top of page

Skógarjaðrar

Fáir hlutar skóganna eru jafn áberandi í landslagi og skógarjaðrarnir. Þegar við bætist að þeir verja skógana, auka fjölbreytni og gera þá fallegri og náttúrulegri í útliti er mesta furða hversu lítið hefur verið fjallað um þá. Nú reynum við að setja lítið lóð á vogarskálarnar til að leggja okkar af mörkum til að bæta örlítið úr því.

Jaðar í Kristnesskógi. Birki í jaðri og þar hefur reynir sáð sér út. Lerki og greni mynda hærri skóg innan við jaðarinn. Á fyrstu áratugum skógræktar var nánast regla að margfalt birkibelti væri meðfram öllum jöðrum. Í Eyjafirði má sjá slík belti í Kjarnaskógi, Vaðlaskógi, Garðsárreit og víðar. Líklega hefur hugsunin verið sú að birkið ætti að mynda skjól fyrir viðkvæmari tegundir. Mynd og upplýsingar: Helgi Þórsson.


Gildi staðsetningar

Þótt skógar séu ekki tiltakanlega útbreiddir á Íslandi má finna hér margar mismunandi gerðir af skógarjöðrum. Þeir myndast við vötn og ár eða annað votlendi jafnt sem við mismunandi gerðir af þurrlendi. Þeir eru á mörkum skóga og túna, beitilanda eða friðaðra svæða. Einnig við veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar og við rjóður eða önnur opin skógarsvæði. Sumir skógarjaðrar liggja vel við sólu á meðan aðrir eru í skugga. Sumir eru á skjólgóðum stöðum á meðan aðrir þurfa að þola vindálag eða saltákomu. Skógarjaðrar geta líka gagnast sveppatínslufólki Þar sem sól skín á jörðu og trjárætur eru undir myndast aldin svepprótarsveppa trjánna oft fyrr en í skugganum inni í skóginum. Þannig sprettur kóngssveppur, Boletus edulis, sá eftirsótti matsveppur, gjarnan í göngustígum sem liggja um Vaglaskóg (Guðríður Gyða 2024).

Mismunandi skógarjaðrar kalla á mismunandi gróður. Venja og smekkur hefur líka mikið að segja svo og það pláss sem fyrir hendi er.

Skógarjaðrar myndast við vötn eins og hér má sjá við Mývatn. Sumar plöntur kjósa helst svona staði til að vaxa. Mynd: Sig.A


Glæsilegur skógarjaðar á Suðurlandi með fjölbreyttum trjám og runnum. Mynd: Sig.A.


Líffjölbreytni

Með góðri skipulagningu geta skógar, svona almennt, aukið á líffjölbreytni. Með því að planta fjölbreyttum gróðri í skógarjaðra má auka á tegundafjölbreytni skóganna til mikilla muna. Þar skapast líka skilyrði sem eru ólík þeim sem finna má á svæðunum sem eru utan við skóginn og inni í honum. Þær aðstæður getum við nýtt með gróðursetningu á ýmsum runnum og fleiri tegundum sem helst vilja einmitt vera þarna. Að auki skapast þarna skilyrði fyrir plöntur sem kunna að vera í nágrenninu og geta nýtt sér þessa vist. Þessi fjölbreytni laðar svo að sér fjölbreyttara smádýralíf sem aftur laðar að sér fugla.


Mismunandi skógarjaðrar í Skriðdal. Þarna lagði ábúandinn sig fram við að búa til fjölbreytta skógarjaðra á móts við þjóðveginn í gegnum dalinn. Svo var þjóðvegurinn færður þannig að hinir vel hönnuðu jaðrar gleðja fáa. Nú liggur þjóðvegurinn í gegnum skóg þar sem aldrei var hugað að því hvernig jaðrar ættu að líta út. Myndir: Sig.A.



Skógarjaðrar Salzburgarlandi í Austurríki. Alls staðar eru lauftré í jöðrum. Myndir: Sig.A.

Skógarjaðrar geta hýst bæði gróður og dýr sem kunna best við sig einmitt þar. Þegar horft er til líffjölbreytni má hafa í huga að eftir því sem landið er meira skipulagt þá eykst þörfin fyrir vel hannaða skógarjaðra. Við getum tekið einsleitan skóg og einsleitt tún sem dæmi. Alveg er tilvalið að huga að fjölbreyttum jöðrum á mörkum slíkra svæða.


Mynd eftir Samson B. Harðarson sem sýnir skipulag skógarjaðra. Myndin er gerð eftir fyrirmynd úr bókinni Det nyja landskapet eftir Roland Gustavson og Torleif Ingelög.



Verndun skógarins - snjófangarar

Út frá sjónarmiði viðarframleiðanda skipta skógarjaðrar miklu máli. Með því að hafa áhrif á snjóalög geta vel hannaðir jaðrar gegnt mikilvægu hlutverki við að draga úr áhrifum snjóbrots nálægt jöðrunum. Skógarjaðrar geta verið snjófangarar sem vernda skógana.

Skammt innan við jaðarinn á greniskógi í Jórvík í Breiðdal má finna þetta mikla snjóbrot. Með réttri grisjun og vel hönnuðum skógarjöðrum má draga úr hættunni. Myndir: Helgi Þórsson.


Þegar vindur lendir á fyrirstöðu á hann það til að lyftast upp yfir hana og falla svo niður handan hennar. Þetta sést stundum í skógum. Vandinn verður verulegur á vetrum þegar vindurinn ber með sér snjó. Þá er eins og hann hlaðist upp skammt innan við skógarjaðarinn og brjóti þar allt og bramli. Því má oft sjá snjóbrot í skógi um 20 metrum innan við skógarjaðarinn. Ef vindurinn lendir á hrjúfu yfirborði getur dregið úr krafti hans. Skógarjaðrar þurfa að vera þannig. Þeir eiga að draga úr vindálagi þannig að snjórinn lyftist ekki upp heldur stoppi í jaðrinum eða berist inn í neðri lög skógarins án þess að valda tjóni. Meðfylgjandi skýringarmyndir eiga að sýna þetta. Lauftré nýtast mjög vel í þessum tilgangi því á veturna eru þau lauflaus og miklu gisnari en á sumrin. Þau draga því úr styrk vindsins og safna snjónum í lægri lögin í jöðrunum.


Tvær einfaldar myndir sem sýna skóg og áhrif vinds. Á fyrri myndinni er fjölbreyttur skógur og jaðar sem dregur úr skemmdum. Á neðri myndinni er aðeins ein tegund og dæmigert snjóbrot innan við jaðarinn. Myndir: Sig.A.


Skógarjaðar í Skriðdal. Handan við þessi tré og runna eru meðal annars grenitré og þinir sem vaxa í góðu skjóli. Mynd: Sig.A.

Þess má geta að hönnun skjólbelta og skjólveggja á einnig að taka tillit til þessa. Má sem dæmi nefna að þéttleiki skjólbelta er sagður réttur ef við sjáum að það er bíll á hreyfingu handan við þau án þess að við getum greint tegundina. Skjólveggir eru einnig þannig að þeir eiga að hægja á vindi en eru ekki það þéttir að vindurinn lyftist yfir þá og skelli niður handan þeirra. Hrjúfast verður yfirborðið ef blandað er saman fjölbreyttum gróðri af lauf- og barrtrjám.

Mynd sem sýnir muninn á skjóli sem veggir og trjágróður veitir. Skógarjaðrar mega ekki vera svo þéttir að þeir minni á vegginn á efri myndinni. Myndin er úr bókinni: The Complete Book of Garden Design, Construction and Planting (1991).


Skógarjaðar í síðsumarssólskini. Birkið og víðirinn kom upp við friðun en var ekki plantað. Mynd: Sig.A.


Um að gera að hafa fjölbreyttar tegundir í jöðrum. Vel getur farið á að láta barrtré ná sums staðar að jaðrinum. Það eykur fjölbreytni. Hvað sérðu margar tegundir á myndinni? Mynd: Sig.A.

Lög skógarins

Í flestum tilfellum má segja að heilbrigðir skógar skiptist í nokkur lárétt lög. Neðst er sjálft jarðvegslagið með sín jarðvegsdýr og sveppþræði. Þar fyrir ofan er feyrulagið sem saman stendur af ýmsum rotnandi efnum. Þá er svarðlag með mosum, sveppum og fléttum. Upp úr því sprettur graslag með ýmsum grösum og blómplöntum. Svo er það runnalag. Í sumum tilfellum geta þau verið fleiri en eitt. Efst kemur svo sjálft trjálagið. Það getur verið fjölbreytt og tegundaríkt.

Í skógarjöðrum má finna öll þessi sömu láréttu lög en að auki má segja að þeir hafi lóðrétt lög. Um þau fjöllum við í næsta kafla.


Fjölbreyttur gróður í brekkunum ofan við Innbæinn á Akureyri gefa ágæta hugmynd um hvernig hægt er að hanna fallega skógarjaðra. Myndir: Sig.A.


Skógarjaðar í Vaglaskógi. Mynd: Sig.A.

Mismunandi lög

Rétt eins og skógurinn sjálfur byggist skógarjaðarinn upp á mismunandi lögum. Þó er sá munur á að sum þeirra má aðgreina betur en í skóginum sjálfum. Ástæðan er sú að í skóginum eru þau í lóðréttum lögum en í skógarjöðrum má greina sum þeirra lárétt. Jarðvegslagið, feyrulagið og svarðlagið er þó hið sama þótt mismunandi lífverur geti verið í þeim. Svo verður smá breyting. Fjærst skóginum er lag sem byggir mest á blómplöntum, smárunnum og grösum. Þar nýtur gróðurinn og aðrar lífverur góðs af skjóli skógarins og meiri hita en á skjóllausu svæði. Mörgum fiðrildum og smádýrum líður best þarna. Þetta getum við kallað „útjaðar“ og samsvarar graslaginu í skógunum.


Skógarjaðrar að vetri til. Myndir: Sig.A.


Fjölbreyttur skógarjaðar við þjóðveg númer 1. Mynd: Sig.A.

Svo kemur runnalag. Það einkennist af lágvöxnum runnum og inn á milli má gjarnan finna hærri runna eða smávaxin tré. Þetta samsvarar runnalagi skóganna og við getum kallað svæðið „runnajaðar“ eða „miðjaðar“. Á þessu svæði má oftast finna allskonar lauftré og -runna og þar eru gjarnan íslenskar tegundir eins og birki, gulvíðir, loðvíðir og jafnvel reynir og blæösp. Einnig má planta þarna erlendum, blómsælum runnum svo sem kvistum, sýrenum og lágvöxnum reynitegundum. Þegar frá líður getur verið gaman að planta allskonar skrautrunnum í þennan hluta og ýmsir sígrænir runnar geta vaxið þarna líka. Rétt eins og í skóginum sjálfum er graslagið þarna líka.


Tvær myndir sem Samson Bjarnar Harðarson teiknaði og notar til að sýna nemendum sínum áhrif skógarjaðra á veður og lífsskilyrði.

Þar innan við taka við hærri tré og runnar. Má kalla það „innjaðar“ eða „trjájaðar“. Mörkin á milli miðjaðars og innjaðars renna gjarnan saman og eru óglögg. Þar innan við tekur sjálfur skógurinn við. Vel getur farið á því að hafa línur hans ekki of beinar. Hann má alveg ná á kafla allt að útjaðrinum til að hafa ásýnd jaðarsins sem fjölbreyttastan og auka í leiðinni á hrjúfleika yfirborðsins. Það hægir á vindi og dregur úr hættu á snjóbroti.


Myndir úr bókinni Det nyja landskapet sem sýna mismunandi skógarjaðra. Fyrri myndirnar tvær sýna jaðar þar sem minni líkur eru á skemmdum vegna snjóbrots því jaðarinn er gisinn. Gott er að hafa þetta í huga þegar skógar eru grisjaðir. Stundum þarf þá að muna að grisja jaðarinn líka, til að draga úr líkum á snjóbroti.


Breidd skógarjaðra

Breidd skógarjaðra getur ráðist af ýmsum þáttum. Landslag skiptir þar auðvitað miklu máli. Gott er að vera meðvituð um að með skógrækt er verið að breyta og bæta ásýnd lands. Því þarf að hafa margt í huga, svo sem útsýnisstaði og fjölbreytni. Mjúkar línur hvíla augað betur en beinar, hvassar línur. Þær geta gert skógarjaðrana óáhugaverða og leiðinlega. Þessi sömu áhrif sjáum við í þéttbýli. Eitt besta dæmið á Akureyri er ef til vill við Hlíðarbraut. Neðan við Síðuhverfi eru mjög vel hönnuð beð með mjúkum línum og fjölbreyttum trjám og runnum. Vel má skoða þessi beð til að fá hugmynd um hvernig fallegur skógarjaðar gæti litið út.


Í almenningsgörðum má fá hugmyndir um hvernig skógarjaðrar gætu litið út. Fyrri tvær myndirnar frá Akureyri en sú síðasta frá Boston. Myndir Sig.A.

Mýrar og annað votlendi mynda náttúrulega skógarjaðra sem geta verið mjög breiðir. Í þessari norsku grein kemur fram að tré með vötnum, ám og lækjum eru talin svo nauðsynleg þar í landi að ekki má höggva þau nema með sérstöku leyfi og þá aðeins í undantekningartilfellum. Ástæðan er m.a. sú að trén gefa skjól, næringu, minnka útskolun næringarefna og binda jarðveg sem leiðir af sér að bakkar vatnasvæðanna hafa meira þol gegn bakkabroti í vatnavöxtum.


Skógar að Mógilsá við Kollafjörð og við Eyvindará á Héraði. Myndir: Sig.A.

Vegagerðin helgar sér svæði sem nær allt að 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega. Innan þeirrar marka er alveg óþarfi að planta trjám, enda ekki til þess ætlast. Aftur á móti má vel líta á það svæði sem hluta af útjaðri skógarins og víða um land má sjá trjágróður, einkum víði og birki, sá sér við vegi sem girtir eru af. Lega við sólu, nálægð túna, pláss og fleiri þættir geta líka ráðið miklu um breidd skógarjaðra. Þar sem skjólbelti er við tún má vel hugsa sér að rækta skóg handan við beltið. Þá verður skjólbeltið hluti af skógarjaðrinum og breidd þess ræður breidd jaðarsins.

Reynitré grípa gjarnan augað í skógarjöðrum. Myndin tekin við Glerá. Mynd: Sig.A.



Sigurður Blöndal, fyrrum skógræktarstjóri, sagði eitt sinn við þann er þetta ritar að honum þætti blæösp mynda fallegustu skógarjaðra landsins. Sjá má hvernig öspin skríður út. Þessar myndir af blæösp tók Sig.A. í Grundarreit í Eyjafirði.

Beinar línur

Flestir eru á þeirri skoðun að beinar línur í landslagi séu að jafnaði fremur ónáttúrulegar. Þótt skógar séu ræktaðir er um að gera að reyna að fella þá sem best að landslagi. Einhverra hluta vegna þykir þetta ekki eiga við um tún. Þau mega alveg vera kassalaga þótt ræktaðir trjáreitir megi það ekki. Það er miklu þægilegra á allan hátt að vinna á túnum sem eru þannig í laginu og auðveldara að girða þau af. Að vísu á það líka við um skógarreiti en það þykir ekki smart. Á þessu er samt sú undantekning að þar sem skógur liggur að túni má hafa beinar línur. Þá ráða línur hinna ræktuðu túna útlitinu. Sama á við um skjólbelti. Standi þau við tún eða akra mega þau vera þráðbein. Því beinni, þeim mun betra. Ef þau aftur á móti standa fjarri túnum eða öðru ræktuðu landi verður að fella þau að landslagi.


Beinar línur í túnrækt. Mynd: Sig.A.

Tún eru gjarnan kassalaga eins og sjá má á fyrstu tveimur myndunum. Skógarreitir, sem eru líka ræktaðir reitir, þykja ekki eins búsældarlegir ef þeir eru kassalaga.


Stundum virðast girðingarstæði ráða mestu um það að jaðrar skógarreita verða línulegir. Það er vel skiljanlegt að eigendur hins afgirta lands vilji nýta landið sem best en mörgum þykja þannig línur beinlínis ljótar. Jafnvel þótt ekki sé plantað alveg að girðingunni má gera ráð fyrir að línurnar verði áberandi í landslagi ef beit, einkum þung beit, er utan girðingarinnar. Landið innan hennar grær þá upp með runnum og öðrum þeim gróðri sem það getur klæðst þegar rányrkjunni léttir. Þess vegna myndast beinar línur með tímanum. Sömu áhrif má sjá mjög víða við veggirðingar. Þá sprettur upp birki og víðir þegar vegirnir hafa verið girtir af.


Þessi mynd var tekin árið 2016 við Moldhaugnaháls utan við Akureyri rétt við vegamótin þar sem vegurinn til Dalvíkur greinist frá þjóðvegi 1. Hún sýnir hversu miklu friðunin ein og sér getur áorkað ef landið er ekki of illa farið. Ef beitta landið, handan girðingar, væri skógur gætu þessir runnar myndað skógarjaðar. Mynd: Sig.A.


Tveir skógarjaðrar við tún í Eyjafirði. Takið eftir að á seinni myndinni myndar birkið ekki samfellt belti. Það er í góðu lagi og gerir jaðarinn bara fjölbreyttari. Að auki skapar það pláss fyrir skrautplöntur ef vilji er til að planta þeim síðar. Myndir: Sig.A.

Ef til vill leysist þetta vandamál sjálfkrafa þegar að því kemur að vörsluskyldu búfjár verður komið á. Það hlýtur að gerast hér á landi, fyrr eða síðar, rétt eins og í öðrum löndum sem við miðum okkur við. Þá verður mun auðveldara að búa til bugðumyndaða skógarjaðra sem falla vel að náttúrunni. Beinu línurnar verða þá utan um beitilönd og auðvitað áfram í kringum tún og akra.


Í skógarjöðrum skapast gjarnan gott vaxtarrými fyrir fjölbreyttan gróður. Þar má planta skrautplöntum eins og villirósum og sýrenum. Myndir: Sig.A.



Helstu heimildir:

David Stevens, Lucy Huntington & Richard Key (1991): The Complete Book of Garden Design, Construction an Planting. Ward Lock Limited, London.


Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2024): Munnleg heimild í mars 2024


Roland Gustavson & Torleif Ingelög (1994): Det nyja landskapet. Kunskaper och idéer om haturvuård, skogsodling och planering i kulturbygd. Skogsstyrelsen, Jönköping.


Samson Bjarnar Harðarson, Helgi Þórsson og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fá hugheilar þakkir fyrir aðstoð og upplýsingar.

441 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page