Þegar þetta er skrifað er vorhret á glugga, napur vindur sem hvín. Samt sem áður eru tré og runnar smám saman að taka við sér og bíða spennt eftir betri tíð með blóm í haga. Má jafnvel segja að ýmsir runnar séu þær stjörnur sem skína í maíhretinu. Meðal þeirra runna sem nú eru óðum að klæðast grænum sumarskrúða eru tvær náskyldar rifstegundir. Kirtilrifs (Ribes glandulosum) og hélurifs (Ribes laxiflorum). Þar sem þessar rifstegundir eru mjög áberandi núna veljum við þær sem tré vikunnar. Þetta eru þó frekar runnar en tré en við látum ekki smáatriðin trufla okkur.
Nýfallinn snjór á allaufguðu hélurifsi í vor sem er rétt að byrja að blómstra. Mynd: Sig.A.
Haustsólin skín í gegnum rautt lauf á sömu plöntu og er hér að ofan. Mynd: Sig.A.
Lýsing
Báðar tegundirnar eru lágvaxnir, lauffellandi runnar sem laufgast snemma á vorin. Greinarnar skríða áfram og skjóta rótum þar sem það er hægt. Þannig geta tegundirnar bætt smám saman við veldi sitt. Þær mynda með tímanum þykka greinarmottu og verða um 40-50 cm á hæð. Þær geta teygt sig upp eftir trjástofnum og grjóti og náð þannig jafnvel enn meiri hæð. Að auki bera báðar tegundir æt ber og fá eldrauða haustliti. Haustlitirnir eru meira áberandi ef plönturnar eru á fremur þurrum stað. Af báðum tegundum eru nokkur yrki í ræktun sem hver um sig hefur sitt nafn. Þau eru með misjafnlega stór laufblöð, laufgast ekki á sama tíma og svo framvegis. Ekkert verður farið í þau efni að þessu sinni en bent á að það er ekki endilega auðvelt að bera saman hversu fínlegar eða grófar plönturnar eru til að greina til tegunda. Það er frekar munur á yrkjum en tegundum. Þó er það svo að oftast er kirtilrifsið heldur fínlegra en hélurifsið.
Hélurifs fær rauða haustliti. Einkum á þurrum stöðum. Mynd: Sig.A.
Hvað greinir þær að?
Þrátt fyrir að tegundirnar séu vissulega líkar eru ákveðin atriði sem skilja þær að og hægt er að nota til að greina tegundirnar að. Einkum eru það tvö eða þrjú atriði sem vænlegt er að skoða. Eitt þeirra er einmitt áberandi núna. Það er litur blómanna. Annað atriðið er litur berjanna, en berin sjáum við síðsumars.
Blómguð grein af kirtilrifsi liggur á gráum steini. Mynd: Sig.A.
Blómin á báðum tegundum eru farin að sjást víða um bæinn en sum yrki hafa ekki enn opnað þau. Kirtilrifs hefur oftast grængul blóm, stundum dálítið út í bleikt. Hélurifsið hefur rauðbleik blóm. Engin ástæða er til að rugla þessum litum saman nema fyrir þá sem haldnir eru rauð/grænni litblindu. Reyndar er það algengasta litblindan. Þeir sem haldnir eru henni verða víst að bíða eftir berjunum.
Blóm hélurifs eru bleik eða bleikrauð. Myndirnar teknar í vor af: Sig.A.
Upp úr miðju sumri fara báðar tegundir að þroska ber. Þau þroskast ekki öll á sama tíma heldur smám saman. Því er hægt að tína þau lengi til matar, ef menn vilja. Báðar tegundir bragðast ágætlega og henta í sultur. Fuglar og börn eru sólgin í þau.
Hélurifs að hausti. Sjá má blásvört berin sem eru eins og héluð. Mynd: Sig.A.
Ber kirtilrifs eru rauð og kirtilhærð. Af því dregur plantan nafn sitt. Ber hélurifs eru svarblá og fá hvítleita vaxhúð. Líta þau þá út eins og þau séu héluð utan. Af því dregur plantan nafn sitt.
Snemmsprotnir vorlaukar geta farið vel með hélurifsi. Þegar þeir ljúka sér af þekur laufið á rifsinu beðið. Mynd: Sig.A.
Þriðja atriðið vefst stundum fyrir fólki og er varhugavert að treysta. Lyktin af laufi tegundanna er ekki sú sama. Lyktin af laufi kirtilrifs er í ætt við lyktina af laufum sólberja en lauf hélurifsins lykta minna. Sá sem þetta ritar hefur ekki lært að treysta á þetta greiningaratriði.
Kirtilrifs þarf ekki mikið til að þrífast. Mynd: Sig.A.
Blendingar
Þrátt fyrir að grasafræðingar fullyrði að þetta séu tvær, aðgreindar tegundir geta þær auðveldlega blandast saman. Þegar fræjum berjanna er sáð geta því komið upp allskonar blendingar. Blómlitur er ýmist rauðbleikur eða gulgrænn og berin annað hvort rauð eða blásvört. Slíkir blendingar eru ekki endilega eftirsóttir af landslagsarkitektum sem vilja vita nákvæmlega hvað þeir eru með í höndunum en geta hentað prýðilega í hálfvillt sumarbústaðalönd og annars staðar þar sem fjölbreytileiki er talinn æskilegur.
Kuldalegt hélurifs vorið 2022. Mynd: Sig.A.
Óvíða eru slíkir blendingar til sölu en þó er það svo að þeir fást hjá nágrönnum okkar í Sólskógum. Þar var sáð berjum af yrki hélurifs sem kallast ´Rökkva´ en til urðu fjölbreyttir blendingar. Ekki er að efa að faðernið er eitthvert kirtilrifs. Rétt er þó að halda því til haga að nágrannar okkar eiga líka hreint hélurifs og kirtilrifs sem fjölgað er með græðlingum.
Mynd úr aldingarðinum í Kristnesi. Hindber og amall í bakgrunni ásamt lerki. Þarna vex grasið í samkeppni við hélurifsið. Mynd: Helgi Þórsson.
Fjölgun
Auðvelt er að fjölga báðum þessum rifstegundum. Stilkarnir skjóta rótum hvar sem þeir snerta jörðina. Kallast það sveiggræðsla og má nota til að fjölga öllum rifstegundum.
Þessi grein er farin að skjóta út rótaröngum. Mynd: Sig.A.
Einnig má fjölga þessum tegundum með græðlingum og sáningu. Eins og að framan greinir er þó ekki á vísan að róa þegar fræ er tekið af íslenskum plöntum, því faðernið getur þá komið á óvart. Þess vegna er algengast að fjölga tegundunum með græðlingum. Oftast eru þá notaðir svokallaðir sumargræðlingar.
Þetta kirtilrifs er sjálfsagt að velta því fyrir sér hvort það hefði ef til vill átt að fresta því aðeins að vaxa. Það þrjóskast við að laufgast að fullu. Mynd: Sig.A.
Þekjuplöntur
Báðar þessar tegundir eru prýðilegar þekjuplöntur enda oft notaðar þannig. Um þekjuplöntur gildir að mikilvægt er að rétt planta sé á réttum stað.
Þegar talað er um þekjuplöntur er ýmist átt við runna eða fjölæringa sem þekja jarðveginn vel. Það heldur raka betur í jörðinni og dregur úr líkum á að illgresi nái að skjóta rótum. Þannig geta þekjuplöntur auðveldað alla umhirðu í görðum og trjáræktarreitum.
Allaufgað og blómstrandi hélurifs í Lystagilinu nú í vor. Mynd: Sig.A.
Sama planta og hér að ofan. Hér teygir hún blómgaðar greinar yfir bleikar gangstéttarhellur. Mynd: Sig.A.
Misjafnt er hversu þétta mottu þekjuplöntur mynda. Eftir því sem mottan er þykkari, þeim mun erfiðara er fyrir aðrar plöntur að nema þar land. Aftur á móti eru slíkar þekjuplöntur ekkert sérstaklega fínlegar og verður því að velja réttar þekjuplöntur á réttan stað. Ef ætlunin er að nota þekjuplöntur til að þekja jarðveg á milli fínlegra blómplantna eru bæði hélu- og kirtilrifs alveg afleitar. Þær munu kæfa þær hratt og örugglega. Ef hugmyndin er að þekja stærra svæði, vaxa yfir hleðslur eða grjót, þekja mold undir hávöxnum runnum eða trjám, þá eru grófar plöntur eins og þessar rifstegundir alveg prýðilegar.
Í garði í Síðuhverfi er stórt beð með hélurifsi, væntanlega ræktað til berjatöku. Þótt það sé orðið algrænt lætur það ekki smá snjó trufla sig. Mynd: Sig.A.
Annað, sem skiptir máli með hversu vel þekjuplöntur sinna hlutverki sínu er laufmassinn. Þar hafa báðar þessar tegundir kosti. Bæði er að laufmassinn er mikill og hleypir litlu ljósi niður í moldina og hitt að þær laufgast svo snemma. Þekjuplöntur sem laufgast seint bjóða hættunni heim með að illgresisfræ nái að spíra snemma vors þegar sólin skín niður á milli greinanna og nær að yljar áður en laufþekjan lokast.
Undir laufinu má sjá þykka greinamottu. Erfitt getur verið fyrir aðrar plöntur að vaxa upp úr svona þykkni. Mynd: Sig.A.
Rétt er að taka það fram að þótt þekjuplöntur geti vissulega dregið úr þeim tíma sem fer í hreinsun illgresis eða amagróðurs þá geta þær aldrei komið alveg í veg fyrir að aðrar plöntur berist inn á yfirráðasvæði þeirra. Margar grastegundir geta sem best sent rótarskot sín inn í miðja breiðu nánast hvaða þekjuplöntu sem er og birst þar eins og ekkert sé sjálfsagðara. Í tilfelli þessara rifstegunda er þetta algengast þegar plönturnar eru enn ungar og greinaflækjan ekki orðin áberandi þykk.
Svona haga þekjuplöntur sér! Smám saman þekur rifsið sandinn. Mynd: Sig.A.
Hvaðan koma þær?
Útbreiðslusvæði þessara tegunda er ekki alveg það sama en útbreiðslan skarast engu að síður.
Hér vex greni í brattri brekku og hélurifsið teygir sig upp á milli greinanna. Mynd: Sig.A.
Hélurifsið vex í vesturhluta Norður-Ameríku. Allt frá Alaska og suður til Kaliforníu. Oft er það að finna í fjallendi, einkum er sunnar dregur. Sagt er að tegundin finnist einnig austast í Síberíu.
Haustmynd af blönduðu beðir runna og trjáa. Hélurifsið sker sig úr og dregur úr illgresisvandamáli. Mynd: Sig.A.
Kirtilrifsið er norðlægari tegund. Það vex um nær allt Kanada og teygir sig á nokkrum stöðum suður yfir landamærin til Bandaríkjanna. Báðar vaxa tegundirnar í Alaska og í vestustu fylkjum Kanada.
Steypt ker við Ráðhústorgið á Akureyri. Snemmsprottinn lauf lífga upp á umhverfið og í haust munum við sjá rauð lauf. Mynd: Sig.A.
Hvar eru þær?
Nú er veðurspáin þannig að ætla má að sumarið komi með stæl á næstu dögum. Þangað til getum við glaðst yfir vorgróðrinum. Þar skipa þessar rifstegundir stóran sess á Akureyri. Tegundin er hér og þar í görðum en mætti nota enn meira. Upplagt er að skoða þær í nýlegum beðum við Drottningabraut þar sem þeim er greinilega ætlað að draga úr þörf á umhirðu á komandi árum.
Ungar og allaufgaðar plöntur í slyddunni við Drottningabraut. Fátt annað farið á stað. Þarna er rifsinu meðal annars ætlað að þekja jarðveginn vel til að draga úr þörf á umhirðu. Mynd: Sig.A.
Í lystagilinu má sjá hélurifs í beðum sem nú eru mjög áberandi og einnig á nokkrum umferðareyjum, svo sem þeirri sem er næst Bónus við Kjarnagötu.
Hörð barátta, upp á líf og dauða, á umferðareyju. Mynd: Sig.A.
Ungar plöntur má sjá í sumum kerjur við göngugötuna og að sjálfsögðu eru báðar tegundir í Lystigarðinum. Að auki má sjá þessar tegundir í görðum bæjarbúa. Meðal annars eru þær báðar mjög áberandi í stóru beði við Skarðshlíð, rétt hjá verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð. Þar sem auðvelt er að skoða þær.
Breiða af hélurifsi í Lystigarðinum. Takið eftir hvernig greinarnar vaxa upp eftir lerkistofnunum efst á myndinni. Mynd: Sig.A.
Hvorug tegundin er algeng í útivistarskógum þótt þær báðar gætu vissulega aukið fjölbreytni þeirra. Enn hefur þeim hvergi verið plantað í skógarreiti í umsjá Skógræktarfélagsins en á því kann að verða breyting.
Vel getur farið á að láta jarðlægar rifsplöntur flæða yfir grjót eins og í þessu beði við Skarðshlíð. Myndir: Sig.A.
Þegar við förum út að skoða gróður á vorin getum við glaðst yfir því hversu fallegar þessar rifsplöntur eru snemma á vorin og hversu glæsilegar þær eru á haustin. Báðar eiga þær skilið að þeim sé sómi sýndur.
Fjölbreyttir rauðir haustlitir. Mynd: Sig.A.
Opmerkingen