top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Tré og skógar Alaska

Updated: Feb 24

Stór hluti þeirra trjátegunda sem þrífast hvað best á Íslandi kemur hingað yfir hálfan hnöttinn. Þær vaxa villtar vestast í Norður-Ameríku Það er svo langt í vestri að það má næstum því segja að það sé í austri. Trén eru frá því ríki Bandaríkjanna sem er næst Asíu. Aðeins Beringssundið skilur að þessar heimsálfur. Þetta er 49. ríki Bandaríkjanna og heitir Alaska. Þaðan höfum við meðal annars alaskaösp, alaskavíði, jörfavíði, sitkagreni og stafafuru auk hinnar umdeildu alaskalúpínu. Að auki eru hér fjölmargar aðrar tegundir frá Alaska en sem eru minna ræktaðar en fyrrnefndar tegundir þótt þær þrífist hér með ágætum. Hvernig eru skógarnir á þessum fjarlægu slóðum sem eru heimkynni svo margra plantna sem hér þrífast og prýða landið? Í tveimur pistlum skoðum við þetta aðeins nánar.

Barrskógar og skriðjökull. Í Alaska er mikil náttúrufegurð. Myndin er fengin héðan.


Tré og runnar í Alaska

Árið 1972 var gefin út bók sem lengi var einhvers konar Biblía íslenskra skógræktarmanna. Bókin heitir Alaska Trees sand Shrubs og er eftir Leslie A. Viereck og Elbert L. Little, Jr. Bókin er auðvitað löngu uppseld á Íslandi. Svo vinsæl var hún hér á landi að hún er til í ljósriti á fjölda heimila. Það er ekki nóg með að bókin vekti athygli heldur einnig nafnið á seinni höfundi hennar. Hversu lágvaxinn ætli maður sé sem kallar sjálfan sig Little Junior? Ætli maður með þetta nafn geti orðið langalangafi?


Mynd eftir Ron Niebrugge sem sýnir haust við Snjóá (Snow River) í Chugach National Forest á Kenaiskaga. Mörg tré á Íslandi eru ættuð frá þeim skaga.


Á þessum tíma og lengi síðan hafa tré og runnar frá Alaska verið ákaflega vinsæl hér á landi. Í bókinni eru lýsingar á þeim og kaflar um landshætti. Þeir sem á seinni hluta síðustu aldar létu sér dreyma um vöxtulega skóga á Íslandi lásu þessa bók fyrir svefninn. Enn er þessi bók full af upplýsingum sem fróðleiksþyrstir skógræktarmenn geta drukkið í sig. Bók þessi er aðalheimild þessa greinarkorns um skóga Alaska. Auðvitað hefur þekkingin aukist frá því að bókin var gefin út fyrir hálfri öld. Reynt er að taka tillit til þess þegar við á.


Skógur í Alaska. Myndin fengin hjá Pinterest.


Yfirlit

Í þessum pistli skoðum við fyrst þetta stóra landflæmi sem fært hefur okkur svo margar tegundir sem hér vaxa prýðilega. Við skoðum stærð þess og hnattstöðu. Við veltum aðeins fyrir okkur fjölda tegunda sem þarna er að finna. Hér fyrst og fremst stuðst við bókina Alaska Trees sand Shrubs. Síðan hún kom út hafa orðið nokkrar breytingar á því hvernig við flokkum tegundir. Við nefnum það ef okkur þykir ástæða til. Annars stendur bókin fyllilega fyrir sínu.

Í næsta pistli um skóga Alaska skoðum við hinar tvær dæmigerðu skógargerðir Alaska. Annars vegar strandskóga og hins vegar innlandsskóga. Norðan þeirra taka svo freðmýrarnar við, en þær falla utan við efni pistlanna.

Kort af Alaska, fengið að láni héðan. Flestar þær plöntur sem vaxa hvað best á Íslandi eru fengnar frá „pönnuskaftinu“ í suðaustur hlutanum.


Staðhættir

Stundum er því réttilega haldið fram að Ísland sé land andstæðna. Sú lýsing á ekki síður við um Alaska, enda er ríkið mjög stórt. Það er talið vera um 146 milljón hektarar að stærð. Þar af eru um 48 milljón hektara skógi vaxnir. Innan ríkisins er hæsta fjall Norður-Ameríku en einnig þúsundir hektara af flötum, blautum fenjum og mýrum. Landflæmið hefur að sjálfsögðu fjölbreytt loftslag. Í suðaustur hluta ríkisins er milt, rakt strandloftslag sem hentar trjágróðri einstaklega vel. Nyrst í ríkinu er of kalt fyrir tré til að ná nokkrum þroska.


Þegar komið er nægilega langt í norður hverfa skógar Alaska. Þessi mynd er fengin héðan þar sem fjallað er um ferðalög um norðurhluta Alaska.


Á freðmýrunum í norðurhlutanum er loftslagið þurrt og kalt. Öll millistig eru til. Inn til landsins getur hitastig milli heitasta og kaldasta mánaðar verið 83°C en munurinn er miklu minni nær ströndinni. Vegalengdin frá norðri til suðurs er um 2100 km en frá austri til vesturs um 3.500 km. Allar þessar tölur er að finna í bókinni Alaska Trees sand Shrubs.

Forsíðumynd Facebookhópsins Áhugafólk um Alaska og vesturhluta Norður-Ameríku sem Ari Egilsson stjórnar. Þar birtast margar merkilegar myndir. Þessi sýnir hæsta fjall Norður-Ameríku sem einmitt er í Alaska. Það er núna oftast nefnt Denali en hét áður Mount McKinley og er 6.190 m á hæð.


Miðað við ofangreindar tölur er ekkert undarlegt þótt fólk hafi snemma haft grun um að ef til vill væru að finna þarna tré og runna sem væru sæmilega vel aðlöguð veðurfari á Íslandi. Það hafði rétt fyrir sér. Samt er það svo að sumar tegundir eru illa aðlagaðar íslenskum aðstæðum. Þar er það ekki fyrst og fremst veðrið, heldur ljóslotan, sem skiptir máli. Þar sem úrkoma og hitastig er að jafnaði líkt og finna má á Íslandi erum við komin töluvert sunnar á hnöttinn. Sumar tegundir, t.d. birkitegundir, Betula spp., er meinilla við að vera fært norður eða suður fyrir það svæði sem þær hafa þróast á. Þá fer ljóslotan ekki saman við veðurfar og trén ruglast í ríminu. Aðrar tegundir láta þetta ekki trufla sig eins mikið. Að frátöldu íslensku birki (sem er mest plantaða tegundin á landinu og að auki sú eina sem myndar villta skóga) eru það tré frá Alaska, sem þróast hafa við svipað veðurfar og hér ríkir, sem mynda stærstan hluta plantaðra, íslenskra skóga.

Vetrarmynd úr skógum Alaska fengin héðan.


Tegundir

Í bókinni um tré og runna í Alaska er fjallað um 128 tegundir af 54 ættkvíslum og 19 ættum. Um muninn á þessum hugtökum má fræðast hér. Í bókinni segir að í Alaska séu trjákenndar plöntur (allt frá trjám og niður í lyngtegundir) 133.

Eftir að bókin var gefin út hafa nokkrar tegundir innan ættkvíslanna verið sameinaðar, enda mörkin milli skyldra tegunda og afbrigða ekki alltaf glögg. Tegundum hefur því fækkað á þessari hálfu öld sem liðin er frá útgáfunni. Sem dæmi má nefna að sitkaelri, Alnus sinuata, og grænelri, A. crispa, eru nú almennt talin vera afbrigði af kjarrelri A. viridis. Þá er heiti sitkaelris skráð sem Alnus viridis subsp. sinuata og grænelrið sem Alnus viridis subsp. crispa. Til að flækja málið enn frekar hafa vísindamenn nú tekið upp annað heiti, ef marka má The World Flora Online (WFO) Nú kallast þetta allt saman Alnus alnobetula samkvæmt þeim ágæta vef. Það breytir því samt ekki að lýsingarnar á elrinu í bókinni standast tímans tönn, þótt fræðiheitin hafi breyst. Rétt er líka að nefna að sjálfur Darwin benti á að það væri mannanna verk hvar við drögum mörk á milli tegunda. Það skiptir ekki öllu máli hvenær við köllum hóp lífvera tegund og hvenær undirtegund eða afbrigði.


Sitkaelri, eða sitkaölur, á Íslandi. Myndin sýnir fullþroskuð karlblóm, nýútsrprungin kvenblóm og opna frærekla frá fyrra ári, auk laufblaða.

Mynd: Sig.A.


Af þessum 19 plöntuættum sem finnast í Alaska eru níu sem eiga aðeins einn fulltrúa hver og tvær með tvo fulltrúa. Stærsta ættin er víðiættin, Salicaceae, með tvær ættkvíslir og 36 tegundir samkvæmt bókinni (Viereck & Little 1972). Önnur ættkvíslin, víðiættkvíslin eða Salix spp., er samt miklu stærri og reyndar sú stærsta í Alaska. Innan hennar eru 33 tegundir. Hin ættkvíslin, ættkvísl aspa, Populus spp., á aðeins þrjá fulltrúa en nú hafa tvær þeirra verið sameinaðar í eina. Í þessum pistli verða þær samt aðgreindar, enda löng hefð fyrir því á Íslandi. Af þeim ættkvíslum sem finna má í Alaska eru 31 sem hver um sig hefur aðeins eina tegund hver.

Þessar ættir og ættkvíslir mynda ýmist tré eða runna. Í bókinni er listi yfir stærð trjánna. Hér er hann settur upp í töflu. Rétt er þó að taka fram að hæð trjáa í Alaska getur verið frábrugðin sömu tegundum sunnar í Ameríku.


Taflan byggir á títtnefndri bók þeirra Viereck og Little (1972) miðað við þær upplýsingar sem þeir bjuggu yfir fyrir hálfri öld. Eins og sjá má telja þeir félagar að 33 tegundir nái þeirri hæð að geta kallast tré.


Í töflunni hér að ofan kemur fram að aðeins 12 tegundir teljast til stórra trjáa. Eftir því sem norðar dregur er vöxtur trjánna lægri svo þar eru engin stór tré. Aftur á móti eykst hlutdeild lægri runna eftir því sem norðar dregur. Stór tré eru mun algengari nærri ströndinni en inn til landsins. Spilar þar inn í að úrkoman er meiri nálægt Kyrrahafinu. Rétt er líka að taka fram að sumar af þeim tegundum sem taldar eru til stórra runna geta náð trjástærð við góð skilyrði.

Mynd úr skógum Alaska. Myndin fengin héðan þar sem hvatt er til skógarverndar. Greinin heitir Let It Be: Why We Must Save Alaska’s Pristine Tongass Forest.

Eigandi myndar: Wolfgang Kaehler / LightRocket via Getty Images


Helstu tré

Af þeim 12 tegundum trjáa sem ná meira en 21 m hæð vaxa 9 í strandskógunum en þrjár inn til landsins. Tvær tegundir, sem báðar vaxa í strandskógunum í suðaustur hluta ríkisins, ná því að verða mjög stór. Sitkagreni, Picea sitchensis, nær um 70 metra hæð í Alaska og þvermál stofna getur verið 2,5 m eða meira. Hin tegundin vex hægar en getur samt náð hátt í 60 metra hæð. Það er marþöll, Tsuga heterophylla. Næst í röðinni er alaskaöspin, sem í bókinni er kölluð populus trichocarpa en er nú talin afbrigð balsamaspar og skráð sem Populus balsamifera ssp. trichocarpa. Í þessari grein höldum við okkur við gamla nafnið: P. trichocarpa. Til er skráð dæmi um ösp í Alaska sem hefur 10 m ummáli stofns í brjósthæð. Hæð hennar var 30,8 m á en hún hafði brotnað. Því er ekki gott að segja hvað alaskaösp getur orðið stór. Samt er ljóst að hún er hávöxnust aspartegunda í heimi.

Haust í norðlægum skógi í Alaska. Þar verða trén mun lægri en sunnar og nálægt ströndinni. Myndin fengin héðan.

Þessar 33 tegundir trjáa í Alaska tilheyra 17 ættkvíslum innan 8 ætta. Tvær ættir bera þó greinar og lauf (ekki getum við sagt „höfuð og herðar“ um tré) yfir aðrar ættir. Það er þallarættin, Pinaceae, með níu tegundir og víðiættin, Salicaceae, með 11 tegundir sem teljast til trjáa. Engum blöðum er um það að fletta að sú fyrrnefnda er miklu meira áberandi í þroskuðum skógum. Hin síðarnefnda er meira áberandi eftir eitthvert rask, ásamt birki, Betula spp. og elri, Alnus spp.


Skógareldur í Alaska. Þegar hann hefur kulnað hefst ferli sem endar væntanlega aftur í barrskógi. Myndin fengin héðan.

Af þessum 33 tegundum segja þeir í bókinni að fjórar séu mjög sjaldgæfar og vaxi aðeins syðst í ríkinu og finnist varla nema sérstaklega sé eftir þeim leitað. Merkilegt má heita að tvær af þeim vaxa mjög vel á Íslandi. Önnur er fjallaþinur, Abies lasiocaroa, og hin er jörfavíðir, Salix hookeriana. Fjallaþinurinn vex ljómandi vel í Klettafjöllunum sunnan við Alaska og er þaðan kominn til okkar. Aftur á móti virðist þetta með jörfavíðinn vera mjög málum blandið. Margt bendir til þess að hann sé miklu algengari en sagt er frá í bókinni. Sennilega hafa menn ekkert endilega fyrir því að greina hann frá hinum líka alaskavíði. Séstsakur pistill um jörfavíði er tilbúinn og bíður birtingar. Í honum er farið nánar út í þessa sálma.

Hinar tvær mjög svo sjaldgæfu trjátegundir Alaska eru kyrrahafsýr, Taxus brevifolia og silfurþinur, Abies amabilis. Allar þessar fjórar tegundir eru algengari þegar komið er suður fyrir landamærin til Kanada og einnig víðar nálægt vesturströnd Bandaríkjanna.

Þrjár myndir af kyrrahafsý. Allar teknar sunnan landamæranna og fengnar af þessari síðu. Fyrsta myndin sýnir dæmigert „ber“. Hana tók C.J. Earle. Í miðið sést kyrrahafsýr sem runnakendur gróður með þintrjám og fleiru. C.J. Earle tók hana líka. Síðasta myndin sýnir stærðarinnar stofn af svona tré en hana tók Bob Pearson.

Engin trjátegund í Alaska telst vera í útrýmingarhættu og allar tegundirnar finnast einnig utan ríkismarkanna. Þó telja sumir að ákveðin afbrigði sumra trjáa finnist aðeins í Alaska. Við eltumst ekki við það í þessum pistli.


Silfurþinur er sjaldgæfur í Alaska. Í Washington myndar hann skóga eins og þennan. Myndin fengin héðan en hana tók Ed Book.


Nytjaviðir

Af öllum þessum trjám í Alaska eru það einkum 10 tegundir sem nýttar eru sem timburtré. Sex af þeim eru barrtré en fjórar teljast til sumargrænna lauftrjáa.

Í suðaustur hluta Alaska er að finna blandskóga þar sem greni og þallir eru helstu einkennistré. Helstu nytjaviðir í þessum skógum eru sitkagreni, Picea sitchensis, marþöll, Tsuga heterophylla, fjallaþöll, T. mertensiana, risalífviður, Thuja plicata og alaskasýprus, Chamaecyparis nootkatensis. Eina lafutréð sem er í þessum flokki er alaskaöspin Populus trichocarpa.

Í blandskógum barr- og lauftrjáa inn til landsins eru það aðalega hvítgreini, Picea glauca og þrjár tegundir lauftrjáa sem teljast til nytjaviða. Það eru balsamösp, Populus balsamifera, nöturösp, P. tremuloides og birkitegundin Betula papyrifera en hún kallast næfurbjörk á íslensku. Nánar verður fjallað um þessa skóga í næsta pistli um skóga Alaska. Hér að neðan eru myndir af þessum helstu tegundum trjáa í Alaska sem nefndar eru hér að ofan og teljast til timburtrjáa.


Það er ekki alltaf auðvelt að taka myndir af stórum trjám. Hér er blandskógur sitkagrenis og þalla í suðausturhluta Alaska. Myndin fengin af þessari sölusíðu og er eftir John Hyde.


Marþöll. Myndin fengin frá Wikipediu en hana tók Henry M. Jackson.


Fjallaþöll. Myndin eftir C. J. Earle og er fengin héðan.


Risalífviður við Jökullæk á Hallormsstað. Myndin tekin úr pistli um tegundina en hana tók Pétur Halldórsson.


Alaskasýprus. Myndin fengin af síðu um innlendar plöntur í norðvesturríkjum Bandaríkjanna.


Hvítgreni. Myndin fengin af síðu sem fjallar um villtar plöntur í Alaska.


Balsamösp í Denali þjóðgarðinum. Alaskaösp er nú talin undirtegund hennar.

Myndin fengin héðan en hana tók Philippe Clement.


Nöturösp og greni í Denali þjóðgarðinum. Myndin fengin frá USDA en hana tók Tim Rains.


Næfurbjörk. Myndin fengin að láni hjá Britannicu. Mynd: John Anderson/iStock.com


Stafafuran nær hvergi að mynda jafn stóra, samfellda skóga í Alaska og ofangreindar tegundir. Hún vex fyrst og fremst um ríkið sunnanvert og er því ekki að finna í meginlandsskógum Alaska. Við þurfum helst að vera komin yfir landamærin til Kanada til að finna almennilegar meginlandsfurur. Þessi stafafura er úr ræktun Aðalsteins Sigurgeirssonar að Bugum í Ölfusi. Þær eru af fræi sem ættað er frá Skagway í Alaska. Þær eru á mörkum þess að vera innlands- eða strandkvæmi en er oft flokkuð með því síðartalda. Mynd: Sig.A.


Ályktanir

Þeir frumkvöðlar skógræktar á Íslandi sem sóttu efnivið til Alaska vissu þetta allt saman. Þeir sóttu því í þennan efnivið. Spár þeirra um hvaða tré gætu þrifist hér með mestu ágætum hafa að mestu gengið eftir. Lýsingar á skógum Alaska hafa án efa fyllt þá andagift. Þegar við plöntum til skóga á 21. öld er gagnlegt að vita við hvaða aðstæður trén vaxa í heimkynnum sínum og hvernig skógarnir þar líta út. Þá getum við látið okkur dreyma um hvernig þessir skógar muni líta út um næstu aldamót.

Skógur í Alaska.

Myndin fengin af síðu þar sem 17 tegundum skóga í Alaska er lýst.


Heimildir:


Leslie A. Viereck & Elbert L. Little, Jr. (1972): Alaska Trees sand Shrubs. Agriculture Handbook No. 410. Forest Service. United States Department of Agriculture. Washingron D.C.


Í netheimildir er vísað beint í texta.

252 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarii


bottom of page