Í fyrri pistli okkar um skóga Alaska fjölluðum við um þann mikla fjölda tegunda sem þar er að finna og hafa reynst okkur vel á Íslandi. Í þessum pistli beinum við sjónum okkar að tveimur megingerðum skóga í Alaska. Annars vegar eru það skógar sem vaxa nærri ströndum ríkisins og hins vegar skógar sem vaxa inn til landsins. Eins og kunnugt er breytist veðrið töluvert frá ströndum og inn til meginlandsins. Það hefur auðvitað áhrif á þann gróður sem þar vex.
Strandskógar
Færa má rök fyrir því að strandskógarnir í suðaustur hluta Alaska séu regnskógar. Þar er milt loftslag og mikil úrkoma. Helstu og stærstu skógar svæðisins eru blandskógar sitkagrenis og marþalla. Þessir skógar teygja sig yfir tiltölulega mjótt belti yfir 1440 km að lengd með ströndum Alaska. Slíkir einkennisskógar vaxa einnig sunnan landamæranna í Bresku Kólumbíu í Kanada og í Washington og Oregon í Bandaríkjunum. Í Alaska vaxa þeir allt frá ströndum og upp í um 460 metra hæð. Ofan þeirrar hæðarlínu vaxa samt stök tré af þessum tegundum upp að trjálínu sem er upp í rúmlega 900 metra hæð í suðurhluta Alaska. Eftir því sem norðar dregur færist trjálínan nær sjávarmáli. Sums staðar mynda skógar bara mjótt belti við ströndina en ofan og norðan þeirra eru trjálausar freðmýrar, há fjöll og skriðjöklar.
Oft er mikill mosi í skógarbotnum strandskóganna eins og hér í The Tongass National Forest. Myndin er fengin héðan úr grein eftir Kerrie Flanagan.
Sumarveðrið í þessum skógum er svalt og rakt. Sólskinsdagar eru að jafnaði fáir. Veturnir eru mildir en sums staðar getur snjóað mjög mikið. Einkum norðan til. Samt sem áður fellur úrkoman fyrst og fremst sem regn í þessum skógum. Svona skógar þrífast á svæði þar sem ársmeðaltalsúrkoman er á bilinu 5.640 mm og niður í um 630 mm þar sem meginlandsskógarnir taka við.
Meðalársúrkoma á Íslandi árin 1961-1990. Flest svæði landsins eru með álíka mikla úrkomu og strandskógarnir í Alaska. Óhætt er að fullyrða að það er ekki vegna skorts á rigningu að Ísland er ekki skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Myndin er frá Veðurstofu Íslands.
Útbreiðsla sitkagrenis. Eins og sjá má vex það hvergi fjærri ströndum. Því segir útbreiðsla þess töluvert til um hvar strandskógarnir eru. Svo tekur hvítgreni við. Mikið genaflæði er á milli tegundina þar sem útbreiðslan skarast. Mynd: Plantmaps.com
Aðaltrjátegundirnar, einkum syðst, eru sitkagreni, Picea sitchensis, og marþöll, Tsuga heterophilla, en sums staðar er töluvert af fjallaþöll, T. mertensiana. Aðrar tegundir eru meðal annars fagursýprus, Chamaecyparis lawsoniana, og ryðelri, Alnus rubra, sem einkum vex meðfram ám og á röskuðum svæðum. Svo vex þarna hin vel kunna alaskaösp, Populus balsamifera ssp. trichocarpa. Meðal runna má nefna sitkaelri, Alnus viridis ssp. sinuata og marga aðra sem gjarnan finnast í görðum á Íslandi. Öll hæstu tré Alaska eru í strandskógunum í suðaustur hluta ríkisins.
Þessi rekaviður í Washingtonríki segir töluvert um stærð trjáa í strandskógum í norðaustur hluta Ameríku. Myndin fengin frá Facebooksíðu Ancient Forests & Champion Trees.
Lake Clark
Við tökum hér eitt dæmi um strandskóga og nefnum sérstaklega til sögunnar Lake Clark National Park & Preserve. Garðurinn er suðvestan við höfuðstað Alaska, Anchorage og vestan við Homer. Frá Homer höfum við fengið grenifræ eins og margir þekkja. Við birtum hér myndir sem eru hluti af þeim 10 myndum sem verðlaunaðar voru í ljósmyndakeppni. Þær voru teknar árið 2022 og er að finna á Facebooksíðu þjóðgarðsins. Hægt er að smella á myndirnar til að skoða þær betur.
Innlandsskógar
Þegar fjær kemur frá ströndinni dregur úr úrkomu og meiri munur verður milli vetrarkuldanna og hlýinda sumarsins. Sums staðar fer frostið niður fyrir -40°C á veturna og upp í rúmlega 30°C hlýindi á sumrin. Víða eru skógi vaxnar freðmýrar þar sem aðeins efsta lag sífrerans þiðnar á sumrin. Það leiðir til þess að vatn getur ekki sigið í jarðveginn. Sum svæði eru því mjög blaut á sumrin. Algengt er að alhvít jörð sé víða á svæðinu frá miðjum október og fram í apríl. Alla tíð hafa skógareldar verið hluti af hringrásinni í meginlandsskógunum þegar sumrin eru óvenjuþurr.
Laufskógar hafa hér numið land eftir skógarelda. Smám saman mun hvítgrenið verða meira áberandi. Myndin fengin úr grein sem ber nafnið: Rising from the ashes, Alaska’s forests come back stronger og má finna hér. Myndina á Nathanael Johnson.
Við þessar aðstæður vaxa önnur tré sem aðaltré en finna má nær ströndinni. Þarna eru mjög stórir hvítgreniskógar og blandskógar hvítgrenis, Picea glauca og næfurbirkis, Betula papyrifera. Þessir skógar halda áfram í Kanada og alla leið yfir þvera heimsálfuna til Atlandshafs. Þegar flogið er yfir skóganna blasir við einskonar mósaík mynstur sem stafar af misblautum jarðvegi, frosti í jarðvegi, legu við sólu og hversu langt er síðan skógareldar geisuðu á hverju svæði fyrir sig. Að jafnaði eru tvær eða fleiri tegundir á hverjum stað en skógarnir eru skilgreindir eftir ríkjandi tegund á hverju svæði. Algengast er að það sé hvítgreni. Þar sem úrkoman er minni inn til landsins eru meginlandsskógarnir sjaldnast eins þéttir og strandskógarnir. Það leiðir til þess að allskonar runnar eru algengari og meira áberandi en í þéttum regnskógum við ströndina. Hin síðari ár hafa hamfarahlýindi gert það að verkum að skógarnir sækja norður á þau svæði sem áður voru túndrur en sífrerinn hefur minnkað. Hamfarahlýindin eiga einnig stóran þátt í auknum skógareldum eins og við þekkjum úr fréttum.
Í fjarska sést hæsta fjall Norður-Ameríku sem einmitt er í Alaska. Nú er það oftast nefnt Denali en hét áður Mount McKinley. Það er 6.190 m á hæð. Mynd: Ari Egilsson.
Þroskaðir meginlandsskógar
Hvítgreniskógar eru einkennandi fyrir stór svæði. Best vex hvítgreni á fremur þurrum og hlýjum stöðum sem liggja vel við sólu. Skógarnir eru hvorki eins algengir né glæsilegir ef sífreri er í jörðu. Svæði án frerans og svæði þar sem árnar eiga auðvelt með að taka við umfram vatni eru mjög heppileg. Með aldri eykur hvítgrenið smám saman hlutdeild sína í svona skógum. Þar sem skógareldar hafa ekki logað í eina eða tvær aldir aukast líkurnar mikið á því að hvítgrenið myndi samfellda skóga. Árið 1972 er talið að hvítgreniskógar í Alaska hafi þakið meira en fimm milljón hektara í meginlandsskógunum. Helstu tré í þessum skógum eru auðvitað hvítgrenið en með því vex oft næfurbirki og balsamösp, Populus balsamifera. Fjölmargir runnar vaxa í skógunum, einkum ungum skógum. Meðal þeirra er alaskavíðirinn, Salix alaxensis, sem við þekkjum svo vel.
Útbreiðsla hvítgrenis (að ofan) og svartgrenis (að neðan) skarast mikið. Útbreiðsla þeirra segir okkur hvar meginlandsskógar vaxa nyrst í Ameríku, en báðar tegundirnar vaxa allt til sjávar við Atlantshaf. Fyrir norðan skóganna eru fyrst og fremst freðmýrar án skóga. Myndir: Plantmaps.com.
Skógar í kjölfar skógarelda
Þar sem skógareldar leika reglulega um stór svæði hefur það auðvitað mikil áhrif á útlit skóganna. Hvaða tré koma fyrst í kjölfar skógarelda ræðst meðal annars af fræframboði. Svo þroskast skógarnir smám saman og breytast uns þeir fara að líkjast skógunum sem nefndir voru hér að ofan. Algengast er að fyrst verði allskonar runnar mest áberandi sem sumir hafa verið reyndir á Íslandi. Þar á meðal eru amerískar elritegundir og fjölbreyttar víðitegundir. Svo breytast skógarnir með auknum aldri. Hér er þeim raðað eftir því hversu algengir þeir eru á röskuðum svæðum.
Skógareldar í Alaska. Myndin fengin héðan úr grein eftir Megan Darby.
Algengastir eru nöturasparskógar, Populus tremuloides. Aspirnar eru náskyldar íslensku blæöspinni, P. tremula og geta sett mikil rótarskot. Þær geta því orðið mjög áberandi í um 60-80 ár. Þá tekur hvítgrenið vanalega við. Ef aðstæður henta hvítgreninu illa getur svartgreni, Picea mariana, náð yfirhöndinni.
Blandskógur í Alaska. Myndin fengin héðan.
Ef nægilegt fræ er af næfurbjörk getur sú tegund myndað skóga í kjölfar skógarelda. Atburðarrásin verður svipuð og í ofangreindum asparskógum. Algengastir eru þeir í hlíðum er snúa í austur eða vestur. Þar er hvorki of lítil né of mikil birta fyrir birkið. Oft eru birkiskógarnir einráðir um tíma en hvítgrenið og svartgreni sækir í þá smám saman. Stundum verða þó birkilundir til langframa í greniskógunum. Báðar aspartegundirnar, nöturösp og balsamösp, Populus balsamifera, geta líka sést í þessum skógum. Næfurbjörkin getur myndað skóga sem verða 18-24 metrar á hæð, en því miður virðist það sjaldan ná góðum þroska á Íslandi. Þar ræður mestu að ljóslotan er allt önnur á Íslandi en Alaska þótt veðurfarið geti verið sambærilegt.
Næfirbjörk, Betula papyrifera. Myndin fengin héðan.
Þriðju algengustu skógarnir á röskuðum svæðum eru balsamaspaskógar. Balsamösp er náskyld alaskaöspinni sem við þekkjum svo vel en sú síðarnefnda vex nær ströndinni. Skilin milli þeirra eru mjög óglögg, enda er nú almennt talið að þetta sé sama tegundin en sitthvor undirtegundin. Aspirnar ná stundum að spretta upp eftir skógarelda en eru algengari þar sem jöklar hafa hopað eða stórár flætt yfir bakka sína og rutt niður eldri skógi. Á þannig stöðum er ekki óalgengt að sjá 20-30 metra háar aspir. Svo tekur hvítgrenið smám saman við. Við norðurmörk skóganna má stundum finna hreina lundi af balsamösp.
Nú er alaskaösp talin afbrigði balsamaspa og skráð sem Populus balsamifera ssp. trichocarpa. Þessi mynd er frá U.S. Forest Service.
Myndina tók Susan McDougal.
Lægri barrskógar
Til eru svæði inn til landsins þar sem brekkur snúa að mestu við norðri. Við Íslendingar þekkjum vel að sólin fer ekkert sérstaklega hátt á himininn á norðlægum slóðum. Því er lítil birta í þessum skuggahlíðum. Það hefur áhrif á hitastig, frost í jörðu og ljóstillífun. Á svona stöðum vex oftast svartgreni enda þolir það betur frost á vaxtartíma en annað greni. Það vex hægar en hvítgrenið og oftast eru svartgreniskógarnir fremur gisnir. Oft er þykkt mosateppi á þessum slóðum og ekki auðvelt fyrir fræ að spíra í því. Það hefur leitt til þess að svartgreni opnar sjaldan köngla sína nema í kjölfar skógarelda. Þá skapast ljómandi gott set fyrir fræið í volgri öskunni. Með svartgreninu á þessum köldu svæðum má oft finna mýralerki, Larix laricina, en einnig næfurbirki og hvítgreni. Í svarðlaginu má oft finna lágvaxnar víðitegundir sem hér á landi eru ræktaðir til skrauts í görðum. Þegar komið er nærri skógarmörkum í norðri má einnig finna fremur lága barrskóga þótt hlíðarnar snúi ekki endilega í norður.
Lágvaxinn barrskógur og heiðagróður í forgrunni. Myndin fengin héðan.
Samantekt
Á Íslandi höfum við ræktað allskonar tegundir trjáa frá ýmsum heimshlutum þar sem veðurfar svipar til þess sem hér er að finna. Sumar tegundir virðast hafa meira þanþol gegn breytilegu veðurfari en aðrar. Margar tegundir þrífast hér ljómandi vel og auðga lífríki landsins, binda kolefni (sem nýtist í baráttunni gegn hamfarahlýnun) og skapa bæði efnahagsleg og félagsleg verðmæti. Tegundir frá hinum fjölbreyttu skógum Alaska hafa nýst okkur einna best. Vel má ímynda sér að þau svæði landsins, þar sem skógrækt gengur ekki nægilega vel, geti vel alið skóga sem byggjast á efnivið frá Alaska ef leitað er á réttum stöðum. Þar er landslag, loftslag og jarðvegur svo fjölbreytt að lengi má leita tegunda sem henta við misjafnar aðstæður. Framtíðin mun leiða í ljós hvort enn fleiri tegundir eða kvæmi frá þessum fjarlægja heimshluta muni nýtast okkar skóglitla landi. Þegar við plöntum til skóga getur verið heppilegt að kynna sér við hvers konar aðstæður trén, sem við notum, vaxa best og skoðað hvernig skógarnir verða í framtíðinni. Þar eru skógar Alaska ein besta fyrirmyndin.
Strandskógar Alaska. Myndin fengin héðan þar sem sagt er frá því að Biden ætli að endurnýja áætlun um verndun skóga sem Trump hafði aflétt. Myndina tók Stuart Isett fyrir The New York Times.
Heimild
Leslie A. Viereck & Elbert L. Little, Jr. (1972): Alaska Trees sand Shrubs. Agriculture Handbook No. 410. Forest Service. United States Department of Agriculture. Washingron D.C.
Í netheimildir er vísað beint í texta.
Commentaires