Gult er litur páskahátíðarinnar sem nú stendur fyrir dyrum. Því er það svo að fyrir páska er býsna algengt að fólk kaupi svokallaðar páskagreinar sem einmitt bera gul blóm. Því þykir okkur við hæfi að fjalla um páskagreinar sem #TrévikunnarSE. Þetta er frábrugðið flestum öðrum trjám sem við höfum hingað til valið, því þessar páskagreinar eru allar innfluttar. Páskagreinar eru af ættkvíslinni Forsythia. Nafn ættkvíslarinnar heiðrar minningu skoska vísindamannsins William Forsyth (1737-1804) sem var mikill garðyrkjufrömuður á sínum tíma. Þessi ættkvísl hefur stundum verið kölluð gullrunnar á íslensku. Til er um tugur tegunda innan ættkvíslarinnar og hafa þær allar endinguna -gull á íslensku. Algengast er að blómabúðir selji blendingstegund sem kallast Forsythia × intermedia á latínu. Hefur hún verið kölluð páskagull á íslensku og er það einkar viðeigandi. Þetta er blendingur tegundanna góugulls (F. suspensa) og kínagulls (F. viridissima). Allar þessar tegundir bera gul blóm sem birtast fyrir laufgun en það er fyrst og fremst páskagullið sem er flutt inn fyrir páska. Það virðist ekki þrífast utandyra á Íslandi en verður að myndarlegum uppréttum þriggja til fjögra metra háum runnum þar sem það þrífst á annað borð og blómgast árlega um páska á eins og tveggja ára greinum. Gleðilega páska.
Páskagreinar
Updated: Oct 12, 2023
Comments