top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Kasjúhnetutré og hin lygilega líffræði þeirra

Updated: Jan 2

Kasjúhnetur eru bragðgóðar. Um það ættum við öll að geta verið sammála. Þær má borða sem einskonar snakk eða nota í eldamennsku, einkum í asískri matargerð. Hvaðan koma þessar hnetur og á hvernig trjám vaxa þær? Af hverju eru þær dýrari en flestar aðrar hnetur og hver er saga þeirra? Þessum spurningum reynum við að svara í þessum pistli. Við nefnum líka fleiri atriði sem tengjast tegundinni eins og lesandinn getur sannfærst um. Við byrjum samt á því að skoða hina einkennilegu líffræði sem tengist fjölgun tegundarinnar.


Kasjúhnetur neðan á svokölluðum kasjúeplum. Myndin fengin héðan. Mynd: Colleen Ballinge.


Villtar kasjúhnetur

Villt kasjúhnetutré er að finna í hitabeltinu í Suður-Ameríku, nánar tiltekið í strandhéruðum í norðurhluta Brasilíu. Þar vex það sem sígrænt tré sem getur orðið allt að 14 metrar á hæð sem á þessum slóðum telst miðlungshátt tré. Colin Tudge (2005) segir í sinni bók að kasjúhnetutré þrífist best við heldur þurrari skilyrði en flest önnur ávaxta- og hnetutré í hitabeltinu. Lýsingar á þessu tré eru ekki sérlega glæsilegar. Það hefur kræklóttar greinar og ójafna krónu og leðurkennd blöð. Breidd krónunnar getur orðið allt að tvöfaldri hæð trésins. Þessi lýsing er ekkert sérstaklega sexý enda er tréð á engan hátt glæsilegt eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Það sem gerir þetta tré merkilegt og ólíkt flestum öðrum trjám sem við þekkjum er hvernig það fjölgar sér.

Kasjúhnetutré eru oft frjálslega vaxin og þykja ekkert sérstakt augnayndi en fegurð er afstæð. Þessi mynd fylgir hlaðvarpsþættinum My Favorite Treess sem er aðalheimild þessa pistils.


Almennt um blómgun

Segja má að fjölgun lífvera sé að jafnaði töluvert flókið fyrirbæri. Það á líka við um tré. Svo má minna á að ekkert í heiminum er svo einfalt að ekki megi flækja það með skýringum. Almennt má segja að æxlunarfæri blóma séu annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Karlkyns æxlunarfæri framleiða frjó sem berast þarf á fræni kvenblómanna svo frjóvgun geti orðið. Það er samt ekki svo að öll tré séu annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Öðru nær. Hjá sumum ættum trjáa er það samt þannig. Má nefna víði og ösp sem dæmi. Hjá þeim er það þannig að trén eru annað hvort karlkyns (og framleiða karlkyns blóm) eða kvenkyns (og framleiða kvenkyns blóm). Þetta er samt ekki án undantekninga frekar en hjá mannfólkinu. Svo eru það tegundir þar sem hvert tré er af báðum kynjum. Sum þeirra, eins og birki, framleiða bæði karlkyns og kvenkyns blóm. Þá þarf stundum flóknar aðferðir til að koma í veg fyrir sjálffrjóvgun. Svo eru til tré sem framleiða blóm sem eru tvíkynja. Hvert blóm myndar þá bæði karlkyns og kvenkyns æxlunarfæri. Einnig er þekkt að sum tré hafa skipt um kyn. Þau hafa karlkyns æxlunarfæri framan af ævinni en hætta því svo (stundum eftir eitthvert áfall) og fara að framleiða kvenkyns æxlunarfæri. Þetta getur einnig verið í hina áttina. Að auki má nefna að til eru tegundir sem mynda fræ án undangenginnar frjóvgunar. Það þekkist til dæmis hjá sumum reynitrjám. Um þetta höfum við allt saman fjallað áður og þetta mun halda áfram að koma fram í pistlum okkar. Það er víðar en hjá okkur mannfólkinu sem kyn og kynvitund getur verið flókið fyrirbæri. Hvernig ætli þessu sé háttað hjá kasjúhnetutrjám?


Mynd sem sýnir helstu einkenni kasjúhnetutrjáa er fengin héðan úr grein eftir Georgette Kilgore.


Blómgun kasjúhnetutrjáa

Hjá kasjúhnetunum hefst þetta með mjög mörgum en fremur smáum blómum. Þau mynda ax eða hálfsveip sem getur orðið hátt í 30 cm á lengd. Blómin eru í fyrstu grænleit og vekja ekki mikla athygli. Þau verða síðan rjómahvít og stundum með bleika eða jafnvel rauða tóna í krónublöðunum. Krónublöðin eru fimm á hverju blómi. Þau eru lítil og grönn og verða aðeins 7 til 15 millimetrar að lengd. Hvert tré myndar ótrúlegan fjölda af blómum. Mörg hundruð blóm ef ekki þúsundir blóma birtast í hverju axi. Um það bil 96% hinna mörgu blóma sem hvert kasjúhnetutré framleiðir er karlkyns. Þau fjögur prósent sem eftir eru skiptast svo í tvennt. Annars vegar eru það blóm sem eru bæði karlkyns og kvenkyns og svo hins vegar þau sem bera eingöngu kvenkyns æxlunarfæri. Með öðrum orðum: Kasjúhnetutré framleiða þrjár gerðir blóma. Langflest eru karlkyns en sum eru kvenkyns og önnur tvíkynja. Það eru aðeins um fjögur prósent blómanna sem fræðilega geta framleitt hnetur. Samt er það svo að aðeins eitt af hverjum 10 kven- og samkynja blómum frjóvgast og myndar hnetur. Það eru því aðeins um 0,4% blómanna sem mynda fræ. Eins gott að blómin eru mörg! Það eru þessi fræ sem við köllum hnetur og bragðast svona ljómandi vel. Ýmsar tegundir skordýra sækja í blómin og geta borið frjó á milli þeirra en einnig er talið að vindfrjóvgun eigi sér stað. Hvoru tveggja reyndar með ákaflega litlum árangri ef við miðum við hlutfall blóma sem bera hnetur. Þetta er samt ekki það undarlegasta við fræframleiðsluna.


Mynd frá The World Flora Online sem sýnir blóm kasjúhnetutrésins. Mynd: © Rodolfo Vásquez.

Kasjúepli

Það fyrsta sem bendir til að frjóvgun hafi tekist er að þá myndast grænt aldin sem lítur út eins og nýrnabaun. Þetta er hið eiginlega aldin trésins og inni í því er það sem við köllum kasjúhnetu. Þegar hér er komið við sögu gerist undrið. Blómbotninn þrútnar og efri hluti aldinsins fer að vaxa og stækka og myndar það sem kallað er kasjúepli. Það er þó töluvert líkara papriku eða peru en epli, en látum það liggja á milli hluta. Kasjúepli geta verið litskrúðug. Þau eru græn í fyrstu en geta orðið rauð, gul eða borið lit sem er blanda þeirra lita. Neðan úr þeim hanga kasjúhneturnar í fræhúsi sínu, eitt fræ undir hverju epli. Ef þið farið inn í frumskóga Amazon og sjáið eitthvað sem lítur út eins og nýrnabaun sem hangir neðan í litskrúðugri papriku hafið þið rambað á kasjúhentutré.


Óþroskaðar hnetur og aldin. Ekkert bólar enn á kasjúeplunum. Myndin er úr grein eftir Vilmund Hansen (2020).

Ef við berum þetta saman við venjuleg epli er þetta svipað og að fræin væru ekki inni í eplakjarnanum heldur héngu þau neðan í eplinu. Ekki er í fljótu bragði hægt að sjá hvaða hlutverki sjálft kasjúeplið gegnir eða hvaða þróunarfræðilegi ávinningur getur verið fólgin í þessu fyrir tréð, en þetta virkar og þannig er það. Má vera að ávinningurinn sé enginn en þróunin svo sem enginn dragbítur heldur. Þannig hefur þetta furðufyrirbæri ef til vill náð að halda velli. Oftast nær gegnir svona þróun þó einhverju hlutverki við að dreifa fræjunum eða vernda þau. Litur þeirra gerir þau áberandi sem getur laðað að dýr sem éta ávöxtinn. Hvernig það gagnast fræinu er óljóst, enda er það ekki inni í ávextinum. Samt verður að telja líklegt, samkvæmt Tudge (2005) að þessir áberandi litir eigi að laða að einhver dýr. Kasjúeplin eru æt en rotna hratt þegar þau falla af kasjúhentutrénu. Þau endast varla nema örfáa daga. Því eru þau aldrei á boðstólum í verslunum á okkar breiddargráðum. Aftur á móti er hægt að vinna úr þeim áfengi og það er stundum selt á norðlægum slóðum. Helst er það drykkur sem nefndur er kaju sem bruggaður er úr kasjúeplum. Sums staðar, þar sem hneturnar eru ræktaðar, er ávextinum samt einfaldlega hent. Ef til vill gegnir þessi skjóta rotnun kasjúeplanna einhverju hlutverki til að auðvelda hnetunum að spíra og vaxa, en það er hulið okkur mörlandanum.

Kasjúepli á markaði. Myndin fengin frá The World Flora Online en hana tók Barry Hammel.

Ættfræði

Fræðiheiti kasjúhnetutrésins er Anacardium occidentale L. Viðurnefnið occidentale vísar í það að tréð vex á vesturhveli jarðar. Nánar tiltekið í Brasilíu. Ættkvíslarheitið Anacardium er úr grísku. Ana þýðir að vísa upp á við eða vera utan við en gardium merkir hjarta. Þetta heiti vísar í fræmyndunina þar sem fræið er utan við belginn eða ávöxtinn eins og við reyndum að lýsa hér ofar. Innan ættkvíslarinnar eru um 20 tegundir en þetta er sú eina sem framleiðir kasjúhnetur. Fáeinar aðrar eru samt nýttar til matar og lækninga. Má þar nefna A. humile og A. rhinocarpuss. Nokkrar fleiri tegundir eru nytjaðar. A. giganteum er ræktuð til viðarframleiðslu og A. excelsum til að veita kaffiplöntum skjól. Að auki þykir A. spruceanum fallegt skrauttré (Vilmundur Hansen, 2020).

Ættkvíslin Anacardium L. er aðalættkvísl sinnar ættar. Ættin heitir Anacardiaceae eftir þessari ættkvísl. Nafnið þykir henta prýðilega á alla ættina því seinni hluti nafnsins er dregið af gríska orðinu gardium. Eins og áður greinir merkir það hjarta og samkvæmt Wells (2010) er algengt að aldin innan ættarinnar séu hjartalaga. Við sjáum samt ekki að kasjúhnetur geti fyllt þann flokk.

Innan Anacardiaceae ættarinnar eru allskonar tré og vafningsplöntur. Má þar nefna pistasíur, mangó og eiturfléttu, Toxicodendron radicans, sem margir þekkja undir enska heitinu poison ivy.



Kasjúhnetur eru bæði hollar og næringarríkar. Þær innihalda 45% fitu og 20% prótín (Tudge, 2005). Myndin fengin héðan.


Varnarefni

Innan ættarinnar Anacardiaceae, sem ættkvíslin Anacardium tilheyrir eru fjölmargar ættkvíslir og tegundir sem margar hverjar verja sig með eitri sem kallast urushiol. Kasjúhnetur eru þar ekki undantekning en eiturfléttan, sem nefnd er hér að ofan, er sennilega frægust þessara eiturplantna. Fræskurnin utan um fræið eða hnetuna hjá kasjúhnetum er olíurík og inniheldur þetta eiturefni sem eru mjög ertandi. Fræin eru samt ekki talin mjög eitruð en geta valdið ofnæmisviðbrögðum og eru hættuleg í miklu magni. Urushiol getur valdið bruna, kláða og blöðrum á húð. Reyndar framleiðir allt tré þetta efni en mest er af því í fræskurninni og í þunnri himnu sem er undir henni. Þetta hefur áhrif á hvernig kasjúhnetur eru meðhöndlaðar. Það þarf að losna við þessar eiturgufur úr olíunni áður en hneturnar eru borðaðar og fjarlægja þarf himnuna undir skurninni. Þess vegna eru kasjúhnetur aldrei seldar í búðum með skurn eins og stundum má sjá hjá öðrum hnetum á markaði. Þess má geta að samkvæmt Tudge (2005) er þessi olía í hnetuskurninni notuð í ýmsum iðnaði.

Óafhýddar kasjúhnetur. Myndin úr grein eftir Vilmund Hansen (2020).


Fyrstu kynni Evrópubúa

Þegar portúgalskir og franskir landkönnuðir þvældust um strandhéruð norðurhluta Brasilíu rákust þeir á þessi tré með þessa furðuávexti. Mun það hafa verið á sjötta áratug sextándu aldar eða skömmu eftir að Íslendingar skiptu um sið og hjuggu hausinn af Jóni Arasyni. Frumbyggjar á svæðinu, af ætt Tupía kenndu bleiknefjunum hvernig nýta mætti þessar hnetur. Tupíar eru ekki ein þjóð, heldur margar þjóðir sem tala skyld tungumál. Þessi tiltekna þjóð hefur sjálfsagt haft sérstakt heiti en það er týnt fyrir mörgum öldum. Sagan segir að þessir frumbyggjar hafi lært að brjóta hneturnar með steinum líkt og villtir Capuchin-apar gera enn í skógunum. Þetta kenndu þeir Portúgölunum sem fram að því létu kasjúhnetur í friði.


Kræklótt kasjúhnetutré. Myndin er úr grein eftir Vilmund Hansen (2020).


Hinir innfæddu frumbyggjar kölluðu hneturnar acajú eða eitthvað álíka. Mun það almennt hafa verið notað um hnetur samkvæmt þessari heimild en í grein Vilmundur Hansen (2020) segir að á máli þeirra merki acajú „hnetan sem vex af sjálfu sér“. Portúgalarnir tóku orðið beint upp en gátu ekki alveg munað orðið og slepptu fyrsta atkvæðinu og kölluðu þær cajú. Þaðan rataði orðið í ensku sem cashew. Kasjúhneta merkir því hnetuhneta. Svona nöfn, þar sem fyrri og seinni liður merkja það sama, finnast þó víðar ef að er gáð. Má nefna salsasósu sem dæmi og ýmiss íslensk örnefni eins og Ásfjall, Haugahóla, Vatnskarðsvatn og fleiri. Þjóð þessi, sem kenndi Evrópubúum að meta kasjúhnetu, er nú horfin af yfirborði jarðar. Portúgalir stálu mörgum og settu þá í þrældóm, drápu suma og sjúkdómar, sem Evrópubúar báru með sér, útrýmdi stærstum hluta þeirra. Þeir fáu sem lifðu af sameinuðust öðrum hópum frumbyggja á svæðinu. Ekkert er eftir af menningu þessarar útdauðu þjóðar, nema orðið sem þeir notuðu yfir hnetur. Allt annað er að eilífu gleymt. Gaman væri að þekkja sögur þeirra um kasjúhneturnar, en þær hafa ekki varðveist frekar en annað úr menningu þeirra.

Þess ber þó að halda til haga að þótt þessi þjóð sé útdauð töluðu þeir tungu sem var náskyld öðrum tungumálum á svæðinu. Ganga þau tungumál undir nafninu túpi-mál og má fræðast aðeins um þau hér.

Mörg orð úr þessum tupi-tungumálahópi eru enn lifandi í Brasilíu, einkum sem örnefni.

Í sumum þessara tungumála lifir þetta orð enn yfir hneturnar. Þær þjóðir eiga sér einnig þjóðsögur og sumar þeirra gætu tengst hnetunni okkar.


Mynd úr grein Vilmundur Hansen (2020). Hún sýnir konu af ættflokki Mameluke þjóðarinnar í Andesfjöllum sem stendur undir kasjútré. Myndin er eftir hollenska málarann Albert Eckhout (1610-1665).


Hnetan sem vildi sjá heiminn

Í títtnefndri grein Vilmundar (2020) segir hann eina þjóðsögu sem tengist þessu aldini. Því miður kemur ekki fram hvort hún er ættuð frá frumbyggjum Suður-Ameríku eða hvort hún hefur orðið til í Asíu eftir að hnetan var flutt þangað. Hvort heldur sem er, þá gefur þessi saga grein Vilmundar nafn og má sjá það í fyrirsögn þessa kafla. Sagan er svona:

Samkvæmt gamalli þjóðtrú þroskuðust kasjúhnetur áður alfarið inni í kasjúeplinu. Fræ eitt sem gat heyrt í fuglunum fljúga milli trjánna, árniðinn, söng skordýranna og mál trjánna óskaði þess heitast af öllu að fá að sjá heiminn utan við aldinið. Skógarandi sem heyrði óskina lét hana rætast og allt frá þeim tíma hefur hnetan vaxið hálf utan við aldinið og notið útsýnisins.“


Mynd af kasjúeplum úr grein Vilmundur Hansen (2020). Þarna geta hneturnar skoðað heiminn. Leifar fjölmargra blóma sem aldrei urðu að hnetum, sjást á myndinni.


Ræktun

Strax upp úr miðri 16. öld fóru Portúgalar að flytja kasjúhnetutré til annarra landa og rækta hneturnar þar. Einkum fluttu þeir þær til Suðaustur-Asíu. Á okkar dögum eru þær mest ræktaðar þar. Fyrst fluttu þeir þær til Góa á Indlandi og eru þær enn í miklum hávegum á þeim slóðum. Eins og svo algengt er með ræktuð afbrigði plantna eru hinar ræktuðu kasjúhnetur í Asíu töluvert frábrugðnar villtum tegundum í Suður-Ameríku. Stærsti munurinn er sá að hin ræktuðu afbrigði trjánna eru miklu lægri. Þau eru einskonar dvergafbrigði sem verða ekki hærri en um sex metrar. Það auðveldar alla umhirðu. Að auki blómgast hin ræktuðu afbrigði fyrr. Villt kasjúhnetutré byrja að blómstra þegar þau eru um þriggja ára og fara að framleiða hnetur þegar þau eru orðin um 8 ára gamlar. Hinar ræktuðu, asísku dvergafbrigði byrja að blómstra strax á öðru ári og mynda hnetur þriggja ára. Það munar um minna. Þau yrki sem gefa mest af sér geta gefið allt upp í eitt tonn af hnetum á hvern hektara.

Nú hafa kasjúhnetur verið ræktaðar í Indlandi í hátt í 450 ár og þykja ómissandi í indverskri matargerð. Einnig eru þær vinsælar í pakistönskum, taílenskum og kínverskum réttum. Að vísu eru þær ættaðar frá Suður-Ameríku en það skiptir ekki máli. Chillipipar er líka ættaður frá Suður-Ameríku og er alveg jafn ómissandi í asískri matargerð. Þetta er sambærilegt við hinar suður-amerísku kartöflur sem eru ómissandi í íslenskum réttum. Löngu síðar voru kasjúhnetutré einnig flutt til Afríku og eru ræktuð þar núna í mörgum löndum. Samkvæmt grein Vilmundar Hansen (2020) var áætlum heimsframleiðsla á kasjú­hnetum án hýðis árið 2017 tæpar fjórar milljónir tonna. Meðfylgjandi tafla byggir á upplýsingum úr þeirri grein og sýnir hvar framleiðslan er mest.


Aðrar þjóðir sem framleiða mikið eru Afríkuríkin Benín, Grænhöfðaeyjar, Gínea Bissá, Tansanía og Mósambík. Svo er auðvitað töluvert framleitt í Brasilíu. Byggt á: Vilmundur Hansen (2020). Til að setja þetta í eitthvert samhengi má geta þess að þetta sama ár var útflutningur frá Íslandi á þorski 120 þúsund tonn samkvæmt Hagstofu Íslands.



Uppskera og meðferð

Það getur valdið ákveðnum vandræðum að hneturnar framleiða eitruð varnarefni. Það veldur samt engum vandræðum við að hirða hneturnar. Þær falla af trjánum með kasjúeplunum þegar þau hafa náð fullum þroska. Þá eru þau einfaldlega tekin upp ásamt hnetunum sem hanga neðan á þeim. Síðan eru hneturnar teknar af eplunum og þau annaðhvort borðuð eða bruggað úr þeim áfengi. Þau eru einnig nýtt til sultugerðar af heimamönnum og stundum einfaldlega hent. Hér er grein sem segir frá því hvernig þetta fer fram og hversu mikið hvert tré getur gefið.


Verkakona að tína kasjúepli. Myndin fengin úr þessari grein en ekki kemur fram hver tók myndina.

Þá kemur að hnetunum.

Það þarf að taka þær af ávextinum og síðan er sólin látin þurrka þær. Við það losnar um eitthvað af varnarefnunum og þau gufa upp í hitanum. Síðan er skelin brotin af hnetunum. Er það talið hættulegasta verkefnið því án hlífðarfatnaðar anda verkamennirnir að sér eitruðum gufunum og olían loðir við fingurna og getur valdið ertingu, bruna og blöðrum. Ætlast er til að hver verkamaður brjóti skeljar utan af 20 kílóum af hnetum á dag. Síðan eru hneturnar ristaðar og þá gufar megnið af hinum eitruðu og ertandi varnarefni upp. Síðan þarf að fjarlægja þunna himnu sem umlykur fræin enda inniheldur hún líka þessi ertandi efni. Það þarf alltaf að gera í höndunum og kemur í veg fyrir ertingu og jafnvel bruna í hálsi þegar þær eru borðaðar. Ef efnin í himnunni vekja ofnæmisviðbrögð að auki, eins og þekkt er hjá mörgum, þá er beinlínis hættulegt að borða hneturnar ef himnan hefur ekki verið fjarlægð. Þegar öllu þessu er lokið eru hneturnar tilbúnar til átu. Ferlið er langt og mannaflsfrekt og ræður miklu um það af hverju kasjúhnetur eru almennt dýrari en flestar aðrar hnetur.

Ef þetta ferli er gert í litlum mæli hefur það ekki tiltakanleg áhrif á þá sem vinna vinnuna. Aftur á móti verða verkamenn fyrir töluverðri eitrun þegar þetta er gert í miklu magni. Mætti líkja þessu við brennisteinsvinnslu. Vel má vinna lítið magn af brennisteini með eimingu án þess að verða fyrir skaða, en í stórfelldri vinnslu er það hættulegt og krefst sérhæfs varnarbúnaðar.

Þótt hægt sé að vélvæða hluta vinnslunnar á kasjúhnetum er mest af vinnunni unnið með höndunum við hræðilegar aðstæður og oft án hlífðarfatnaðar. Myndirnar fengnar héðan þar sem talað er um blóðkasjúhnetur í þessu sambandi.

Þetta er það sem fátækir verkamenn í Asíu og Afríku þurfa að þola. Oft eru það börn og konur á nánast engum launum. Auðvitað er hægt að útvega verkamönnunum heppilegan varnarútbúnað en það er sjaldan gert, enda eykur það kostnaðinn við vinnsluna. Sums staðar hafa menn tekið upp á því að vélvæða vinnsluna sem veldur mun minna heilsutjóni en það skilar líka minni hagnaði svo hitt er miklu algengara. Mestum hagnaði skilar framleiðslan þar sem barnaþrælkun viðgengst. Þá er launakostnaður mjög lítill.

Ef þið rekist á óvenjuódýrar hnetur má oftast slá því föstu að aðbúnaður og laun verkamanna eiga þar stóran þátt. Því miður er það svo að þótt hneturnar séu seldar dýrt er það engin trygging fyrir því að betur sé komið fram við verkamennina. Verst er ástandið við vinnsluna talið vera í Víetnam. Það land er stærsti framleiðandi af kasjúhnetum í heiminum eins og sést í töflu hér ofar. Hið tiltölulega lága verð stafar fyrst og fremst af lélegum aðbúnaði verkamanna og lágum launum.


Enn ein myndin úr grein Vilmundar (2020). Undir henni stendur: „Uppskera og vinnsla á kasjúhnetum í heiminum tengist víða barnaþrælkun og ömurlegum vinnuaðstæðum.“ Hér er væntanlega verið að sólþurrka hneturnar og tína úr þeim rusl sem kann að hafa fylgt. Þið munið að við sólþurrkunina losnar um hin ertandi varnarefni í skeljunum.


Af innfluttum kasjúhnetum á Íslandi kemur stærsti hlutinn frá Víetnam, þar sem aðstæður verkamannanna eru hvað verstar. Mest er borðað af kasjúhnetum í Bandaríkjum Norður-Ameríku og langmest er þar flutt inn frá Víetnam, rétt eins og á Íslandi.


Tré í fullum blóma. Kræklóttar greinarnar sjást vel. Myndin fengin héðan en hana á Romilsondequeiroz.

Heimildir:


Thomas Spade (2023): The Cashew Tree. Hlaðvarpsþáttur frá 3. október 2023 úr þáttaröðinni My Favorite Treess. Sótt 8.11. 2023. Sjá: Episode 86: The Cashew Tree – My Favorite Trees (mftpodcast.com).


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.

Vilmundur Hansen (2020): Kasjúhnetan sem vildi skoða heiminn. Í Bændablaðið, 25. febrúar 2020. Sótt 9.11.2023. Sjá: Kasjúhnetan sem vildi skoða heiminn - Bændablaðið (bbl.is)


Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Í aðrar heimildir er vísað beint í texta þar sem við á.

226 views0 comments

Commentaires


bottom of page