Tilvera blæaspa, Populus tremula, á Íslandi er ein mesta ráðgáta íslenskra skóga. Hvergi er tilvera hennar samt meiri ráðgáta en í Vaðlaskógi eða Vaðlareit þar sem hún vex og dafnar í landi Halllands. Hvenær kom hún, eða hefur hún verið þarna alla tíð? Hvaðan kom hún? Hvernig kom hún? Hefur hún íslenskan ríkisborgararétt?
Frábær mynd Péturs Halldórssonar af öspinni og Akureyri handan fjarðar.
Þessar og álíka spurningar hafa fengið grasafræðinga og áhugafólk um skóg- og trjárækt til velta svo mikið vöngum að reynt hefur verulega á hálsvöðvana. Blæöspin í Vaðlareit er tré vikunnar.
Blæaspir í Vaðlaskógi. Hvaðan komu þær? Mynd: Sig.A.
Saga blæaspa á Íslandi
Nú er almennt talið að við landnám hafi fjórar tegundir plantna getað gert réttmæta kröfu til að teljast til trjáa á Íslandi. Birkið var eina tréð sem myndaði samfellda skóga, en hér hefur líka verið reyniviður, gulvíðir (sem stundum getur myndað tré) og að öllum líkindum blæösp. Þessa upptalningu má reyndar flækja dálítið meira en við sleppum því í bili. Um tilvist blæaspa á landinu var allt á huldu í nokkur hundruð ár. Það var helst að bæjarnafnið Espihóll í gamla Hrafnagilshreppi í Eyjafirði hafi gefið einhverjar vísbendingar. Alla vega hefur sá bær ekki verið nefndur eftir rekaviði eins og talið er að eigi við um Asparvík á Ströndum. Svo má vera að nafnið Espihóll hafi breyst. Ef til vill hét hann upphaflega Eskihóll. Um það er ekkert hægt að fullyrða. Ef forfeðrum okkar hefði tekist að útrýma blæöspinni algerlega væri sá er þetta skrifar alveg til í að taka undir þá skýringu. En eðlilegri skýring er að Espihóll sé nefndur eftir ösp.
Myndarlegar blæaspir vaxa á Grund í Eyjafirði. Voru svona aspir villtar á Espihóli forðum daga? Mynd: Sig.A.
Svo var það árið 1905 að undarleg planta fannst hjá bænum Garði í utanverðum Fnjóskadal. Frá því er sagt á prenti árið 1911 og þótti þá einsýnt að þetta væri blæösp. Blæösp finnst einnig á bænum Ytri Hól þar skammt frá. Um miðja öldina fannst hún svo á fjórum stöðum í kjarri og skóglendi á Austurlandi. Fyrst í Fáskrúðsfirði 1944 og síðan í Breiðdal og í Egilsstaðaskógi um árið 1953, í Stöðvarfirði 1959 og aftur árið 1966 og loks á Höfða á Völlum árið 1993 (Helgi Hallgrímsson 2017). Við þessa sögu má bæta að í Grundarreit í Eyjafirði er einnig að finna blæaspir. Þær eru taldar innfluttar frá Danmörku og var plantað þarna árin 1900 og 1901 (Þórarinn Benedikz 1994). Hinn danski uppruni sést meðal annars á því að laufgun og lauffall virðist ekki vera sérlega aðlagað íslenskri ljóslotu. Hún laufgast fremur seint á vorin en enn meira áberandi er hversu lengi hún stendur græn á haustin. Annars eiga blæaspir að fá fallega, skærgula haustliti. Á haustin sést einnig að klónarnir í Grundarreit eru þrír hið minnsta.
Danskættaðar blæaspir í Grundarreit eru grænar lengur en önnur lauftré í reitnum. Myndin tekin 30. 09. 2022. Mynd: Sig.A.
Hvenær komu þær?
Uppi hafa verið ýmsar tilgátur um hvernig blæaspir bárust til landsins. Á það jafnt við um öspina í Vaðlaskógi (eða Vaðlareit eins og hann er einnig nefndur) og aðrar aspir. Lifðu þær af Ísöldina á íslausum stöðum? Bárust þær hingað sem fræ eftir að ísa leysti? Komu þær ef til vill löngu síðar? Er það ástæða þess að þeirra er að engu getið í eldri heimildum og finnast einkum um austanvert landið? Ef svo er; hvernig bárust þær? Komu fræ þeirra til landsins löngu eftir að land byggðist eða var þeim ef til vill plantað af ferðamönnum? Asparfræ eru smá og skammlíf. Geta þau lifað af ferðalag til Íslands? Ekki er nokkur leið að svara ofangreindum spurningum með fullri vissu. Því er ekki hægt að fullyrða neitt um hvernig þær bárust til landsins. Aftur á móti er hægt að nálgast svar við sumum þessara spurninga með allskyns rannsóknum. Dularfyllst er koma blæaspa í Vaðlareit.
Horft frá þjóðveginum niður til aspanna neðan við hjallann. Líkt og aspirnar í Grundarreit eru þessar grænar þegar flest annað fer í haustliti. Mynd: Sig.A.
Vaðlareitur
Árið 1936 gerði Skógræktarfélag Eyfirðinga samning við eigendur jarðanna Varðgjár, Veigastaða og Halllands um að tiltekin landspilda úr landi jarðanna yrði afhent skógræktarfélaginu til skógræktar. Hófst gróðursetning sama ár. Þessi samningur er enn í fullu gildi og skógurinn í umsjón Skógræktarfélags Eyfirðinga. Nánar má lesa um reitinn hér.
Svo var það upp úr miðri öldinni að menn af ýmsum kynjum fóru að taka eftir því að tveir blæasparrunnar voru farnir að vaxa upp í skóginum í landi Halllands, nálægt ystu mörkum skógarins. Þessi staður er skammt fyrir sunnan og neðan við útsýnispall sem er vel þekktur. Mörgum þykir nefnilega Akureyri fallegust úr hæfilegri fjarlægð. Þar sem öspin fannst hafði stafafura verið gróðursett. Engar heimildir eru til um að öspin hafi verið gróðursett þarna um leið og furan og virðist það reyndar frekar ólíklegt. Sérstaklega á það við um runna sem óx nánast út úr kletti. Það er samt ekki hægt að útiloka að einhver hafi gróðursett þarna tvær eða þrjár aspir, svona til að gera skóginn fjölbreyttari eða til að ergja grasafræðinga framtíðarinnar. Á þessum árum var mjög erfitt að ná í trjáplöntur til að planta en öspin í Grundarreit var farin að skríða út og auðvelt að ná í plöntur þangað, svo lítið bæri á.
Rótarskot í Vaðlaskógi.
Eldri heimildir
Helgi Þórsson (2022) í Kristnesi tók að sér að skoða eldri heimildir í leit að upplýsingum um þessar plöntur. Hann hefur bent á að ekkert er fjallað um öspina í bókinni Gróður á Íslandi frá árinu 1964, eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum. Það er aðeins fáum árum eftir að fólk fór að veita öspinni athygli. Í bókinni Garðagróðri frá 1982 minnist Ingólfur Davíðsson ekki einu orði á blæösp í Vaðlaskógi. Sama á við um Plöntuhandbókina sem Hörður Kristinsson skrifaði árið 1986. Þá er eins og ekki nokkur maður hafi talið rétt að nefna hana. Sennilega var það vegna þess að hún var ekki talin íslensk.
Stæðileg blæösp í Vaðlaskógi og rótarskot fyrir framan. Þar má einnig sjá birki sem er að komast í haustliti. Mynd: Sig.A.
Hvenær kom hún?
Greinin um Vaðlaskóg, eða Vaðlareit, sem vísað er í hér að ofan er byggð á grein eftir Aðalstein Svan Sigfússon (2000) sem birtist í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar og gefin var út í tilefni 70 ára afmæli Skógræktarfélags Eyfirðinga. Greinin heitir Vaðalaskógur. Þar er kafli þar sem Aðalsteinn fjallar meðal annars um þau tré sem prýða skóginn. Í lok kaflans segir hann: „Allra nyrst í reitnum, rétt neðan vegarins, er síðan blæasparteigur sem hefur valdið miklum heilabrotum. Nú er talið að blæösp þessi sé gróðursett en uppruni er óþekktur.“ (bls. 173).
Þessi sakleysislegu orð eru byggð á því almenna áliti sem var við lýði þegar greinin var skrifuð. Sést það ágætlega á bókunum sem Helgi nefnir hér að ofan. Þrátt fyrir það er ekki annað að sjá en að sjaldan hafa jafn margir grasa- og náttúrufræðingar verið jafn sammála um að skógræktarmaður hafi haft rangt fyrir sér eins og einmitt í þessari litlu efnisgrein. Verður nú greint frá því hvers vegna svo er.
Blæöspin er komin alveg upp að þjóðveginum eins og hér má sjá.
Mynd: Sig.A.
Óvæntar upplýsingar
Sigurður Blöndal (2002) hefur það eftir Guðmundi Haraldssyni, bónda á Halllandi, að hann hafi séð þessa runna þarna áður en gróðursetning hófst. Ef það er rétt hefur öspin sjálfsagt verið þarna lengi og verið haldið niðri af sauðfjárbeit, rétt eins og annars staðar á landinu þar sem hún hefur fundist. Eins og áður segir var hennar samt að engu getið í bókum um plöntur á níunda áratug aldarinnar. Því miður er nokkuð langt á milli þess að reiturinn var girtur af og að Sigurður hafði ummælin eftir Guðmundi bónda. Því er ekki hægt að útiloka að eitthvað hafi skolast til. Í raun er ekkert hægt að fullyrða um það, hvorki af eða á, þótt engin ástæða sé að rengja Guðmund. Eins og við er að búast vakna spurningar eins og: Var þetta örugglega rétt? Sáust plönturnar ef til vill aðeins seinna en talið er? Er alveg víst að þetta hafi verið blæösp? Var þarna eitthvað allt annað eins og ef til vill bláberjalyng, gulvíðir eða birki? Af hverju var ekki minnst á þetta við friðun reitsins? Þessum og viðlíka spurningum verður aldrei hægt að svara með neinni vissu.
Blæöspin í Vaðlareit 22. september 2022. Mynd: Helgi Þórsson.
Svo virðist sem þessar nýju upplýsingar Sigurðar Blöndals hafi orðið til þess að stórmenni eins og Jóhann Pálsson, Helgi Hallgrímsson og Hörður Kristinsson gengu í lið með Sigurði og urðu þess fullvissir að Aðalsteinn hefði haft rangt fyrir. Enn í dag njóta þeir allir mikillar og verðskuldaðrar virðingar meðal allra sem til þekkja, enda fróðir mjög og einstök valmenni. Má með nokkurri vissu segja að þeir ágætu menn hafi myndað eitthvert best mannaða stórskotalið grasafræðinga í upphafi aldarinnar. Að sjálfsögðu vilja þeir allir hafa það er sannast reynist.
Eitt af óteljandi rótarskotum í Vaðlaheiðinni. Þessi planta tilheyrir greinilega efri reitnum. Hinar verða ekki svona rauðar. Mynd: Sig.A.
Genarannsóknir
Líffræðingar hafa dundað sér við það mörg undanfarin ár að skoða litninga blæaspa, svona annað kastið. Má meðal annars nefna prófessor Kesera Anamthawat-Jónsson og skógræktaráhugamanninn Vigni Sigurðsson. Svo var það árið 2017 að Sæmundur Sveinsson bættist í þennan hóp og skrifaði ljómandi góða skýrslu sem heitir Uppruni og erfðabreytileiki blæaspar (Populus tremula L.) á Íslandi. Í skýrslunni skoðar Sæmundur þær blæaspir sem þekktar eru á Íslandi og ber þær saman við aspir frá tveimur stöðum í Svíþjóð. Kemur þar í ljós að almennt eru íslensku aspirnar miklu skyldari öspum frá Norður-Svíðþjóð en frá suðurhluta landsins. Það sem kemur þó mest við okkar sögu er að hann bar saman íslensku aspirnar innbyrðis. Meðfylgjandi mynd er úr skýrslunni og sýnir, svo ekki verður um villst, að blæöspin í Grundarreit og blæöspin í Vaðlareit eru náskyldar. Frá Grund fékk Sæmundur tvo klóna til athugunar en frá Vaðlaheiðinni aðeins einn, en þar eru tvær eða þrjár græður og því sennilega tveir eða þrír klónar. Ekki hefur verið skorið úr um hversu margir klónar eru í Grund nema með frekari genarannsóknum. Á haustin má þó sjá að trén fara ekki öll á sama tíma í haustliti svo vel má vera að þeir séu nokkrir. Eins og áður segir var öspinni þar plantað á tveimur árum. Ef þær voru ekki allar fluttar inn á sama tíma eykur það líkurnar á að klónarnir hafi verið fleiri.
Greining Sæmundar á erfðafjölbreytileika blæaspa. Grænir punktar sýna sænskar aspir, gulir punktar tákna íslenskar blæaspir frá Norðurlandi og rauðir punktar tákna blæaspir frá Austfjörðum og Héraði. Hringirnir sýna hvaða hópar aspa eru skyldastir. Aspirnar frá Garði og Ytri Hól eru skyldar enda vaxa þær nálægt hvor annarri. Þær eru ekkert líkar öspinni í Vaðlareit. Aftur á móti eru aspirnar í Vaðlareit og í Grundarreit náskyldar. Þær tilheyra sama erfðahópnum. Mynd: Sæmundur Sveinsson.
Myndin hér að ofan sýnir margt merkilegt. Það vekur t.d. athygli að öspin á Höfða á Héraði er miklu líkari öspunum á Austfjörðum en þeim sem vaxa í Egilsstaðaskógi. En það er utan við efni þessa pistils. Það vekur líka athygli að klónninn úr græðu 2 frá Grund er skyldari klóninum í Vaðlareit en hinum klóninum frá Grund. Kyngreining Sæmundar á öspunum leiddi í ljós að þessir tveir náskyldu klónar tilheyra sitt hvoru kyninu. Þetta er því klárlega ekki sami klónninn heldur tveir náskyldir klónar. Þetta rennir stoðum undir það að á Grund hafi verið plantað nokkrum klónum og þaðan hafi efniviðurinn borist með mönnum í Vaðlaheiðina.
Blæösp í Vaðlaskógi. Mynd: Sig.A.
Uppreist Aðalsteins
Það sem genarannsóknir Sæmundar sýna okkur er að blæöspin í Vaðlareit er af sama stofni og blæöspin í Grundarreit. Til þess geta legið að minnsta kosti þrjár ástæður.
1. Fyrir magnaða tilviljun fauk fræið, sem lenti í Vaðlaheiði, frá sömu slóðum í Danmörku og skógræktarmenn sóttu efniviðinn sem er í Grund.
2. Þegar öspinni í Grund var plantað voru til villtar aspir á staðnum sem enginn hafði tekið eftir. Þess vegna er þetta sérstakur Eyjafjarðarstofn. Hann tók yfir hinar gróðursettu, innfluttu aspir sem nú eru horfnar.
3. Öspinni í Vaðlaheiðinni var plantað og þær voru fluttar sem rótarskot frá Grund í Eyjafirði.
Því verður varla á móti mælt að þriðji liðurinn er langsamlega líklegastur. Þegar Aðalsteinn Svanur sagði að talið sé að öspunum í Vaðlaskógi hafi verið plantað hefur hann hitt naglann lóðbeint á höfuðið.
Enn er ónefnt eitt atriði sem skýtur frekari stoðum undir þá fullyrðingu að öspinni hafi verið plantað. Vitað er að klónarnir eru tveir, þótt stutt sé á milli þeirra. Eins og dæmin sanna er býsna fátítt að blæaspir hafi lifað af langvarandi beit á Íslandi, þótt þess finnist dæmi. Aftur á móti eru enn minni líkur á að tveir klónar lifi af á sama stað en ef þar er aðeins einn klónn. Auðvitað væri ekki hægt að útiloka það, en líkurnar minnka verulega.
Þá vaknar ný spurning: Hver plantaði blæöspunum í Vaðlareit? Svarið við þeirri spurningu er óþekkt.
Blæaspir í Grundarreit. Rannsóknir á genum sýna að uppruni þeirra er sá sami og í Vaðlaskógi. Mynd: Sig.A.
Þrif
Eftir að landið, sem nú hýsir Vaðlaskóg, var friðað fyrir beit hefur öspin tekið vel við sér, hvort sem hún var þar áður eða henni var plantað.
Brynjar Skúlason, skógfræðingur, mældi öspina að beiðni Sigurðar Blöndal árið 2002. Þá óx öspin enn í tveimur græðum en stutt var á milli þeirra. Önnur græðan var í brattri brekku en hin uppi á hjallanum þar fyrir ofan. Neðri græðan var þá 170 m2 að flatarmáli og elsta tréð um 30 ára gamalt. Hin græðan var þá 180 m2 og ekki eins þétt og fyrri græðan. Trén þar voru hærri og árssprotar lengri. Greinilegt má því vera, að mati Sigurðar, að móðurplönturnar eru tvær. Stærstu aspirnar höfðu þá náð 6-7 metra hæð og með stofnþvermál upp á 15-20 cm (Sigurður Blöndal 2002). Nú hafa þessir tveir runnar myndað mikil rótarskot og vaxa nú saman. Það er samt ljóst að um tvo klóna er að ræða. Annar þeirra (sá sem stendur neðar) er með ögn hangandi greinum og dálítið tuskulegri en hinn, ef svo má segja. Hinn runninn vex ofar og blöð hans eru áberandi rauðleit á vorin og framan af sumri.
Árni Helgason fær sér nesti við skriðurnar yst í Vaðlaskógi. Vinstra megin við tána á stígvélinu má sjá annan blæasparklóninn, þann sem er svolítið hengilmænulegur. Hægra megin má sjá þann sem er með rauðan tón í ungum blöðum fyrri hluta sumars. Myndina tók Helgi Þórsson þann 20. júní 2022.
Öspin á vorum tímum
Nú hefur öspin bætt miklu við veldi sitt. Hefur hún náð að skríða alveg upp að vegi og vex þar. Hinum megin við veginn er skilti sem tilgreinir að fram undan séu göng sem þurfi að borga í. Má nota það skilti sem viðmið til að finna öspina. Runnarnir hafa fyrir löngu vaxið saman en það má sjá mun á þeim, einkum snemmsumars.
Horft eftir öspunum af Pollinum. Þær sjást ekki á myndinni en eru þarna samt. Skiltið sem sést á myndinni er við bílastæðið (annað skilti er gegnt öspunum en sést ekki á myndinni) og efst til hægri má sjá hvar gamla girðingin var. Mynd: Sig.A.
Helgi Þórsson gerði sér ferð í reitinn þann 17. október 2022 og skoðaði hann vel. Hans niðurstaða er sú að skipta megi öspinni í þrjár grúppur, en ekki tvær eins og lengst hefur verið haldið fram. Meðfylgjandi uppdráttur sýnir græðurnar.
Uppdráttur Helga Þórssonar af staðsetningu blæaspanna í Grundarreit.
Græða eitt nær upp að vegi og er um 700m2. Þar er jarðvegur frá því að vera afar djúpur graslendismói og yfir í mýri. Þarna eru stærstu trén um 10m há en þau standa þétt og eru grönn.
Vöxtulegustu trén er að finna í græðu eitt, enda í besta jarðveginum. Trén voru alveg lauflaus þegar Helgi skoðaði þau. Mynd: Helgi Þórsson.
Græða tvö er í brekku og er afar þétt. Hún er um 400m2 og vex að græðu eitt að austan og græðu þrjú að sunnan. Trén eru þar lægri en í efstu græðunni og jarðvegur er grynnri. Vel má vera að græður eitt og tvö séu sami klónninn. Að minnsta kosti er hvorki mikill munur á útliti trjánna á vorin né haustin.
Undir klettunum mætast græða þrjú (vinstra megin) og græða tvö (hægra megin). Takið eftir muninum á lauffalli. Mynd: Helgi Þórsson 17.10. 2022.
Græða þrjú stendur saman af aðeins fáum trjám undir klettum. Trén eru smá, grönn og greinar örlítið slútandi. Þekur um 100m2. Þetta var eina græðu þar sem ekki hafði fellt laufin að fullu.
Þótt fullorðnu trén séu meira og minna lauflaus þann 17.10. eru litlu rótarskotin enn hvanngræn á litinn. Mynd: Helgi Þórsson.
Heimildir:
Aðalsteinn Svanur Sigfússon (2000): Vaðlaskógur. Í: Ásýnd Eyjafjarðar – Skógar að fornu og nýju. Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Sigurður Blöndal (2002): Íslensku skógartrén 2. Í: Skógræktarritið 2002, 2. tbl. Skógræktarfélag Íslands. Reykjavík.
Þórarinn Benedikz 1994: Hugleiðingar um blæösp vegna hins nýja fundarstaðar hennar. Í: Skógræktarritið 1994. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Reykjavík.
Sæmundur Sveinsson (2007): Uppruni og erfðabreytileiki blæaspar (Populus tremula L.) á Íslandi. Framvinduskýrsla til Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar. Landbúnaðarháskóli Íslands.
Höfundar texta og ljósmynda: Sigurður Arnarson og Helgi Þórsson.
Comments