir félagar eru búsettir utan héraðs. Virkir félagar eru mun færri en það er góður hópur sem kemur til starfa í ýmis verkefni. Einnig leggur fólk, sem ekki er í félaginu, hönd á plóg þegar á þarf að halda.


Ýmis félagsstörf hafa verið á dagskrá undanfarin ár og má þar nefna Líf í lundi sem hefur farið fram Gunnfríðarstaðaskógi og einnig sala á jólatrjám á sama stað á aðventunni. Þá hefur verið tekið á móti nemendum úr grunnskólunum og þau frædd um skógana en einnig hafa nemendur Húnaskóla (hét áður Grunnskólinn á Blönduósi og Blönduskóli) tekið að sér gróðursetningu á svæðum félagsins. Nokkuð er tekið á móti öðrum gestum í skógunum þegar haldnar eru Jónsmessugöngur og aðrar uppákomur.


Helstu verkefni á síðustu árum hafa verið gróðursetning á Gunnfríðarstöðum, Fjósum og Vatnahverfi. Einnig þátttaka í Yrkjuverkefninu með grunnskólunum við Blönduós og lítisháttar á Húnavöllum. Töluvert er unnið við grisjun skóga eins og á Gunnfríðarstöðum og á Fjósum. Lagðir eru stígar og vegslóðar til að bæta aðkomu gesta í skógana.


Haldið upp á 20 ára afmæli Yrkjuverkefnisins hjá Blönuskóla í Vetrarklauf.

Gróðursettar voru um 12 þúsund plöntur hjá félaginu árið 2023 en um 18 þúsund ári áður. Að verkefninu komu verktakar úr héraði, aðrir landsmenn og gestir frá Frakklandi. Formaður tók þátt í og hafði umsjón með gróðursetningu eins og mörg undanfarandi ár.


Eitthvað er grisjað og snyrt í skógarreitunum á hverju ári. Árið 2023 var grisjað á Gunnfríðarstöðum og þá mikið í birkireit sem á að nota sem skerm fyrir jólatré framtíðarinnar. Einnig var grisjað í blandreit frá 1973 sem er hluti af athafnasvæði félagsins í jólatrjáasölu. Tæpur hektari var grisjaður í heildina á Gunnfríðarstöðum en aðeins meðfram vegslóða á Fjósum.


Tekjustofnar og styrktaraðilar

Tekjur hefur félagið af sölu jólatrjáa og einnig af seldum torgtrjám til Húnabyggðar og Skagastrandar. Félagið fær nokkurn veiðiarð af Svartá, sem rennur í gegnum land Fjósa og peninga úr Skógræktarsjóði Húnavatnssýslu. Helsti styrktaraðilinn er Landgræðslusjóður en Húnabyggð hefur einnig aðstoðað félagið.


Torgtré úr Gunnfríðarstaðaskógi. Ljósmynd: PIK

Markmið fyrr og nú

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga hefur stuðlað að skógrækt og garðrækt á sínu félagssvæði síðustu 80 árin. Áherslur hafa verið misjafnar á hverjum tíma en félagið er staðsett í stóru landbúnaðarhéraði þar sem er mikil sauðfjárrækt og annar hefðbundinn landbúnaður. Það er blómstrandi veiðihérað, jafnt í ám, vötnum sem á landi og þjónusta við heimafólk og ferðafólk hefur vaxið mikið síðustu árin.


Þegar félagið eignaðist jörðina Gunnfríðarstaði haustið 1961 urðu miklar breytingar. Þá fór starfsemin að snúast um plöntun á trjám í meira magni en áður var. Upp kom skógur og önnur verkefni kölluðu á aðra hugsun og áherslur. Stíga- og slóðagerð til að opna skóginn fyrir almenningi og auðvelda aðkomu við grisjun. Fræðsla til ungmenna á félagssvæðinu hefur verið eitt af verkefnum sem félagið er stolt af.


Skógurinn á Gunnfríðarstöðum er hluti af stærsta skógræktarsvæði Skógræktarfélags Austur-Húnavetninga og verða tæpir 700 ha á næstu árum. Með dugnaði og framsýni margra einstaklinga hefur félagið plantað til skóga víða í héraðinu og lengi verið fyrirmynd annarra sem stundað hafa skógrækt. Félagið hefur ekki síður stuðlað að þeirri hugarfarsbreytingu sem hefur orðið í garð skógræktar og opnað augu margra fyrir þeim möguleikum sem hún býður upp á á félagssvæðinu.


Eitt af hlutverkum skógræktarfélagsins er að upplýsa almenning og sveitarstjórnarfólk á hverjum tíma. Félagið stendur í stafni við aukna skógrækt í héraði. Það vill auka og gera gróður fjölbreyttari og meiri sem nýtist öllu lífríkinu. Útvega þarf meiri fjármuni sem er forsenda þess að hægt sé að grisja meira í skógum félagsins og öðrum skógarreitum. Félagið stefnir að betri opnun skóganna til fræðslu og skemmtunar fyrir almenning. Það gerir samfélagið betra og sterkara.


Afmæliskveðja

Skógræktarfélag Eyfirðinga óskar stjórnarfólki, félögum og velunnurum Skógræktarfélags Austur-Húnvetninga innilega til hamingju með stórafmælið. Megi afmælisárið verða farsælt og gróskumikið.


Við sendum Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga okkar bestu skógræktarafmæliskveðjur!


Hibb-hibb - Húrra, húrra, húrra!


Að lokum hvetjum við auðvitað alla Austur-Húnvetninga og nágranna til að ganga í félagið eða styrkja það á annan hátt á stórafmælisárinu.


Haldið upp á afmæli félagsins í skóginum við Húnaver. Ljósmynd Guðrún Kristófersdóttir




Comments


bottom of page