top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Hringrásirnar í skóginum

Updated: Jun 8, 2023

Skógur samanstendur af fjölda lífvera. #TrévikunnarSE Trén sjálf eru stærstu lífverurnar en auk þeirra finnst í skóginum fjöldinn allur af öðrum plöntum, sveppum, mosum, dýrum (bæði stórum og smáum) ásamt ýmiskonar efnum, bæði lífrænum og ólífrænum. Allir þessir þættir eru tengdir á einn eða annan hátt í gegnum ýmsar hringrásir sem eiga sér stað í skóginum. Röskun á jafnvægi þessara hringrása getur haft alvarlegar afleiðingar og valdið ýmsum breytingum innan vistkerfisins. Hér verður stuttlega fjallað um tvær hringrásir mikilvægra efna í skóginum en það eru kolefnis- og vatnshringrásin.


Kolefni er frumefni sem ferðast bæði „inn og út úr“ skóginum eftir nokkrum leiðum. Í gegnum ljóstillífunarferli trjáa (og annarra plantna í skóginum) verður eiginleg kolefnisbinding, þ.e. koltvísýringur er fangaður úr andrúmslofti af laufblöðum trjánna og þar umbreytt yfir í mikilvægar sykrur sem nýtist trénu sjálfu til vaxtar og viðhalds (grænar örvar á mynd). Hraði og geta þessa kolefnisbindingarferlis ræðst af ýmsum þáttum í skóginum s.s. aldri hans, samsetningu (trjátegundum), jarðvegsgerð, veðurfari o.fl. Hér á norðlægum slóðum á þessi binding sér stað yfir vaxtartímann meðan orku frá sólu gætir og aðrir þættir eins og aðgengi að vatni og næringarefnum úr jarðvegi eru fullnægjandi. Kolefni losnar svo frá skóginum á tvo vegu, annars vegar í gegnum bruna sem fer fram við öndun hverrar einustu frumu í sjálfu trénu (rauðar örvar á mynd) og hins vegar við niðurbrot (bláar örvar á mynd) á lífrænum leifum í skóginum þar sem næringarefni eru brotin niður og þeim skilað til baka í jarðveg og andrúmsloft. Jafnvægið á milli þessara tveggja þátta; bindingar (ljóstillífunar) og losunar (öndunar og niðurbrots) segir svo til um ástand skógarins og getu hans til vaxtar. Ungur skógur í örum vexti bindur mun meira en hann losar en eftir því sem skógurinn eldist hægir yfirleitt á vexti hans.



Önnur mikilvæg hringrás sem á sér stað í skóginum er vatnshringrásin en aðgengi að vatni er forsenda þess að ljóstillífunarferlið geti átt sér stað. Vatnshringrásin í skóginum stjórnast af þremur meginferlum. Vatn kemur inn í skóginn í formi úrkomu en yfirgefur hann ýmist sem raungufun eða sem rennsli niður í grunnvatn. Raungufun er samheiti yfir þrjár leiðir; uppgufun sem er mælikvarði á það magn vatns sem gufar upp af yfirborði skógarins, afgufun sem er það magn vatns sem sest á lauf/barr og gufar svo upp og loks útgufun sem er það magn vatns sem trén taka upp í gegnum rætur og gufar síðan út um laufblöð. Það er magn laufs/barrs sem ræður mestu um hvernig vatnshringrásin er í skóginum. Eftir því sem skógurinn eldist eykst útgufunin (þ.e trén draga til sín meira vatn) en uppgufun frá skógarbotni minnkar vegna skuggaáhrifa. Hér á Íslandi hafa rannsóknir sýnt að í fullvöxnum skógi getur útgufun verið allt að 70% af heildarúrkomunni sem berst inn í vistkerfið.




Ef skógur á að vaxa og dafna er afar mikilvægt að allar þær fjölmörgu hringrásir sem eiga sér stað innan hans, séu í jafnvægi. Með réttri umhirðu og virðingu fyrir öllum lífverunum sem mynda skóginn er hægt að tryggja heilbrigt skógarvistkerfi.



59 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page