top of page

Grenilimgerði, grenihekk

Updated: Apr 10, 2023

Miðað við hversu óalgeng vel klippt grenilimgerði (einnig nefnd grenihekk) eru í og við garða mætti ætla að greni væri alveg sérlega óheppileg tegund í slíkt. Svo er ekki. Hér ræður hefð meira en nokkuð annað. Vel má rækta limgerði úr grenitegundum og reyndar líka lerkitegundum, ef þess er gætt að snyrta limgerðið reglulega. Hér á eftir fylgja nokkrar myndir af slíkum skjólveggjum á Akureyri. Flestar myndirnar eru teknar nú í ágúst og þar sem alltaf er gott veður á Akureyri hefur nokkrum myndum verið breytt þannig að það líti út fyrir að það sé skýjað á myndunum. Jafnvel rigning. Svo er auðvitað ekki.

Í pistlinum er einnig fjallað um hvort kalla skuli fyrirbærið hekk eða limgerði. Við leggjum samt ekki dóm á málið og notum því bæði orðin. Má vera að þannig takist okkur að ergja og pirra fylgendur beggja orða.


Frægasta og hæsta grenilimgerðið á Akureyri er við Austurbyggð. Á myndunum má einnig sjá hærra greni sem ekki hefur verið klippt á þennan hátt. Þau eru vitanlega hærri og ekki nærri því eins þétt. Vel má vera að þetta séu jafn gömul tré.

Myndir: Sig.A.


Vetrarmynd af sama limgerði og hér að ofan. Það skal tekið fram að þessi mynd er ekki tekin í ágúst eins og hinar. Mynd: Sig.A.


Orðið

Í upphafi var orðið. Í þessu tilfelli er það upphafið í fyrirsögninni, sem vissulega er upphaf pistilsins og orðin eru tvö. Við veltum því fyrir okkur hvort orðið, grenihekk eða grenilimgerði, skuli upphefja í upphafi.

Almennt má segja að tvö hugtök séu notuð yfir plöntur, sem plantað er í einhvers konar raðir til að mynda skjól. Skjólbelti og limgerði (limgerðin eru einnig nefnd hekk). Munurinn er helst sá að skjólbelti eru minna klippt og hver planta fær að vaxa án mikilla inngripa. Limgerðin eru miklu meira klippt og því þéttari. Einnig er algengara að hafa fleiri tegundir í skjólbeltum en limgerðum. Þegar stærri svæðum er skýlt er talað um skjólbelti, en limgerði þegar minni svæði eru afmörkuð og stundum skýlt í leiðinni. Að jafnaði eru limgerði eða hekk lægri en skjólbelti en þau þurfa ekki að vera það. Mörkinn þarna á milli geta verið óljós.

Þetta hekk, eða limgerði úr barrtrjám er gegnt Skautahöllinni og innan við Aðalstræti. Þarna er stoppistöð fyrir strætisvagna eins og sjá má. Fjölbreyttur trjágróður prýðir brekkuna handan við grenið. Mynd: Sig.A.


Eins og sjá má geta svona limgerði, ef kalla má þau því nafni (barrgerði er óþekkt orð), verið ákaflega þétt en samt þunn. Þá taka þau ekki mikið pláss. Slíkt getur verið mikill kostur í litlum görðum. Mynd: Sig.A.


Hér hefði sennilega mátt planta trjánum ögn lengra frá göngustígnum til að þau hefðu haft tækifæri til að verða grænt beggja vegna. Hin hliðin er alveg græn. Mynd: Sig.A.


Limið

Óumdeilt er að orðið gerði er samstofna orðinu garður og girðing. Merking þess er ljós. Við skulum aftur á móti skoða orðið lim aðeins betur. Ef ofangreindar skilgreiningar á skjólbeltum og limgerðum eru notaðar liggur alveg fyrir að myndirnar sem hér fylgja sýna limgerði en ekki skjólbelti. En þá er eftir eitt vandamál. Hvað merkir orðið lim? Hafa barrtré lim eða á það eingöngu við um lauftré? Fyrir liggur að lim (eða limar eins og Páll Ólafsson orðaði það í ljóði sínu: Hríslan og lækurinn) merkir greinar. Gildir þá engu hvort átt er við greinar lauf- eða barrtrjáa. Aðrir eru þessu ósammála og telja að orðið lim eigi fyrst og fremst við um laufgaðar trjágreinar lauftrjáa. Því geti svona vel klipptar raðir barrtrjáa ekki flokkast sem limgerði. Samkvæmt Íslenzkri orðabók í ritstjórn Árna Böðvarssonar frá 1978 merkir limgerði: „Þétt runnaröð, notuð sem girðing.“ Seint verður sitkagreni talið til runna. Samkvæmt sömu orðabók getur orðið lim merkt trjágreinar, greinar eða laufgaðar greinar. Jafnvel hrís. Getur þessi lýsing átt við um greni? Mörður Árnason ritstýrði Íslenskri orðabók (án zetu). Þeir höfðingjar virðast sammála. Orðið lim merkir: „trjákróna, laufgaðar trjágreinar“. Því getum við slegið því föstu að ef greni laufgast getur það myndað limgerði. Skýringin á limgerði hjá Merði er orðrétt sú sama og hjá Árna Bö. enda er byggt á þeirri útgáfu.


Grenihekk, eða grenilimgerði í Rimasíðu úr sitkagreni. Einhver óáran hrjáir það á kafla. Sennilega sitkalús. Sitkalús kann vel við sig í þéttu greni og því má gera ráð fyrir því á svona stöðum. Veggurinn dregur úr möguleika rótanna. Handan við limgerðið, eða hekkið, má sjá fallegt rauðgreni.

Mynd: Sig.A.


Grenið í þessum garði í Rimasíðu er á tvær hliðar. Þetta greni er á lóðarmörkum. Eins og sjá má eru engin óþrif á þessum stað. Mynd: Sig.A.

Samkvæmt lítilli og óvísindalegri könnun á Facebook er það mikill minnihluti sem er þeirrar skoðunar að orðið limgerði og lim eigi aðeins við um lauftré. Í bókinni Garðagróður segir að barrtré komi til greina sem limgerði. Má því ljóst vera að þeir Ingólfur Davíðsson og Ingimar Óskarsson, sem skrifuðu þá bók, hafa litið svo á að lim ætti jafnt við um barr- og lauftré. Er það í samræmi við skoðanir flestra á Facebook.

Gunnar Þórólfsson hefur bent á að orðið lim er til á latínu. Mörg orð úr því tungumáli hafa ratað inn í íslensku svo sem múr og pólitík. Á latínu merkir orðið lim lína, landamæri eða þröskuldur. Ef svæði er afmarkað með klipptum plöntum svo þau myndi girðingu má því kalla það limgerði án þess að það þurfi að vísa í limar. Brynjólfur Þorvarðarson (munnleg heimild) er sömu skoðunar og hefur bent á að limafirðir eru tveir í Danmörku. Annar á Jótlandi og hinn í Ístríu. Sá síðarnefndi heitir reyndar bara Lim en á kortum er hann gjarnan nefndur Lim fjord eða eitthvað sambærilegt. Báðir eru firðirnir langir og mjóir og skipta landi nánast í tvennt.


Þrjár myndir af ungum plöntum á horni Borgarsíðu og Bröttusíðu. Þeim er þétt plantað og munu með tíð og tíma mynda magnaðan grenivegg.

Myndir: Sig.A.


Búast má við miklu skjóli þegar grenið verður orðið svona. Hekkið dregur einnig úr hljóð- og rykmengun allt árið. Mynd: Sig.A.


Á vefnum timarit.is kemur fram að elsta dæmið um orðið limgerði er frá árinu 1898. Þar er það eingöngu notað um lauftré og -runna.

„Eyjan er forkunnar fögur; þar úir og grúir af lífkvikum limgerðum úr heslitrjám, með þjettum greinum, stórvöxnum blöðum, vorilmandi þyrnum, blómlegum miðsumarsrósum, hvítum, unaðsfögrum ylliviðarlundum og öllu því, sem vant er að blómgast og þróast í runnum; þess konar limgerði getur að líta hvervetna um akra og engi. . .“ Í þessum texta er hvergi talað um barrtré en það útilokar þau samt ekki frá hugtakinu.


Á horni Kotárgerðis og Akurgerðis má finna þetta lerkihekk. Það hefur alla sömu kosti og grenilimgerðin, nema hvað það er ekki sígrænt. Eins og sjá má eru Gerðin í miðju KA-hverfi. Mynd: Sig.A.

Hekkið

Í áðurnefndri orðabók í ritstjórn Árna Böðvarssonar er ekkert minnst á hekk í þessari merkingu. Mörður hefur orðið í sinni bók. Merkingin er sögð vera „limgerði, skjólbelti (t.d. lág tré eða runnar)“ en orðið er merkt með tveimur spurningamerkjum. Það merkir að orðið er talið framandorð eða sletta. Vafamál getur talist að slík orð séu íslensk.


Stutt grenilimgerði sem skýlir vel eplarækt sem er í þessum garði.

Mynd: Sig.A.


Orðsifjafræðin getur þó komið að gagni. Hafsteinn Hafliðason segir að í fornu máli sé orðið „hegn" til. Það merkir trjágróður eða eitthvað sem lokar af eða girðir inni. Þetta er skylt sögninni að hegna sem getur merkt að útiloka eða refsa. Einnig er orðið „hagi" af sama stofni. Í sænskum mállýskum er til orðið „ave" sem merkir það sama en h-ið er dottið af. Danska orðið „have" og norska orðið „hage" eru auðvitað sömu rót. Þar halda menn einnig í þann gamla og góða sið að girða hagana af til að halda grasbítunum þar.

Hafsteinn segir: „Ein trjátegund hefur meira að segja hlotið nafn sitt af þessari praktík. Hegnbeykið (Carpinus betulus) sem breyttist í „agnbeyki" (avnbög á dönsku, avenbok á sænsku og agnbök á norsku). Hefur frá fornu fari verið notað til að gera hegn sem héldu björnum og úlfum frá - og hleypti ekki út nautgripum. Sterkur og seigur viður sem þoldi stífa stýringu og stóðst alla áraun. Orðið hegn breyttist í dönsku í „hæk" og í sænsku í „häck" og í norsku í „hekk". Með krókaleiðum úr þessum málum barst það svo og breyttist í hekk hjá okkur." Hafsteinn telur þessi skyldleiki sýni að orðið sé fullgild íslenska og engin sérstök ástæða að tala frekar um limgerði. Telur hann að orðið limgerði hafi orðið til fyrir tepruskap til að forðast dönskuslettuna hæk, sem í raun sé fullgilt norrænt orð. Ekkert sé rangt við að endurnýta orðið hegn og búa til orðið hekk. Hafsteinn er auðvitað hafsjór af fróðleik og hefur verið lengi að. „Ég hef þekkt og umgengist garðyrkjumenn sem fæddir voru á nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu, enginn þeirra notaði annað hugtak en „hekk“ um umrætt fyrirbæri“ segir Hafsteinn.


Vel má klippa grenitré til að halda þeim þéttum og koma í veg fyrir að þau taki of mikið pláss, án þess að búa til úr þeim hekk. Mynd: Sig.A.


Hvorug ofangreindra orðabóka gefa upp orðið hegn. Aftur á móti er orðið notað í þessari merkingu í Færeyum eins og sjá má hér. Þarna má meðal annars sjá að bannað er: „ . . . að seta upp hegn tvørtur um almennan koyriveg. . . „ nema að setja upp og viðhalda „portur til frama vanligan trafikk.“ Er þetta úr lagatexta frá 1931.


Á horni Byggðavegs og Þingvallastrætis má sjá greni á ýmsum aldri sem nýtt er til að mynda skjól. Myndir: Sig.A.


Þéttplantað greni á ýmsum aldri mun veita mikið skjól þótt síðar verði. Mynd: Sig.A.Til að forma svona lifandi girðingar, hvort sem við köllum þær hekk eða limgerði, eru gjarnan notaðar sérstakar klippur. Sá sem þetta ritar hefur mun oftar heyrt talað um hekkklippur (sem lítur mjög vel út á prenti með sín þrjú k) en limgerðisklippur. Samkvæmt vefnum timarit.is eru 1221 dæmi um hekkklippur. Það elsta úr Morgunblaðinu frá 1932. Dæmin um orðið limgerðisklippur eru aðeins 141. Það elsta úr Degi frá árinu 1963. Segir þessi munur ef til vill hvort orðið hekk eða limgerði hafi verið garðyrkjumönnum tamara, svona lengst af.


Þetta grenilimgerði er í Garðabæ og hefur verið þar í um það bil hálfan fjórða áratug og hefur skýlt húsráðendum fyrir vestanáttinni. Það samanstendur af sitkagrenitrjám frá Alaska af tveimur kvæmum. Til skiptis var plantað trjám frá Homer og Cordova. Um tíma var mikil sitkalús í þessu belti og hún lagðist mismikið á kvæmin. Nú hefur hekkið, eða limgerðið náð að hrista af sér lúsinni og það lítur vel út á hverju ári. Fyrirmyndina að gerðinu sáu húseigendur á ferðalagi til Danmerkur árið 1985 eða þar um bil. Mynd og upplýsingar: Jóhanna Gunnlaugsdóttir.


Kostir

Helstu kostirnir við grenilimgerði eða grenihekk eru að þau eru mjög þétt og sígræn. Þess vegna skýla þau allt árið, bæði fyrir vindi og forvitnum augum. Að auki getur allur trjágróður aukið loftgæði. Sígræn tré gera það jafnt á sumri sem vetri með því að fanga rykagnir úr loftinu. Því getur verið gott að hafa svona barrskjól (barrgerði?) við miklar umferðargötur.

Auðvelt er að ákveða hæðina og halda henni. Ef rétt er staðið að klippingu verður það ekki gysið að neðan of skýlir því mjög vel. Ef vilji er fyrir hendi, eða plássið lítið, má halda grenilimgerðum mjög þunnum en samt þéttum. Eflaust kemur þetta einhverjum á óvart, því flest vitum við hvað grenitré geta verið plássfrek.


Á Krókeyrarnöf skýlir greni mestu eplaræktun bæjarins hjá Elvari Óskarssyni. Mjög stutt á milli planta. Mynd: Sig.A.

Klipping

Frá unga aldri plantnanna getur verið heppilegt að snyrta hliðar á svona limgerði eða hekki. Það þéttir þau og auðveldar að ákvarða hversu þykkur greniveggur á að myndast. Algengast er að klippa ekki ofan af grenilimgerðum fyrr en þau hafa náð þeirri hæð sem óskað er eftir. Ef sú hæð er mikil verður að hafa í huga að það gæti þurft ýmis tæki til að standa að klippingunni. Sumum þykir þó fallegra að hafa hæð plantnanna sem líkasta. Þá er hægt að klippa af þeim stærstu svona annað hvert ár eða svo. Til að grenilimgerði þjóni tilgangi sínum er best að klippa þau árlega. Ef það er ekki gert verða þau of þykk fyrir litla garða og fara að líkjast skjólbeltum.


A-laga form á grenihekki eða grenilimgerði. Svona á að klippa. Mynd: Sig.A.


Mikilvægt er að klippa gerðið þannig að það verði dálítið A-laga. Það merkir að það á ekki að vera flatt að ofan heldur minna á bókstafinn A þannig að efri hlutinn verði mjórri en sá neðri.. Þetta á reyndar við um limgerði almennt. Verst er að hafa þau V-laga eins og stundum sést. Ef þau eru A-laga vinnst tvennt. Annars vegar kemst birtan betur að neðri hluta gerðisins. Þar með getur það orðið grænt alveg niður að jörðu en gisnar ekki neðan til. Hins vegar hrynur bleytusnjór frekar af A-laga hekki og minni hætta verður af snjóbroti. Erlendis sér maður allskonar limgerði sem klippt eru í kassa, en þar er að jafnaði ekki hætta á snjóbroti. Myndirnar efst á síðunni sýna rétt lagað grenihekk.


Vel klippt greni. Það fær ekki að vaxa út á gangstéttina og trufla umferð þeirra sem eru á leiðinni í sund til að nota rennibrautina sem sést á myndinni. Sjá má hvítan vegg út úr gerðinu. Þar sést að grenið er breiðast neðst og mjókkar örlítið upp. Trén fá enn að vaxa að vild upp á við.

Mynd: Sig.A.


Heimildir

Árni Böðvarsson (ritstj. 1978): Íslenzk orðabók handa skólum og almenningi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.

Mörður Árnason (ritstj. 2005): Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Edda.

Ingólfur Davíðsson og Ingimar Óskarsson (1981) Garðagróður. Aðallega í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri. Ísafoldarprentsmiðja H.F. Reykjavík.

Munnlegar heimildir

Brynjólfur Þorvarðarson: Munnleg heimild 31.08. 2022

Gunnar Þórólfsson: Munnleg heimild 10.08. 2022

Hafsteinn Hafliðason: Munnleg heimild 09.08. 2022

Jóhanna Gunnlaugsdóttir: Munnleg heimild 09.08. 2022


Netheimildir

Facebook. Umræður á nokkrum síðum um orðið hekk.

Föryoa kunngerðarsavn (1949). Í: Tímarit.is; https://timarit.is/page/936371?iabr=on#page/n33/mode/2up/search/hegn

Timarit.is var einnig notaða til að finna dæmi um hekkklippur og limgerðisklippur. Verr gekk að nota þann ágæta vef til að finna dæmi um muninn á orðumum limgerði og hekk, því þá komu upp ótal dæmi um sögnina að hanga í þátíð.729 views0 comments

Recent Posts

See All

Kommentare


bottom of page