top of page

Þyrniættkvíslin

Tré eru til af öllum stærðum og gerðum. Sum vaxa hratt, önnur hægar, sum verða stór, önnur lægri. Mismunandi aðstæður kalla á mismunandi gróður. Ef plássið er ekki of mikið er heppilegt að nota tré sem vaxa fremur hægt. Svo getur verið gaman að fá sér tré sem er fallegt lungann úr árinu. Til dæmis tré sem blómstra á vorin, eru fallega græn á sumrin og fá flotta haustliti. Það getur líka vakið gleði að fá sér tré sem laðar að fugla, til dæmis með því að framleiða ber og veita gott skjól fyrir hreiðurgerð. Sumir, sumar og sum vilja fá tré sem þola klippingu vel og aðrir, aðrar og annað vilja tré sem þrífst vel þótt jarðvegurinn sé ekki mjög frjór og jafnvel dálítið þurr. Svo eru þeir, þær og þau sem vilja helst fá sér tré sem eru einstök og sjást ekki víða eða tré sem verða langlíf og gleðja margar kynslóðir. Heil ættkvísl trjáa pikkar í öll þessi box. Það er ættkvísl þyrna eða Crataegus ættkvíslin. Við höfum áður fjallað um tengsl þyrna við andaheima og birt einn pistil um eina tegund, hrafnþyrni, sem er mjög áberandi í Lystigarðinum og víðar.

Austurlandaþyrnir, Crataegus orientalis ssp. orientalis í Grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Sama tegund, en önnur undirtegund, hefur verið reynd í Lystigarðinum. Mynd: Sig.A.


Austurlandaþyrnir í Lystigarðinum á Akureyri í október 2017. Eins og sjá má er vaxtarlagið á Íslandi er töluvert frábrugðið vaxtarlagi tegundarinnar í Danmörku. Mynd: Sig.A.


Einkenni

Í inngangi laumuðum við inn helstu einkennum ættkvíslarinnar, eins og lesendur hafa sennilega áttað sig á. Við það má þó ýmsu bæta. Langflestar tegundirnar eru sumargræn, fremur lágvaxin tré eða runnar en til eru sígræn tré sem vaxa sunnarlega í Norður-Ameríku. Þau fara auðvitað á mis við hina glæsilegu haustliti sem eru svo algengir innan ættkvíslarinnar.

Ein af sígrænu tegundunum heitir Crataegus mexicana og vex í Mexíkó og Guatemala. Aldinin eru nýtt til átu. Engar líkur eru á að þessi tegund geti vaxið á Íslandi. Myndina birti Chela Raluy Zierold í Facebookhópnum Unique Trees.


Oftast er það svo að sömu tegundir þyrna geta myndað hvort heldur sem er tré eða runna. Hægt er að stýra því með klippingu og getur það kostað dálitla vinnu framan af æfi trjánna ef við viljum fá einstofna tré. Fyrir kemur að tré brotna vegna snjóþyngsla eða átroðnings og koma þá iðulega upp margir stofnar frá rót. Erlendis eru til eldgömul tré sem mynda einskonar þykkni því þau hafa aldrei verið klippt til. Þessi vöxtur gefur okkur ágæta hugmynd um að nýta megi trén í limgerði, enda er það víða gert. Sá siður hefur samt ekki tíðkast mikið hér á landi.

Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca, sem hefur verið klipptur til að mynda einstofna tré í Lystigarðinum. Takið eftir að við stofninn eru að koma upp nýir sprotar. Þá þarf að klippa í burtu ef plantan á að mynda tré en ekki runna. Verður það án efa gert áður en til vandræða horfir. Mynd: Sig.A.


Laufin eru stakstæð á greinum. Þau eru mjög oft flipótt og tennt en einnig eru til sepótt og jafnvel heil lauf. Oft er stærð og gerð laufanna nokkuð misjöfn á hverri tegund fyrir sig og jafnvel á sama trénu. Flækir það mjög greiningu á tegundum. Kröftugar greinar bera oftast stærri lauf en minni greinar. Oftast eru blöðin tennt og má stundum nota gerð tanna til að greina tegundir í sundur. Flestar tegundir hafa þyrna en á sumum tegundum eru þeir lítið áberandi. Svo getur verið einstaklingsmunur á fjölda þyrna og stundum er eins og minna sé um þyrna í mjög frjóu landi. Það er þó langt því frá algilt. Stærð og gerð þyrna getur hjálpað við að greina í sundur tegundir en varlega þarf að treysta slíkri greiningu.

Áberandi þyrnar á síberíuþyrni, Crataegus sanguinea í garði í Síðuhverfi. Mynd: Sig.A.

Villtar tegundir hafa blóm sem hafa fimm krónublöð en í ræktun eru til ofkrýnd yrki. Sama fyrirbæri má sjá víða í rósaættinni, Rosaceae, en þyrnar tilheyra henni. Blóm þyrna eru þó mun minni en hjá einkennistegundum ættarinnar; rósum eða Rosa spp. Þau minna frekar á blóm á reynitrjám, Sorbus spp. sem eru einnig af rósaættinni. Hér á landi blómgast þyrnar að jafnaði heldur minna en reynitré.

Oftast er börkurinn mjúkur og gráleitur hjá ungum trjám en hann getur flagnað langsum með aldrinum. Stundum má sjá fallegar skófir og aðrar ásætur á berki trjánna þegar þau eldast. Annars verður stofninn oft mjög ellilegur hjá tiltölulega ungum trjám. Allar tegundirnar þrífst best á björtum stöðum eða í hálfskugga. Ef ekki er nægilega bjart dregur úr blómgun og haustlitir verða minna áberandi. Í miklum skugga þrífast flestar tegundir þyrna beinlínis illa.

Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca, í fullum haustlitum í Lystigarðinum þann 6. september 2023. Mynd: Sig.A.

Notkun

Hér á landi er algengast að sjá þyrna sem tré eða stóra runna í fremur litlum görðum eða annars staðar þar sem pláss er af skornum skammti. Sjaldgæfara er að sjá þá í limgerðum þótt það þekkist. Erlendis eru tegundirnar aftur á móti mjög algengar í limgerðum og skjólbeltum. Þéttur vöxtur og þyrnarnir, sem ættkvíslin er nefnd eftir, gerir það að verkum að almennt sækjast fáir eftir því að fara í gegnum limgerði úr tegundum ættkvíslarinnar. Hér á landi má sem best skreyta skógarjaðra og -rjóður í meira mæli með ýmsum tegundum af þyrnum. Þá þarf að gæta þess að planta þeim ekki of nærri stígum eða öðrum þeim stöðum þar sem þeir geta valdið slysum. Þeir þrífast vel í nánast hvaða jarðvegi sem er en fá fallegri haustliti ef þeir vaxa í fremur sendnum og þurrum jarðvegi. Ætla má að margar tegundir þyrna geti hentað prýðilega sem götutré á Íslandi og almennt má segja að það megi nota þessar tegundir mun meira en nú er gert.

Logandi haustlitir á hrafnþyrni þegar annar gróður er enn grænn. Mynd: Sig.A.


Nafnið

Á ensku kallast þessi ættkvísl hawthorn og því hafa tré af þessari ættkvísl stundum ranglega verið nefnd „hafþyrnir“. Það nafn er notað á allt aðra tegund á Íslandi sem ber fræðiheitið Hippophae rhamnoides og tilheyrir allt annarri plöntuætt. Að auki er þessi þýðing alröng vegna þess að enska orðið haw er sama orðið og hekk. Hawthorn merkir því hekkþyrnir eða þyrnigerði og hefur ekkert með hafið að gera. Íslenska heitið vísar vitanlega í þyrnana sem eru á trjánum. Fræðiheitið Crataegus var útskýrt í pistli okkar um hrafnþyrni og er óþarfi að endurtaka það hér en þeir sem vilja geta auðvitað flett því upp.

Hér sitja hröfnungar í þyrni við Aberlady Bay, nálægt Edinborg í Skotlandi. Þyrnirinn stendur í hafþyrnirunnastóði með fullt af berjum. Ekki þarf að rugla þessum tegundum saman. Mynd: Sig.A.


Þyrnar í skjólbeltum og limgerðum

Öldum saman hefur verið vel þekkt um alla Evrópu að nota þyrna í limgerði og skjólbelti eins og klifað hefur verið á. Að auki nota Englendingar tegundina gjarnan í belti á landamerkjum bændabýla. Þétt greinabygging og langir þyrnar gera það að verkum að stærri dýr ráfa ekki í gegnum svona belti. Af þessu ber tegundin nafn sitt á ensku eins og að ofan er nefnt. Það er almennt talið gott að enn viðgengst þessi siður frekar en að nota girðingar. Þessi skjólbelti hafa mjög jákvæð áhrif á lífríkið. Smáfuglar verpa gjarnan í þeim og sækja í berin á haustin. Smávaxin spendýr leita þar einnig skjóls og skordýr sækja í blómin. Allt er þetta til bóta. Að auki er viðhaldið minna en á girðingum.

Hvítþyrnir, Crataegus laevigata í skjólbelti í Malmö í Svíþjóð. Mynd: Hjörtur Oddsson.


Hér á landi hafa þyrnar lítið verið notaðir á þennan hátt. Þeir eru miklu frekar ræktaðir sem stök tré í görðum. Einnig er upplagt að planta stökum trjám í stærri skjólbelti til að auðga lífríkið og til að njóta haustlitanna.

Limgerði í Kauptúni í Garðabæ úr döglingsþyrni, Crataegus douglasii. Við hliðin á því er jörfavíðir sem sjálfsagt hefur skýlt þyrninum vel á fyrstu árum hans. Mynd: Steinar Björgvinsson.


Aldur

Flestar þyrnitegundir geta orðið mun eldri en algengast er innan rósaættarinnar. Við það bætist að þær geta endurnýjað sig með stofnskotum, eins og við þekkjum hjá íslenska birkinu. Þegar einstaka tré eru látin í friði í langan tíma geta smám saman myndast þykkni sem geta orðið mörg hundruð ára gömul. Frá þessu sögðum við í áramótapistli okkar árið 2023/2024. Í görðum eru slík stofnskot skorin frá og þar með getur tréð ekki endurnýjað sig á sama hátt. Þekkt er að í þorpinu Hethel í Norfolk, Englandi, er tré sem talið er víst að hafi verið plantað á þrettándu öld og er því orðið meira en 700 ára gamalt. Þetta tré er talið elsti þyrnir Englands eða að minnsta kosti með þeim elstu (Wills 2018). Langt er í að þyrnar á Íslandi nálgist hámarksaldur sinn. Það verður að teljast mjög ólíklegt að þeir falli vegna elli á þessari öld.

Þessi gamli hvítþyrnir, Crataegus laevigata, er í Bæjaralandi og kallast Þúsund-ára-þyrnirinn. Enginn veit fyrir víst hvað hann er gamall. Myndin er fengin frá Facebooksíðunni Baumgeschichten og hana tók Jürgen Schuller.


Mismunandi tegundir

Mikill ruglingur er innan þessarar ættkvíslar þegar kemur að greiningu tegunda. Reynist jafnvel færustu sérfræðingum erfitt að greina þær í sundur. Þyrnar blandast auðveldlega í náttúrunni og það sama á við þar sem fleiri tegundir eru ræktaðar saman. Því er ekki víst að réttar tegundir komi upp af fræi sem sums staðar er hægt að kaupa. Því má vænta þess að ekki séu öll kurl komin til grafar með þrif einstakra tegunda á Íslandi.

Til að flækja málið enn frekar eru tegundirnar svo vandgreindar hver frá annarri að heimildum ber ekki saman um fjölda þeirra í heiminum. Áður fyrr voru þær jafnvel taldar fleiri en þúsund en nú hefur þeim fækkað niður í nokkur hundruð eða jafnvel niður í um 100 til 200 tegundir. Að hluta til stafar þetta af því að sumar þyrnitegundir geta myndað fræ án undangenginnar frjóvgunar. Kallast það apomictic fjölgun eða geldæxlun og höfum við meðal annars fjallað um fyrirbærið hér. Þegar fjölgun með geldæxlun á sér stað má, með góðum rökum, tala um fjöldann allan af mismunandi skyldum örtegundum, því þær skiptast ekki á erfðaefni við aðra einstaklinga. Þá er full ástæða til að ætla að tegundirnar séu fleiri en þúsund. Nú hefur komið í ljós að svo virðist sem að sumar apomictic tegundir geta einnig myndað fræ á hefðbundinn hátt með víxlfrjóvgun. Þá snarfækkar tegundunum. Þannig er staðan núna.

Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca, í Meltungu, Kópavogi þann 10. september 2023. Mynd: Kristján Friðbertsson.


Nær allar tegundirnar eiga það sameiginlegt að mynda runna eða fremur lágvaxin tré sem geta orðið um 5-15 metrar á hæð á bestu stöðum.  Hér á landi er um tugur tegunda í almennri ræktun og vel má vera að við fjöllum seinna nánar um einstakar tegundir, svo sem síberíuþyrni, C. sanguinea, sem sennilega er algengasti þyrnirinn á Akureyri og sjálfsagt víðar. Þess má geta að meðal þeirra atriða sem grasafræðingar skoða til að greina á milli tegunda er hvar æðstrengir laufanna enda á jöðrum þeirra, litur, lögun og stærð blóma og aldina (þar með talið fjölda fræfla og fjölda fræja í hverju aldini), lengd, gerð og fjöldi þyrna og er þá aðeins fátt eitt nefnt (Rushforth 1999). Allt eru þetta atriði sem við sjáum ekkert endilega nema ef við vitum hvers við eigum að leita.

Sami síberíuþyrnirinn að vetri og hausti til í Lystigarðinum á Akureyri. Myndir: Sig.A.


Flestar tegundir eiga það sameiginlegt að mynda þyrna en nokkuð er misjafnt milli tegunda hversu margir þeir eru, hvort þeir vaxa á greinum eða beint úr stofni og stærð þeirra er einnig breytileg. Þeir stærstu verða um 8 cm á lengd en algengast eru að þeir séu um 1-3 cm langir. Í lýsingunum hér á eftir nefnum við útlit laufa en það ber að taka þeim lýsingum með fyrirvara vegna þess hversu breytileg laufin eru á hverju tré. 

Tegundirnar mynda ber sem fuglar sækja í. Mismunandi tegundir hafa mismunandi liti á berjunum og er þeim stundum skipt í hópa eftir berjalit. Hér á landi eru það einkum tré sem bera svört eða rauð ber sem ræktuð eru en einnig eru til tegundir sem bera gul og jafnvel blá ber. Aldinin eru æt en sum eru ekki mjög bragðgóð. Þó eru til tegundir í útlöndum sem ræktaðar eru vegna ætra berja.

Allir þyrnar bera dæmigerð blóm fyrir ætt sína. Þau mynda oftast sveipi og flestar tegundir bera hvít eða gulhvít blóm. Einnig eru til tegundir með bleik og jafnvel rauð blóm. Stundum kemur fyrir að einstaklingar hvítblómstrandi tegunda myndi bleik blóm. Til eru yrki sem bera ofkrýnd blóm.

Rótarskot frá dúnþyrni, C. maximowiczii, að hausti. Mynd: Sig.A.


Flestar, ef ekki allar, tegundirnar eiga það til að koma með svokölluð stofnskot. Þá spretta upp sprotar frá rótarhálsi. Ef það er látið óátalið mynda þau smám saman þykkni eða stóra runna. Ef ætlunin er að fá tré er rétt að klippa þessa sprota í burtu. Þessir hæfileiki getur verið heppilegur ef eitthvað hendir tréð. Þá getur stofninn drepist en rótin lifað svo upp sprettur ný planta af gömlu rótinni. Meðfylgjandi myndir sýna hrafnþyrni sem brotnaði undan snjó í Kjarnaskógi og var talinn af. Nú eru nýir sprotar að vaxa upp aftur af rótinni.

Þyrnir í Kjarnaskógi vex upp frá rótum trés sem brotnaði. Myndir: Sig.A.


Lýsing tegunda

Hér á eftir reynum við að lýsa nokkrum af helstu tegundum sem finna má á Íslandi. Við þessar lýsingar byggjum við mest á grein eftir Jón Þ. Guðmundsson sem birtist í Garðyrkjuritinu aldamótaárið 2000. Greinina byggði hann á ritgerð sinni í Garðyrkjuskólanum. Við notum einnig lýsingar á heimasíðu Lystigarðsins en þar eru yfir 40 tegundir og undirtegundir nefndar. Með því að fara með bendilinn yfir nafn tegundanna hér á eftir má opna lýsingu Lystigarðsins á viðkomandi tegund. Að auki er stuðst við Schulz (2020) þegar einkennum er lýst sem auðveldlega sjást á vetrum, en því miður lýsir hann ekkert of mörgum þyrnitegundum í sinni stóru bók. 


Seint verða allar tegundir þyrna á Íslandi taldar upp. Í Lystigarðinum má meðal annars finna drekaþyrni, C. dahurica, sem reynist ágætlega en hefur lítið sem ekkert verið ræktaður. Því fjöllum við ekki um hann en vísum á fróðleik á heimasíðu garðsins. Mynd: Sig.A.


Fleiri tegundir en þær sem hér eru nefndar hafa verið reyndar á landinu en við sleppum þeim sem ekki hafa reynst nægilega vel eða mjög takmörkuð reynsla er af. Það verður þó að teljast líklegt að einhvers staðar á landinu leynist fín eintök af þeim trjám sem við sleppum, ef þau hafa vaxið upp á góðum stöðum og fengið gott atlæti. Þær tegundir eru samt ekki líklegar til að bæta miklu við þær sem hér eru nefndar. Þótt margar þyrnitegundir séu vandgreindar hver frá annarri þá er það svo að samkvæmt heimasíðunni World Flora Online eru nöfn allra neðangreindra tegunda viðurkennd meðal grasafræðinga. Við ítrekum að listinn er ekki tæmandi.

Haustmynd frá Brekkugötu. Fremst á myndinni er þyrnir að fara í haustliti. Mynd: Sig.A.


Fjallaþyrnir, Crataegus altaica

Lágvaxið og hægvaxta en krónumikið tré með fáum þyrnum. Fremur fíngerður þyrnir.

Þyrnar: Grófgerðir og um 2-3 cm langir. Laufblöð: Allt að 5 cm löng, skærgræn að lit, oftast egglaga og svo djúpflipótt að það má næstum segja að þau séu fjaðurskipt. Jaðrarnir eru tenntir. Blóm: Í opnum, flötum, fáblóma hálfsveip eða skúfum. Krónublöðin um 1 cm í þvermál. Ber: 6-10 mm og gullgul að lit. Hæð: 4-6 m á Íslandi. Heimkynni: Mið-Asía.

Fjallaþyrnir í Grasagarðinum í Laugardal. Mynd: Aaron Zachary.


Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca

Við höfum birt sérstakan pistil um þessa tegund og má sjá hann hér. Því er lýsingin hér heldur í styttra lagi. Þyrnar: Fáir, 10-12 mm. Sumar plöntur hafa nær enga þyrna. Lauf: 5-9 cm löng oftast breiðegglaga til tígullaga, ydd með 7-9 sepum. Blöðin tennt og tennurnar snúa alltaf fram. Ber: Svört með grænu aldinkjöti.

Blóm: Um 1 cm í þvermál eða tæplega það í hærðum 4-7 cm stórum hálfsveipum. Hæð: 5-7 m. Fullorðin tré verða pýramídalöguð ef þau fá pláss til þess. Heimkynni: Frá Kamtsjatka og suður til Japan. Heimildum ber ekki saman um hvort hann sé einnig villtur í Kína. Við nefndum ekki í fyrri pistli okkar að viðurnefnið chlorosarca er komið úr grísku og merkir grænt hold. Orðið vísar til berjanna en hold þeirra er grænt. Það er sett saman úr grísku orðunum kloros sem merkir grænn og sarkos sem merkir kjöt eða hold. Svo er stafsetningin löguð að latínu og þá fáum við út heitið chlorosarca (Hafsteinn 2024).

Hrafnþyrnir í Lystigarðinum. Myndir: Sig.A.

Döglingsþyrnir, Crataegus douglasii Þyrnar: Kröftugir en fáir. Verða allt að 3 cm langir.

Ber: Þegar berin þroskast verða þau djúpvínrauð í fyrstu en dökkna svo og verða að lokum svört og glansandi. Erlendis verða þau fullþroskuð í ágúst og laða að fugla.

Blóm: Um 1 cm í þvermál og eru 10-20 saman í hálfsveip. 20 fræflar í hverju blómi. Lauf: Breiðegglaga eða aflöng, 3-8 cm löng. Þau eru sagtennt og aðeins flipótt. Efra borðið verður dökkgrænt og glansandi. Æðstrengurinn er hærður á neðra borði en annars eru laufin alveg hárlaus. Mikill og þéttur laufmassi og hentar því vel í klippt limgerði. Mynd er af einu slíku hér ofar en að minnsta kosti tvö slík gerði voru á Akureyri fyrir fáum árum. Hæð: Allt að 12 m hátt í heimkynnum sínum en mun lægra hér á landi. Ef til vill má gera ráð fyrir að þau verði allt að 7 metrar.

Mikið blómstrandi döglingsþyrnir með einn beinan stofn í Oregon í Bandaríkjunum. Myndin fengin héðan.

Heimkynni: Vesturhluti Norður-Ameríku allt frá frá Kaliforníu í suðri og til Alaska í norðri. Á sama svæði vaxa margar tegundir trjáa sem reynst hafa vel á Íslandi.

Annað: Greinar á döglingsþyrnum eru oft hangandi. Þetta er harðgerð tegund og mætti reyna fleiri kvæmi af henni hér á landi.

Mynd af laufum döglingsþyrnis fengin frá vef Lystigarðsins. Hana tók Björgvin Steindórsson. Vel sést hversu laufmassinn er þéttur.




Hvítþyrnir, Crataegus laevigata

Ber: Egglaga eða hnöttótt oftast með tvö fræ í hverju beri en það geta verið 1-3 fræ í hverju. Berin verða dökkrauð og 6-10 mm í þvermál. Mátulegur biti fyrir ýmsa spörfugla.

Blóm: Mynda hálfsveip og eru oftast hvít eða bleik. Til eru yrki með dökkbleik eða jafnvel rauð blóm en óvíst að þau hafi borist hingað til lands. Blómin eru oftast 15-18 mm breið. Lauf: Öfugegglaga og oftast þríflipótt en stundum með fimm flipa. Fliparnir vísa fram. Jaðrar eru sljósagtenntir og grunnur laufanna oftast fleyglaga. Laufin ljósgræn á neðra borði. Axlarblöð langydd og óreglulega sagtennt. Hæð: Óviss á Íslandi en verður um 8 til 12 m í Evrópu. Ef til vill má miða við lægri töluna hér á landi. Heimkynni: Evrópa og Norður-Afríka.

Annað: Þetta er önnur af tveimur algengustu þyrnum Evrópu. Þeir hafa reynst þokkalega á Íslandi og kala lítið en vaxa hægt. Mikill breytileiki innan tegundarinnar og mörg yrki í ræktun í útlöndum.

Fyrri myndin sýnir lítt þroskuð ber og lauf hvítþyrnis. Seinni myndin er nærmynd af blómum hans. Myndirnar tók Björgvin Steindórsson og voru þær fengnar af heimasíðu Lystigarðsins.



Dúnþyrnir, Crataegus maximowiczii Ber: Hærð í fyrstu en við þroskun falla hárin og berin verða dökkrauð.

Blóm: Þau eru hvít og með hæringu. Er þau birtast lykta þau dásamlega en smám saman versnar lyktin. Sumir segja að hún minni á fisk. Lauf: Laufin eru lík og á síberíuþyrni, C. sanguinea, enda eru tegundirnar náskyldar. Þó eru blöðin djúpskertari og separnir meira áberandi. Neðra borðið er töluvert hært. Hárin eru löng og hrokkin. Af þessum hárum fær tegundin nafn sitt á íslensku. Haustlitir mjög fallegir. Hæð: 3-5 metrar. Erlendis allt að 7 metrar en oftast lægri. Heimkynni: Norðaustur-Asía. Vex í norðurhluta Kína og norðurhluta Japans. Einnig í Kóreu, Mongólíu og í austanverðri Síberíu.

Annað: Í Lystigarðinum hafa nokkur tré af þessari tegund verið reynd. Þau hafa reynst þokkalega en þau hafa kalið mismikið í uppeldi. Með auknum aldri virðist draga úr kali. Í Grasagarðinum í Laugardal þykir þessi tegund ein sú efnilegasta af þessari ættkvísl. Tegundin er sögð mjög frostþolin.

Dúnþyrnir í Grasagarðinum í Laugardal þann 19. september 2021. Myndir: Sig.A.


Laufblöð á dúnþyrni eru djúpskertari en hjá síberíuþyrni en tegundirnar eru náskyldar. Myndir: Björgvin Steindórsson. Myndir fengnar að láni hjá Lystigarðinum.

Snæþyrnir, Crataegus monogyna Þyrnar: 2 - 2,5 cm langir og oftast áberandi. Stundum hætta eldri tré að mynda þyrna. Þá eru þau orðin það há að ekki er lengur þörf á að verjast evrópskum grasbítum.

Ber: Berin hafa alltaf eitt og aðeins eitt fræ. Þau eru egglaga eða kúlulaga og nokkuð breytileg, dökkrauð á litinn og 8-10 mm löng.

Blóm: Hvít og mynda hálfsveip. Hvert blóm er 8-15 mm breitt og bikarblöðin eru stundum aflöng en stundum breið og stutt.

Lauf: Breiðegglaga eða tígullaga með 3 til 7 djúpskerta flipa á hverju blaði. Stundum nær skerðingin ¾ af leiðinni að miðstrengnum. Blöðin eru hvítgræn á neðra borði og hærð. Fliparnir bogadregnir, stundum snubbóttir og stundum hvassyddir. Axlarblöðin eru heilrennd. Hæð: Runni eða tré sem getur orðið allt að 10 metrar á hæð í Evrópu. Sjálfsagt eitthvað lægra hér. Við skjótum á að hann verði um 2 til 5 metrar á hæð. Heimkynni: Evrópa, Norður-Afríka, Litla Asía, Sýrland til Palestínu og í Kákasus og Armenía. Önnur af tveimur algegngustu tegundum Evrópu. Þær geta blandast saman í náttúrunni.

Annað: Breytileg tegund. Fjölmörg yrki í ræktun í Evrópu en þau hafa ekki verið mikið reynd á Íslandi. Yrkið 'Variegata' hefur þó borist í Lystigarðinn. Laufin á því eru hvítflikrótt og vísar nafnið í það.


Laufblöðin koma upp um snæþyrninn. Myndir Björgvin Steindórsson. Þær eru að finna á vef Lystigarðsins.



Svartþyrnir, Crataegus nigra Þyrnar: Allt að 1 cm og oft mjög fáir.

Ber: Hálfhnöttótt ber um 1 cm í þvermál. Þau eru svört og gljáandi og holdið er mjúkt. Tegundin ber nafn af svörtu berjunum þrátt fyrir að vera ekki eina tegundin sem hefur svört ber.

Blóm: Um 1,5 cm í þvermál. Hvít í fyrstu en verða bleik með aldrinum. Mynda litla, dúnhærða hálfsveipi. Fræflar eru 20 í hverju blómi og frjóhnapparnir gulir. Lauf: Þríhyrnd til egglaga en grunnurinn er fleyglaga til þverstýfður. Oftast 3 til 10 cm löng og 2,5-7 cm breið. Jaðrarnir hafa 7-11 grunna og sagtennta flipa. Laufin eru mött, græn og dúnhærð á báðum hliðum. Axlarblöð með stórar, hvassar tennur. Hæð: 2-5 m. Heimkynni: SA Evrópa og Ungverjaland. Á ensku er tegundin kennd við Ungverjaland þar sem hún er algengust. Annað: Krónan er hvelfd á fullorðnum trjám, greinar stinnar og purpurabrúnar. Í fyrstu eru þær þaktar gráum hárum en þær verða hárlausar með aldrinum. Þessari tegund er stundum ruglað saman við hrafnþyrni en hún er sennilega ekki eins harðgerð. Báðar tegundirnar bera svört ber en hrafnþyrnirinn myndar krónu sem er pýramídaleg ef hann fær nægilegt pláss á meðan króna svartþyrnisins er hvelfd. Ef marka má skiltin í Lystigarðinum er einhver ruglingur í gangi með latínuheiti tegundanna tveggja.

Svartþyrnir fær nafn sitt, bæði á íslensku og latínu, af lit berjanna. Myndina tók finnski ljósmyndarinn Lassi Kalleinen og birti á Flickr síðu sinni. Við hefðum aldrei fundið myndina nema vegna þess að Lassi merkti hana með fræðiheitinu.


Síberíuþyrnir, Crataegus sanguinea Þyrnar: Kröftugir og um 3 cm langir. Mjög misjafnt er hvort þeir eru margir eða fáir.

Ber: Í fyrstu eru aldinin gulrauð en roðna síðan meira. Verða rauðgul og síðan skærrauð. Þau eru rúmlega 1 cm í þvermál. Hér á landi þroskast þau strax í ágúst.

Blóm: Um 1,5 cm í þvermál í þéttum en litlum hálfsveipum. Bæði bikarblöð og blómstilkur alveg hárlaus. Fræflar 20 í hverju blómi með fjólubláa frjóhnappa. Lauf: Líta út fyrir að vera egg-tígullaga til breiðegglaga. 5-8 cm löng og 3-5 cm breið. Laufin hafa venjulega 2 til 7 pör af stuttum hvasstenntum flipum sem stundum eru tvísagtenntir. Þau eru nokkuð þykk, dökkgræn á efra borði en ljósari á neðra borði. Báðar hliðar eru hærðar en hárin eru mest áberandi á æðastrengjum á neðra borði. Axlarblöðin hálfhjartalaga og gróftennt. Mjög flottir haustlitir. Hæð: 5-7 metrar Heimkynni: Austur-Síbería, Suðaustur-Rússland. Annað: Lítið krónumikið tré, greinar glansandi og purpurabrúnar. Árssprotar hærðir í fyrstu en verða síðar hárlausir, gljáandi rauðbrúnir eða rauðfjólubláir. Á Akureyri er þessi tegund nokkuð víða og hefur reynst mjög vel. Hana má bæði finna í Lystigarðinum og í görðum, stundum sem stakstætt tré og stundum í blönduðum beðum. Síberíuþyrnir er skyldur fjallaþyrni, C. altaica og hrafnþyrni, C. chlorosarca.


Myndir: Björgvin Steindórsson. Þær eru að finna á heimasíðu Lystigarðsins.


Haustlitir síberíuþyrnis geta orðið mjög fallegir. Á þessari mynd eru fáein blöð eftir og því auðvelt að sjá þyrnana. Mynd: Sig.A.

Flipaþyrnir, Crataegus wattiana Þyrnar: Stuttir og fáir. Stundum vantar þá alveg.

Ber: Um 1 cm í þvermál og nær alveg hnöttótt. Holdmikið og safaríkt aldin sem dettur fljótt af trénu. Þau verða gul eða appelsínugul á litinn.

Blóm: Eru í nokkuð stórum hálfsveipum miðað við aðra þyrna. Þeir verða um 7 cm breiðir. Fræflarnir 20 í hverju blómi og frjóhnappar eru hvítir eða ljósgulir. Lauf: 5-9 cm egglaga og hvassydd. Grunnur fleyglaga. Jaðrarnir hafa 3-5 pör af flipum. Þeir eru fjaðurskiptir og er íslenska heitið dregið af því. Fliparnir eru sagtenntir. Hæð: 3-6 metrar. Heimkynni: Mið-Asía. Frá Altaífjöllum til Baluchistan. Annað: Lítið tré sem líkist síberíuþyrni, C. sanguinea. Greinarnar glansandi, rauðbrúnar. Tegundin hefur verið reynd í Lystigarðinum en drapst. Vel mætti reyna hana aftur.

Mynd frá Wikipediu sem sýnir helstu einkenni tegundarinnar. Myndin teiknuð árið 1919.


Framtíðin

Ljóst má vera að fjölmargar tegundir af þyrnum þrífast ágætlega á Íslandi þrátt fyrir að þeir séu ekki mikið ræktaðir. Þó má ætla að margir vilji rækta tré sem blómstra á vorin og fá svona glæsilega haustliti og falleg ber síðsumars. Tegundirnar mætti nota mun meira en nú er gert og þær gætu skreytt garða, skjólbelti og skógarreiti um ókomna tíð.

Áhugafólk um fugla ætti að gleðjast sérstaklega yfir þyrnum. Fuglar eru hæstánægðir með þær pöddur sem sækja í trén, sem og berin á haustin. Að auki mynda þyrnar ljómandi hreiðurstæði fyrir margar tegundir. Þegar á allt er litið telst framtíð þyrna björt á Íslandi.


Heimildir:

Hafsteinn Hafliðason (2024): Munnleg ábending í ágúst 2024.


Hjörtur Þorbjörnsson (2018): Um Þyrniættkvíslina. Í: Garðyrkjuritið 2018, Ársrit Garðyrkjufélags Íslands, 98. árgangur bls. 68-70. Garðyrkjufélag Íslands.


Jón Þ. Guðmundsson (2000): Þyrniættkvíslin á Íslandi. Í: Garðyrkjuritið 2000, Ársrit Garðyrkjufélags Íslands, 80. árgangur bls. 71-80. Garðyrkjufélag Íslands.


Lystigarður Akureyrar: Garðaflóran. Sjá Garðaflóra | Lystigarður Akureyrar (akureyri.is). Sótt í október 2023. Á síðunni er auðvelt að leita eftir nöfnum og með því að leita eftir latínuheitunum þá er hægt að sjá alla ættkvíslina saman.


Keith Rushforth (1999): Trees of Britain & Europe. Collins Wildlife Trust Guide. The Harper Collins Publishers, London.


Bernd Schulz (2020): Identification of Trees and Shrubs in Winter using Buds and Twigs. Kew Publishing. Royal Botanic Gardens, Kew.

Simon Wills (2018): A History of Trees. Pen & Sword Whit Owl. Barnsley, South Yorkshire, England.



110 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page